Fara í efni

VARNAÐARORÐ FRÁ STARFSMANNI REYKJAVÍKURBORGAR

Fyrir fáeinum dögum skrifaði ég grein hér á síðuna um fyrirhugaða sölu á Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar og hafði þar uppi efasemdir og varnaðarorð. Lesendur, svipaðs sinnis og ég, hafa skrifað mér um þetta efni og nokkrir hafa haft samband á annan hátt. Nú síðast skrifar mér "fimmtugur borgarstarfsmaður". Telur hann það vera hið mesta glapræði að selja miðstöðina og færir greinargóð rök fyrir sínu máli. Augljóst er að hann þekkir vel til mála og væri fráleitt annað en að íhuga orð hans vel. Hvet ég fólk til að lesa bréf hans en það er að finna í lesendadálkinum auk þess sem slóðin er hér að neðan.
Látum vera ef verið væri að setja á markað starfsemi þar sem yrði um bullandi samkeppni að ræða og hægt væri að réttlæta söluna í ljósi þessa. Ef hins vegar hið gagnstæða er líklegt að verða uppi á teningnum, salan myndi að öllum líkindum leiða til fákeppni og einokunar þar sem borginni sem kaupanda þjónustunnar yrði stillt upp við vegg, hún yrði að taka þeim tilboðum sem henni yrðu gerð í einstök verk, því í annað hús væri ekki að venda, þá væri augljóslega ver farið en heima setið.
Síðan eru það verðtilboð áhugasamra kaupenda, sem "fimmtugur borgarstarfsmaður" víkur að. Hann telur þau fráleit. Sjálfur er ég ekki fær um að meta þetta. Hitt veit ég að Vélamiðstöðin hefur aldrei verið baggi á Reykjavíkurborg og af henni hefur alla tíð verið hagnaður sem runnið hefur í borgarsjóð. Þá veit ég að enda þótt Reykjavíkurborg hafi nú látið "eignina" í söluútboð er ekki þar með sagt að Reykjavíkurborg þurfi að taka hvaða tilboði sem er. Enn er á það að líta, að hér hafa nú skapast aðstæður á fjármálamarkaði þar sem samþjöppun hefur keyrt úr hófi fram, tíu til fimmtán einstaklingar eru að sölsa undir sig nánast allar verðmætar eignir þjóðarinnar. Allt þetta gefur tilefni til að Reykjavíkurborg endurskoði áform um sölu Vélamiðstöðvarinnar.

HÉR
er bréf "fimmtugs borgarstarfsmanns".
Og HÉR er upprunalegur pistill minn.