Fara í efni

Varnaðarorð SÞ og fjölmiðlagagnrýni

Fréttir berast nú frá Írak um neyðarástand víða í landinu. Alvarlegur vatns- og rafmagnsskortur er í borginni Basra sem Bandaríkjamenn og Bretar sitja nú um.  Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segja að eitt hundrað þúsund börn undir fimm ára aldri í borginni séu í lífshættu vegna vatnsskorts og meltingarsjúkdóma. Kofi Annan aðalritari SÞ segir skv. New York Times að velferð borgaranna sé á ábyrgð innrásarhersins (occupying power). Varaði hann við því að við stæðum frammi fyrir stórfelldum mannlegum hörmungum.

Í fréttafrásögnum af innrásraliðinu kemur fram að það komi stjórnendum þess á óvart hve hægt sóknin gengi og hve mótstaða væri mikil. En mér er spurn. Við hverju bjuggust menn eftir 12 ára viðskiptabann og nú árásir sem eyðileggja vatnsveitur, skólplagnir, rafveitur, spilla samgöngum… Búast menn virkilega við um eintómum húrrahrópum frá hinum þjáðu þegar sá sem fyrirskipaði viðskiptabannið og hendir nú  sprengjum á þá mætir á vettvang?

Það var gott framtak Kastljósmanna RÚV að fá Magnús Hallgrímsson til að segja okkur frá afleiðingum hörmunganna en hann vann við hjálparstarf í Írak um nokkurt skeið og þekkir afleiðingar stríðsins 1991 og viðskiptabannsins í kjölfarið. Það var að vísu svolítið skrítið að framhald yrði ekki á þeirri umræðu og engin tilraun gerð til að tengja áhrifaríkar lýsingar hans við veruleikann í dag og þá ábyrgð sem íslensk stjórnvöld axla með því að styðja árásina á  Írak. Páll H Hannesson blaðamaður til margra ára ræðir hlut fjölmiðlanna í fjölmiðladálki heimasíðunnar í dag undir fyrirsögninni: Að smána fána og skera úr mönnum  tunguna.