Fara í efni

VANGAVELTUR Í FRAMHALDI AF FYRIRLESTRI UM ÞJÓÐFLUTNINGA

Erlent vinnuafl
Erlent vinnuafl

Catherine de Wenden, sérfræðingur í þjóðflutningum, hélt í gær fróðlegan hádegisfyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í samvinnu við sendiráð Frakklands á Íslandi. Fyrirlesturinn bar heitið: Hnattvæðing í ljósi þjóðflutninga: umfjöllum um suðlæg ríki.

Margt umhugsunarvert kom fram í fyrirlestrinum.

*Í ljósi misskiptingar í heiminum (sem ætti að knýja fólk að flýja úr örbyrgð til betur stæðra svæða) væru fólksflutningar ótrúlega smáir í sniðum. Þetta er þvert á það sem almennt er talið. Ef litið er til mannskynsins alls, sem telur vel rúma sjö milljarða, hafa aðeins rúm 3,0% af íbúum jarðar flust búferlum landa í millum eða um 240 milljónir manna (hér er eingöngu átt við svokallaða löglega innflytjendur). Slílkir flutningar hafa reyndar farið hraðvaxandi á síðustu árum.

*Svæðisbundnir flutningar eru hlutfallslega að aukast þegar horft er til slíkra flutninga. Sem dæmi þar um, þá færist í vöxt að fólk um sunnanverða Afríku flytjist landa í milli. Sama á við um aðra hluta heimsins. Fjórða stærsta þjóðarbrot í Frakklandi, Spáni og Portúgal (ég held ég hafi náð því rétt) eru Bretar sem flust hafa suður á bóginn á efri árum til að setjast að í sólinni.

*Tveir þriðju af íbúum jarðar þurfa sérstaka heimild (visa) til að ferðast á milli landa. Fólk á suðlægum slóðum á hins vegar greiðan aðgang að löndum á sömu slóðum og gildir hið sama almennt um hinar norðlægu slóðir.

*38 milljónir eru svokallaðir umhverfisflóttamenn. Hafa þurft að flýja heimkynni sín af völdum umhverfisáhrifa.

*Opnustu lönd fyrir aðkomufólk eru ekki ríku samfélögin í norðri - fjarri því. Íran hafi tekið á móti um 6 milljónum erlendis frá síðan um frá aldamót. Frá Pakistan sé svipaða sögu að segja.

Margt fleira kom fram hjá fyrirlesara, svo sem vangaveltur í kjölfar fyrirspurnar um áhrif sögulegrar arfleifðar á viðhorf stjórnvalda og almennings.  Þannig væru Bandaríkjamenn meðvitaðir um að sjálfir væru þeir  þjóð innflytjenda og hefði það að verulegu leyti mótað viðhorf bandarískra stjórnvalda. Þess má geta þótt ekki kæmi það fram í dag að samkvæmt tölum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna er nú tíu og hálf milljón manna skilgreindir sem flóttamenn og af þeim sé brýnt að finna 690 þúsund manns ný heimkynni á þessu ári. Árlega taka Bandaríkjamenn að jafnaði á móti tveimur þríðju hlutum þessa stóra hóps. 

Spurt var um áhrif félagslegra og efnahagslegra röksemda í umræðu um fólksflutninga. Ég kvaðst minnast þess að heyra stjórnmálamenn í Svíþjóð viðra viðhorf sín og hefði fulltrúi hægri manna verið talsmaður mestrar opnunar. Og þegar hann hafi verið spurður hvernig hann vildi bregðast við ef fólkstraumurinn yrði svo ör og álagið á velferðarkerfið svo mikið að það gæti ekki veitt þá þjónustu sem það nú gerir, þá hefði hann svarað því til að við því væri ágætt ráð: Einkavæða kerfið og selja að því aðgang.
Með öðrum orðum - og kæmi það heim saman við keninngu fyrirlesara  um auðvelt aðgengi á milli landa í norðri annars vegar og suðri hins vegar, að aðgangurinn væri auðveldari þar sem þjóðfélagsaðstæðum svipaði til (enda þrýstingurinn ekki eins mikill að sækja í eftirsóknarverðari lífsskilyrði).

Fyrirlesari sagði marg sannað að fólksflutningar væru efnahagslega örvandi  og væri frjálslynt fólk löngu búið að viðurkenna það. Dró hún hina pólitísku línu í þessu efni um frjálslyndi annars vegar og stjórnlyndi hins vegar en ekki hægri og vinstri stefnu. 

Sjálfum finnst mér hér einfaldað um of. Þegar uppgangur hefur verið í Evrópu verður til þörf á vinnandi höndum þar, svo augljóst dæmi sé tekið, eða nú, þegar þjóðirnar eldast, þá gerist þörf á ungu fólki til að ala hinum eldri önn. Hinir ungu þurfa að koma utan að þegar dregur úr fæðingatíðni og fólkinu fækkar í Evrópu. Allt virðist þetta liggja í augum uppi. Þegar hins vegar samdráttur er mikill, enga vinnu að hafa, jafnvel fjórðungur vinnufærs fólks án atvinnu eins og þekkst hefur í ríkjum Evrópusambandsins um sunnanverða álfuna á undanförnum misserum, þá getur álagið á öryggisnet velferðarþjóðfélagins orðið svo mikið að það hreinlega rifni. Við slíkar aðstæður á umburðarlyndi erfitt uppdráttar. Þetta segir mér alla vega, að spurningin í þessu sem svo mörgu öðru snúist um jafnvægi.

Á fyrirlestrinum spurði einn fundargesta, hvort það væri siðferðliega rétt fyrir hin ríku lönd - ekki orðað þannig en þetta lá í spurningunni  -  að kalla til fólk frá fátækum ríkjum að vinna störf sem allir væru farnir að fúlsa við. Þetta þótti mér góð spurning. Kannski hefði þurft að reyna meira á regluna um framboð og eftirspurn í láglaunageiranum innan samfélagsins áður en markvisst er flutt inn láglaunavinnuafl eins og gert var hér við Kárahnjúka-stíflugerðina.  Ef til vill hefðu launahlutföllin á endanum tekið breytingum, erfiðum láglaunastörfum í hag ef ekkert utanaðkomandi vinnuafl hefði verið að hafa.
Það er ábyrgðarhluti að kalla fólk til að sinna láglaunastörfum tímabundið - einsog gert var við gerð Kárahnjúkavitkjunar. Í mínum huga er það svo að þegar fólkið er komið til starfa og búsetu hefur það öðlast siðferðilegan rétt á borð við aðra landsmenn til landsins gagns og gæða.

Auðvitað er hin stóra siðferðilega spurning hvort yfirleitt sé réttlætanlegat að meina fólki að búa þar sem það vill. Í hjarta mínu finnst mér svo ekki vera.  Þarna rísa hins vegar miklar siðferðilegar spurningar  eins og fram kom í áður tilvitnuðu máli sænska markaðshyggjumannsins. Það vafðist ekki fyrir honum að búa til velferðarkerfi sem mismunaði innan samfélagsins, þar sem fólk fengi aðgang að velferðinni  eftir efnahag. Ekki get ég tekið undir með honum - og reyndar  óravegur okkar í milli í afstöðu.

En aftur að jafnvæginu. Það mun aldrei nást fyrr en lífskjör í heiminum eru jafnari en þau eru núna. Það mun ekki gerast af sjálfu sér . Það þarf gerendur og þar höfum við öll ábyrgð að axla.