Fara í efni

VANHÆFIR STJÓRNENDUR

Birtist í Fréttablaðinu 29.10.07.
Stjórnendur hjá ríkisstofnunum tóku nýlega þátt í könnun á eigin vegum, að því er mér skilst, þar sem þeir komust að þeirri niðurstöðu að þeim bæri meiri völd til að ráðskast með réttindi og kjör starfsmanna. Þar með ættu þeir að geta rekið fólk skýringalaust ef svo bæri undir. Þar er átt við að losna þurfi við svokallað lögbundið áminningaferli við uppsagnir. Það felur það í sér að ef reka á starfsmann þurfi að veita honum viðvörun og gefa kost á því að leiðrétta hugsanlegan misskilning eða bæta sig í starfi ef viðkomandi hefur ekki staðið sig í stykkinu. Þetta ferli er til þess að koma í veg fyrir geðþóttastjórnun og jafnframt tryggja sjálfsögð mannréttindi á vinnustað. Sú ranghugmynd hefur lengi verið á sveimi um opinbera starfsmenn, að við þeim sé ekki hægt að hrófla hvað sem á gengur.
Fyrir það fyrsta taka vinnustaðir iðulega breytingum í samræmi við breyttar aðstæður. Þá er hægt að ráðast í skipulagsbreytinar og hreinlega leggja niður störf. Viðkomandi starfsmaður átti við slíkar aðstæður rétt á svokölluðum biðlaunum í bætur, sex mánuði eða tólf eftir starfsaldri viðkomandi. Biðlaunarétturinn gildir þó aðeins fyrir þá sem voru í starfi fyrir 1997 því þá var þessi réttur afnumin illu heilli. Í annan stað er hægt að segja fólki upp störfum en þá með skýringum sem eiga að þola dagsljósið. Í rauninni snýst þetta fyrst og fremst um að fólk tali saman og að á stjórnanda hvíli skyldur, ekki síður en starfsmanni. Í þriðja lagi er þess að geta, að hafi starfsmaður brotið alvarlega af sér er brottrekstur heimill.
Ef um er að ræða samskiptavanda á vinnustað getum við ekki gefið okkur að sökin sé  starfsmannsins, stjórnandinn gæti verið vandamálið. Ég þekki fjölda vandaðra stjórnenda hjá hinu opinbera, sem líður ágætlega við það lagalega og samningsbundna umhverfi sem þeim er búið. Skyldu það vera vanhæfustu stjórnendurnir sem mest ásælast aukin völd?