Fara í efni

VANGAVELTUR AÐ LOKNUM KOSNINGUM

2013 kosn - úrslit - mat
2013 kosn - úrslit - mat

Nú er keppst við að rýna í úrslit nýafstaðinna kosninga og senn kemur í ljós hvert stjórnarmynstrið verður. Mín skoðun er sú að Framsóknarflokknum, sem nú hefur verið falið stjórnarmyndunarhlutverk, væri heilladrýgst að horfa yfir á félagshyggjuvæng stjórnmálanna og freista stjórnarmyndunar við Vinstrihreyfinguna grænt framboð og Samfylkingu.

Miðju/vinstristjórn

Sl. föstudag birti ég grein í DV þar sem ég orðaði þessa hugsun: Þriðji kosturinn væri svo að líkindum samsteypustjórn Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þetta væri að mínu mati besti kosturinn í þröngri stöðu. Ástæðan er sú að með þessu móti yrði samvinnu- og félagshyggjustrengurinn hrærður í báðum þessum samstarfsflokkum VG. Þetta er raunhæfur kostur. Þessir flokkar gætu saman náð ágætum meirihluta."
Framsetning fjölmiðla er hins vegar með þeim hætti að eðlilegt sé að dansparið frá 1995-2007, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, taki ballskóna út úr skápnum. Á þessum árum voru stigin dansspor sem enn hræða - þau spor eru skráð á spjöld Íslandssögunnar.

Efnahagshrunið ekki til!

Eftirtektarverðast var í þessari kosningabaráttu og í umræðum að henni lokinni, til dæmis í Silfri Egils á sunnudag, að engu líkara var en efnhagshrunið 2008 hefði aldrei átt sér stað. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur komu að borði án þess að eiga sér nokkra fortíð. Aldrei var af hálfu fjölmiðla reynt að máta skattalækkunartal Sjálfstæðisflokks inn í gjörðir þeirra í þeim efnum í samstarfi við Framsóknarflokkinn á þremur kjörtímabilum í aðdraganda hrunsins. Aldrei var spurt í þaula um áform þeirra í atvinnumálum eða  virkjanamálum. Fjölmiðlar hafa sér til málsbóta að framboðin voru mörg og rödd þeirra allra þurfti að heyrast. En ekki varð þetta til að stuðla að upplýstri umræðu um raunveruleg áform flokkanna.
Afleiðingar efnahagshrunsins voru hins vegar meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar allt undangengið kjörtímabil og grúfði skuggi þess yfir þjóðfélaginu allan þennan tíma eða fram undir lok kjörtímabilsins þegar heldur fór að rofa til. Ekki vottaði fyrir því að stjórnarandstöðuflokkarnir og alltof sjaldan spyrlar á fjölmiðlum, sýndu stjórnarflokkunum sanngirni vegna þessa, hvað þá að þeir fengju að njóta árangurs af því sem vel hafði tekist.  Ríkisstjórnarflokkarnir voru nauðbeygðir til að grípa til gtttmikilla aðgerða, niðurskurðar og skattbreytinga VEGNA hrunsins sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu skapað umgjörð um í lögum og regluverki: Gerum Ísland einfaldara og virkjum eignagleðina, hét það á þeirra tungumáli, þegar múll og beisli voru tekin af ótemju markaðshyggjunnar. Allt þetta samhengi var nú að engu gert.

VG geldur brotthvarfs

VG tapaði fylgi í þessum kosningum. Fyrir því eru eflaust margar ástæður. Veigamest er sennilega sú að fólki hafi mislíkað hve langt var gengið í því að hlíta ráðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvað varðar skuldavanda heimilanna en hann lagði blátt bann við almennri skuldaniðurfærslu eins og Hagsmunsamtök heimilanna lögðu til. Þá hygg ég að stuðningsfólki VG hafi mörgu þótt ríkisstjórnin ganga of langt í niðurskurði innan velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og löggæslu, svo og almannatrygginga. Síðan komu upp mál sem reyndust VG erfið svo sem ívílnunarsamningarnir vegna Bakka á síðustu metrunum. Þá tel ég að ákvörðun um að setja Vaðlaheiðargöng í framkvæmd utan ramma samgönguáætlunar hafi minnt óþægilega á starfshætti sem margir vilja að heyri liðinni tíð.
Út undan mér heyrði ég Egil Helgason, þáttastjórnanda á RÚV, tala um fólk sem gengið hefði úr þingflokki VG á tímabilinu eða horfið annað eins og einhverja óværu sem VG hefði þvegið af sér. Staðreyndin er sú að um framangreinda þætti var tekist á í þingflokki VG á síðasta kjörtímabili - um skuldamál heimilanna, niðurskurðinn, Magma, Icesave, ESB og fleira eins og frægt er orðið. Frá mínum bæjardyrum séð er gagnrýnin innri umræða af hinu góða og skilar sér í betri stjórnmálum. Og satt best að segja hefði verið betra fyrir fráfarandi ríkisstjórn að láta reyna á þolrif Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og jafnframt að hlusta af meiri athygli á áhyggjur af skuldamálum heimilanna, finna betri jafnvægislínu í niðurskurðinum og þannig hlífa samfélaginu betur. Síðast en ekki síst, ekki  ætlast til að stjórnarmeirihlutinn samþykkti Icesave blindandi. Gæti verið að ef þetta hefði verið gert og ef VG hefði haldist betur á fólki, hefðum við haft víðari skírskotun í kosningum?

Stjórnarskrá og lyf

Samfylkingin fór illa út úr kosningunum. Eftir á að hyggja hefði nýkjörinn formaður, Árni Páll Árnason, átt að láta kjörtímabilið renna til enda áður en hann reyndi að stjórna atburðarás innan veggja þingsins eins og hann reyndi að gera eftir að stjórnarskrármálið var komið í algert klúður.
Innkoma Árna Páls  í stjórnarskrármálið á lokametrum skaðaði hann og flokkinn þótt málefnalega stæði hann rétt að verki. Vandræði Samfylkingarinnar voru hins vegar margþætt. Skammtímaminnið sem kjósendur völdu að viðhafa reyndist henni erfitt eins og Vinstri grænum, auk þess sem horft var fram framhjá því sem vel hefur verið gert á síðustu árum en einblínt á hitt sem miður fór.
Þá er ekki hægt að horfa framhjá breyttum lögum um lyfjaniðurgreiðslu. Þegar Guðlaugur Þór Þórðarson vildi koma á kerfi af þessu tagi í heilbrigðisráðherratíð sinni andæfðum við þessu hástöfum og sjálfur neitaði ég að taka kerfið upp þegar ég var heilbrigðisráðherra. Taldi rangt að líta á sjúklinga sem mengi sem jafna ætti kostnað á innbyrðis. Þegar síðan stefndi í að svo yrði gert lagði ég áherslu á að þetta mætti ekki innleiða nema með miklu viðbótarfjármagni. Önnur forsenda væri sú að allt kerfið yrði innleitt, það er að allur lækniskostnaður yrði tekinn inn. Það kallaði síðan á að læknum í einkapraksís hefði áður verið komið undir sjúkratryggingar þannig að þeir lékju ekki lausum hala með markaðsprísa á þjónustu sinni.
Ef allt þetta gengi eftir gæti kerfið orðið mjög til góðs. Að þessari heildstæðu lausn vann Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, en vannst ekki tími til að klára. Því miður. Fyrir vikið reyndist þetta ríkisstjórninni dýrkeypt.

Einblínt á ESB

Akkilesarhæll Samfylkingarinnar varð þó tilfinnanlegastur þegar kjósendur uppgötvuðu að þar var bara ein lausn á borð borin við öllum vanda: Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru. Björt framtíð komst að sönnu upp með sams konar tal en fyrir Samfylkinguna gekk þetta ekki. 
Fólki var ofboðið. Var komið með ógleði af því einu að ræða Evrópusambandsaðild. Þetta reyndist líka banabiti Regnbogans. Tvær hliðar á sama peningnum. Ef til vill var það einnig svo með Lýðræðisvaktina, að áherslan á stjórnarskrána eina var ekki nógu sannfærandi fyrir kjósendur.
Að mínu mati er alrangt að skella skuldinni vegna ófara Samfylkingarinnar á Árna Pál sérstaklega. Málið á dýpri rætur en svo, þar á meðal í áherslum, forgangsröðun og vinnulagi á kjörtímabilinu. Það er hins vegar dæmigert fyrir stjórnmálalíf sem byggist á upphafningu foringja, að hefja þá til skýjanna eða þá finna þeim allt til foráttu. Þar með er meðreiðarfólkið hvítþvegið af allri ábyrgð.

Dulmálskóðar D

Sjálfstæðisflokkurinn hótar stóriðjustefnu og skattalækkunum en þorði aldrei að ræða málin beint út í kosningabaráttunni. Hefur enda löngum valið að tala einhvers konar dulmál: Koma skal á „fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðiskerfinu", sagði flokkurinn þegar í reynd hann meinti einkavæðingu. Björt framtíð talaði þetta sama tungumál í kosningabaráttunni og verður fróðlegt að sjá hvernig sá flokkur kemur að málefnum heilbrigðisþjónustunnar.
Dulmálið sem Sjálfstæðisflokkurinn notaði um stefnumörkun í atvinnumálum í aðdraganda kosninganna var að gerðir verði „þjóðarsáttarsamningar" um atvinnuuppbyggingu. Þar horfir Sjálfstæðisflokkurinn til þeirrar áherslu sem stofnanaveldi atvinnulífsins, SA og ASÍ, hefur lagt á stóriðju - og klifað á allt undangengið kjörtímabili. Þessir aðilar vildu líka hraðbrautir sem rukkað yrði fyrir með vegatollum, helst þó með þeim hætti að fjárhagsleg áhætta væri ríkisins og alfarið óháð því hvort fólk hefði yfirleitt áhuga á að borga til að komast örlítið hraðar á milli staða á annatímum.

Framsókn trúað

Framsóknarflokkurinn var ekki bara kosinn vegna kosningaloforða sinna heldur vegna þess að í iðrum sínum fyndi flokkurinn til með skuldugu fólki. Slíkt er auðvelt að skynja. Síðan kemur að því að framfylgja loforðum. Þá er mikilvægt að horfa til samherja sem kunna að deila þessari grundvallarafstöðu gagnvart skuldugu fólki, ofríki fjármálakerfisins og oftöku þess!
Framsóknarflokkurinn komst hins vegar alltof auðveldlega frá umræðunni um skuldamálin og síðan hvernig ná megi í milljarða-hundruðin frá erlendum kröfuhöfum sem síðan megi nota í að færa niður lán. Hvaða lán nákvæmlega? Því fékkst aldrei skilmerkilegt svar við frá Framsóknarflokknum. Og hvernig stóð á því að Framsóknarflokkurinn studdi ekki - né heldur Sjálfstæðisflokkur - frumvarp Steingríms J. Sigfússonar í vetur þar sem kröfuhafarnir voru færðir undir gjaldeyrishöft? Höfðu meira að segja, ásamt Sjálfstæðisflokki, hamast gegn gjaldeyrishöftum sem eru lykillinn að góðri samningsstöðu fyrir Ísland. Ríkisstjórnin hafði að sjálfsögðu áform um að komast að hagstæðum kjörum fyrir Ísland og hafði lengi unnið að svipaðri lausn og Framsókn gaf til kynna að hún hefði fundið upp. Það gerði sá flokkur ekki, hafði meira að segja unnið gegn því að koma okkur upp þeirri samningsstöðu sem ríkisstjórnin gerði í reynd!

Götóttur málflutningur

Síðan vantaði allar útfærslur hjá Framsókn og það sem verst var, að stærsta skuldaranum var jafnan sleppt þegar kom að því að ræða hverjir ættu að njóta góðs af hugsanlegum ágóða, nefnilega ríkissjóði. Og hver er ríkissjóður? Það er til dæmis Landspítalinn, Almannatryggingar, Landhelgisgæslan, lögreglan  og Menntaskólinn við Sund. Urðu þessir aðilar ekki fyrir forsendubresti í bankahruninu vegna þrengri stöðu ríkissjóðs? Skyldi verðbólguskotið ekki hafa bitnað á skuldum ríkissjóði og sveitarsjóðum og þar með allri almannaþjónustnni?
En á ekkert að bæta þessum aðilum? Allt þetta vantaði inn í reikniformúlur Sigmundar Davíðs og félaga. Með ólíkindum má heita hve langt Framsókn komst þrátt fyrir svarleysi sitt!  Óútskýrð gylliboð voru tekin góð og gild. Svo er hitt að vinna má úr góðum ásetningi Framsóknarflokksins og er það væntanlega úrlausnarefnið í stjórnarmyndunarviðræðunum sem nú eru að hefjast.

Bisnisshugsun og samvinnutaug

Menn velta því fyrir sér hvar Framsóknarflokkurinn raunverulega stendur í stjórnmálum. Þótt ég hafi sagt, t.a.m. í þessum skrifum, að flokkurinn eigi sér sterka samvinnutaug þá er líka til hins að líta, að hann hefur framfylgt ítrustu frjálshyggju í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Spurningin er sú hversu djúpt frjálshyggjan hefur náð að skjóta rótum í flokknum og að hvaða marki Framsókn hefur tekist að losa um krumlu peningahagsmunaaflanna. Það vekur hins vegar athygli að Sigmundur Davíð talar á köflum eins og bisnissmaður fremur en samvinnumaður, til dæmis í tilvitnuninni í orð hans á forsíðu Fréttablaðsins á kosningadag. Þar talaði hann um að nánast heil kynslóð sé „með neikvætt eigið fé". Flest fólk talar um að það skuldi mikið í íbúðinni sinni eða eigi erfitt með að borga af lánunum. En þrátt fyrir svona tal bind ég vonir við að í formanni Framsóknarflokksins blundi gamla samvinnuhugsjónin, sem reyndar oft hefur komið fram í málflutningi hans.

Hið pólitíska hjól uppgötvað

Bjartri framtíð tókst bærilega upp. Guðmundur Steingrímsson talaði líkt og finna þyrfti upp hið pólitíska hjól á Íslandi. Hér væri engin hagstjórn og allt í molum. Fólk kynni ekki að tala saman. Menn ættu að sameinast um markmið og síðan ræða leiðirnar. Þetta kom spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að okkur tókst að komast úr rúmlega 200 milljarða hallarekstri ríkissjóðs í jöfnuð, helminga atvinnuleysi og hefja uppbyggingu á efnahagsrústunum. Engin hagstjórn? Allt í molum?
Síðan er það hitt að um sumt hafa stjórnmálaflokkar mismunandi markmið, Evrópusambandsaðild, stóriðjustefnu, náttúruvernd og fleira. Um annað eru markmiðin sameiginleg en leiðirnar mismunandi. Allir vilja öflugt velferðarkerfi svo dæmi sé tekið. Stjórnmálin snúast þá um hvaða leiðir stjórnmálaflokkar bjóða upp á til að ná þessum markmiðum. Eflum við velferðarkerfið með okkar sameiginlegu sjóðum eða með því að rukka fólk við spítala-innganginn? Björt framtíð komst hjá því að ræða þessar spurningar á dýptina. Sem áður segir átti hún eina lausn, taka upp evru og síðan myndu menn spjalla saman um allt það sem gera þyrfti. Það væri alveg ný tegund f stjórnmálum!

Villandi málflutningur Pírata

Píratar tifuðu á því að þeir væru sérstakir talsmenn internetsins og beins lýðræðis. Ekki viljum við kannast við það í Innanríkisráðuneytinu að þau hafi verið ein um þann áhuga. Það sem meira er, hér á bæ höfum við sýnt áhugann í verki. En slíkar aðgerðir vöktu takmarkaðan áhuga Pírata, sem voru óþreytandi við að eigna sér internetið, með skírskotun til þess hve mikið þeir hafa notað það í gegnum tíðina og að þeir - einir - skilji hina flóknu þræði alnetsins.
Einn helsti talsmaður hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, hafi enda komið að því að „móta það frá grunni", eins og hún sagði sjálf í blaðaviðtali, þar sem hún jafnframt lýsti yfir ást sinni á netinu, það væri heimili sitt og að hún sjálf væri „fyrir mörgum orðin hið pólitíska andlit netsins". Þetta er ekki umræða sem fólki er boðið að taka þátt í, þetta er umræða hinna sjálfskipuðu fáu, útvöldu.
Reyndar kom mér á óvart hve villandi málflutingur Pírata var og hve langt sá málflutningur gekk í þá átt að þagga niður umræðu annarra. Það var ekki síst undarlegt í ljósi þess að Píratar gefa sig út fyrir að vera málsvarar opinnar umræðu.

Látum ekki þagga umræðu

Birgitta Jónsdóttir reyndi til að mynda að gera Pírataflokkinn eftirsóknarverðan sem valkost gagnvart þeim sem ekki vildu setja „ríkissíu á internetið" til að verjast klámi. Innanlands og utan talaði hún og skrifaði  um baráttu sína gegn „klámfrumvarpi" innanríkisráðherrans og „klámstofunni" sem hann hygðist setja á laggirnar.
Nú var hvorugt þetta rétt. Ekkert frumvarp er komið fram sem fjallar um aðgengi að klámi heldur er aðeins verið að kanna með hvaða hætti mögulegt er að koma í veg fyrir að ofbeldisklámiðnaðurinn þröngvi sér inn í veröld barna og unglinga með sannanlega slæmum afeiðingum. Klámstofa hefur aldrei komið til tals nema í ófrægingartali af þessu tagi. En hvað vakir fyrir þeim sem halda uppi slíku tali og hneykslast á þeim sem voga sér að ræða þessi mál? Á fólk sem telur að umræða um ofbeldisklám sé mikilvæg og snúist um mannréttindi að gæta orða sinna. Helst þegja? Mér finnst sjálfsagt að ræða hvernig hægt er að stemma stigu við harðsvíruðum ofbeldisiðnaði. Og þetta, líkt og önnur mannréttindamál, má aldrei láta nokkurn mann hræða okkur frá að tala um. Aldrei.

Peningafrjálshyggja á kosnað mannréttinda

Ég reyndi í kosningabaráttunni að leiða þessi ósannindi Pírata hjá mér. En þegar Birgitta Jónsdóttir sagði í sjónvarpi að tryggja þyrfti að þingmenn VG „passi sig aðeins hvernig þeir tala erlendis" þar sem umræðan hefði fælt erlenda fjárfesta frá landinu, skal ég játa að mér ofbauð.
Mér þykir það umhugsunarefni hvort það geti verið réttmætt að reyna að þagga niður umræðu um mannréttindi ef hún er talin trufla bisniss-hagsmuni? Er yfirleitt hægt að ganga lengra í að reka hagsmuni peningafrjálshyggjunnar?

Flokkar undir þröskuldi

Flokkur heimilanna og Alþýðufylkingin áttu ágæta spretti í kosningabaráttunni. Harpa Njálsdóttir, Regnboga, talaði af þekkingu um fátækt, en Lýðræðisvaktin bar þess merki að hún var borin uppi af fólki sem setið hafði í Stjórnlagaráði og upptekið af verkum sínum á þeim vettvangi; var af þess hálfu alhæft um öll þau verk undir samheitinu „þjóðarvilji" og tekið djúpt í árinni gagnvart öllum þeim sem efuðust. Þjóðarviljinn var kannski ekki alveg eins klipptur og skorinn og þetta í hugum kjósenda almennt þótt í mínum huga væri hann það um þá tilteknu þætti stjórnarskrárinnar sem kjósendur voru spurðir beint um í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Um aðra þætti var hins vegar ekki svo.
Ég tek undir með Margréti Björnsdóttur í blaðagrein hennar í Fréttablaðinu 1. maí að ríkisstjórnin hefði fyrir löngu þurft að vera búin að taka tiltekna þætti út úr stjórnarskrárdögunum - væntanlega þá sem þjóðin var spurð um beint og einbeitt sér að því að fá þá samþykkta í stað þess að reyna að þröngva öllum stjórnarskrárdrögunum í gegnum þingið.
Annars sannfærðist ég um það að 5% þröskuldurinn er of hár. 

Almannahagur ráði för

Nú hefst nýr kafli. Öll verðum við í sama liði um að reyna að hjálpa íslensku samfélagi fram á veginn. Við höfum mismunandi hugmyndir um hvaða leiðir eru bestar. Á Alþingi verða þær ræddar og í sumum tilvikum um þær deilt, enda eðlilegt að við sem erum til þess kjörin að halda uppi mismunandi sjónarmiðum landsmanna, gerum það á Alþingi. Staðreyndin er sú að við erum ekki sammála um allt. Ég á þá ósk til handa nýrri ríkisstjórn, og þjóðinni allri, að almannahagur - en ekki sérhagsmunir - verði okkar leiðarljós á því kjörtímabili sem nú er að hefjast.