Fara í efni

VATN, EINKAVÆÐING, ESB OG ÍSLAND

Sæll félagi.
Framkvæmdastjórn ESB stefnir nú að einkavæðingu vatns í Evrópu! Gróði vatnsfyrirtækja í 3ja heiminum hefur ekki verið nægur og andstaðan víðast mikil svo það var fyrirsjáanlegt að þau stefndu á ríkari markaði. Nú kemur framkvæmdastjórn ESB fram með nýtt directive, samið samkvæmt ráðleggingum og ábendingum fulltrúa vatnfyrirtækja og fjármálahákarla, sem þrýstir á einkavæðingu vatns í öllum löndum ESB. Ekki bara í Portugal og Grikklandi, þar sem þríeyki ESB krefjast einkavæðingar opinberra vatnsfyrirtækja, heldur á það að verða almenna reglan. Og hvernig er svo vatnalögum Katrínar Júlíusardóttur háttað; allt grunnvatn er í eigu landeiganda; þegar og ef við göngum í ESB verður sveitarfélögum þrýst til að selja vatnsréttindi sín í hendur Vífilfells eða annarra slíkra. Lög um vatnsveitur á Íslandi, sem Valgerður setti, opna eins og þú veist manna best, alveg á að einkafyrirtæki geti í dag eignast 49% hlut í opinberum vatnsveitum. Því spyr ég enn og aftur: 1.Hvað líður breytingum á lögunum um auðlindir í jörðu (grunnvatnið) sem Samfylkingarfélagar þínir í ríkisstjórn lofuðu að "láta kanna"? 2.Hvaða þrýstingi hefur þú eða aðrir ráðherrar VG beitt Samfylkinguna í þessum efnum? 3. Og að lokum, telur þú ekki ástæðu til að breyta núgildandi lögum um vatnsveitur og tryggja betur að rekstur þeirra verði í framtíðinni í höndum hins opinbera? Sjá stuttan en áhugaverðan þýskan sjónvarpsþátt (með enskum texta) : http://www.youtube.com/watch?v=rbCD8HA11sg
mbkv.
Páll H. Hannesson

Verðugar spurningar af þinni hálfu eins og vænta mátti. 1. Þetta hefur ekki orðið að veruleika og bíður næsta kjörtímabils. Því miður! 2. Ég hef margoft tekið þessa umræðu upp eins og samráðherrar mínir geta vitnað um. 3. Svarið er játandi en mest aðkallandi er að breyta auðlindalöggjöfinni.
Ögmundur