Fara í efni

VART SÆMANDI OFSTÆKI

Orðið anarkismi er komið úr grísku og vísar í samfélag án valdboðs að ofan. Íslenska þýðingin er stjórnleysi sem mér finnst ekki nógu gott vegna þess að anarkisminn hefur í tímans rás tekið á sig ýmsar myndir og form sem byggja á fastmótuðu skipulagi. En anarkistar, hvort sem þeir standa til hægri eða vinstri, eiga það sameiginlegt að vilja forðast valdstjórn.
Þessi hugsun um samfélag án valdstjórnar hefur alltaf hrifið mig og þykir mér hún um margt skarast við það besta úr frjálslynidsstefnunni eða líberlisma, sem samkvæmt 19. aldar heimspekingnum John Stuart Mill, byggir á þeirri grunnhugsun að sérhver maður skuli vera frjáls gjörða sinna svo lengi sem hann skaðar ekki aðra. 

Að virða einstaklingsfrelsið
 

Á grundvelli anarkismans og líberalsimans hafa síðan þróast hugmyndir sem ganga í þveröfuga átt hvað frelsi einstaklingsins áhrærir eins og dæmin sanna: Nýfrjálshyggja Friedmans eldri (Miltons), gaf lítið fyrir einstaklinginn, þeim mun meira fyrir gangverk markaðsaflanna, og til eru útgáfur af anarkisma sem eru nánast ekkert annað en yfirgangur eða þá mannfjandsamlegt afskiptaleysi, samanber anarkó-kapitalisma Friedmans yngri (Daviðs).
Sama á að sjálfsögðu við um sósíalismann. Hann hefur tekið á sig margbreytilegar myndir, allt frá valdstjórnarkerfum sem predikuðu alræði öreiganna og sendu alla þá sem andæfðu í fangabúðir,  til mannúðar- og lýðræðissamfélags í ætt við hugmyndir Oscars Wilde, sem sagði að sinn sósílaismi ætti að vera einstaklingshyggja fyrir alla!

Á skrifstofu dómsmálaráðherra  

Formúlan sem byggir á jöfnuði, frelsi og virðingu fyrir einstaklingnum - samfélagi án valdstjórnar - er formúlan sem ég hef reynt að gera að minni. Í þætti Jóns Ársæls á Stöð 2 í vetur gerði ég grein fyrir þessum viðhorfum mínum og lýsti ég sjálfum mér í þessum anda sem blöndu af sósíalista, anarkista og líberalista.
Ef ég man rétt var þessi hluti viðtalsins tekinn á skrifstöfu dómsmálaráðherra en það hét embættið sem ég gegndi þá, og geri enn en nú undir breyttu heiti. Björn Bjarnason hefur sennilega kannast við húsgögnin því sjálfur var hann dómsmálaráðherra um árabil - og þar á undan og þar á eftir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn svo lengi sem elstu menn muna.

Björn bugast  

Þetta er greinilega tilhugsun sem er Birni Bjarnasyni ofviða að höndla. Ljóst er að hann hefur ekki náð sér fyllilega eftir þetta viðtal í Sjálfstæðu fólki Jóns Ársæls, því svo ofarlega er honum það í sinni að þegar hann nú í vikubyrjun sá ástæðu til að hnútukastast út í mig, þá dúkkar upp þessi hugsun: Það er kominn anarkisti í ráðuneytið mitt!
Ráðuneytið hét til skamms tíma Dóms- og mannréttindaráðuneyti. Skyldi það vera almennt viðhorf í íslensku þjóðfélagi að varasamt sé að hafa í mannréttindaráðuneyti - og þess vegna dómsmálaráðuneyti -  ráðherra sem er efins um valdstjórn og vill samfélag sem ekki byggir á yfirgangi og undirokun? Eða skyldi vera eftirspurn eftir þeim viðhorfum sem fram koma hér í skrifum  Björns Bjarnasonar?:
Sjálfum finnst mér þau vera ofstækisfull  - vart sæmandi virðulegum lífeyrisþega, Birni Bjarnasyni.
http://www.amx.is/fuglahvisl/16626/