Fara í efni

VARNAÐARORÐ LÆKNA

LSH - ÞJ - LFÍ
LSH - ÞJ - LFÍ


Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands hefur kvatt sér hljóðs í fjölmiðlum að undanförnu um kjör lækna og ástandið í heilbrigðismálum í landinu, ekki síst á Landspítalanum.  Aðrir forsvarsmenn lækna hafa einnig kvatt sér hljóðs að ógleymdum Sigurði Guðmundssyni, fyrrverandi landlækni , sem skrifaði beittar greinar í aðdraganda kosninga og einnig að þeim loknum.
Þessir aðilar eru allir uppi með varnaðarorð.
Fram kemur hjá Þorbirni Jónssyni, formanni Læknafélagsins, að hann telji að alltof langt hafi verið gengið í niðurskurði og aðhaldi á undanförnum árum og að langan tíma muni taka að vinda ofan af vandanum. Niðurskurður hafi verið viðvarandi í áratug en steininn tekið úr við hrunið og síðan í kjölfar þess. „Peningar eru dráttarklárinn í þessu eins og svo mörgu öðru,"  segir hann í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Hann vísar þar jafnframt til félagslegrar ábyrgðar lækna en segir að þótt ættjarðarástin sé ágæt þá dugi hún ekki ein og sér.
Reyndar hafa læknar og heilbrigðisstarfsfólk almennt sýnt ótvíræða ást á samfélagi sínu og ríka samfélagsábyrgð á undangengnum þrengingarárum. Ég hef oft haft orð á því í umræðu um niðurskurð til samfélagsþjónustunnar að munur sé á því að sveigja grein og brjóta hana. Því miður óttast ég að einhverjar greinar - þar á meðal burðargreinar - hafi brotnað í heilbrigðisþjónustunni í niðurskurði undangenginna ára. Við þessu þurfa stjórnmálamenn að gangast og sameinast í uppbyggingarátaki.
Það er ánægjulegt að undir slík sjónarmið taki nýr heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson. Um Landspítalann segir hann í fyrrnefndri umfjöllun Morgunblaðsins: „Það er full ástæða til þess að gefa gaum þeim viðvörunarorðum og áhyggjum sem læknar hafa af starfsemi spítalans ." Kristján þór hefur einnig sagt að einkavæðing sé ekki á dagskrá.  Það eru mikilvæg skilaboð. Enda væri slíkt ávísun á mismunun sem aldrei yrði sátt um.
Nú bíðum við nýs fjárlagafrumvarps. Þar hlýtur að verða bætt í við heilbrigðisþjónustuna. Annað væri ekki í samræmi við yfirlýsingar fyrir og eftir kosningar.
Á meðan við bíðum er aflétt auðlegðarsköttum og auðlindasköttum. Landsbankinn vill byggja nýtt. Og borað er í fjöllin. Það er ekki ókeypis. Það verður heldur ekki ókeypis að eyðileggja heilbrigðiskerfi þjóðarinnar.