Fara í efni

VALKOSTUR MARGRÉTAR


Umfangsmiklar stóriðjuframkvæmdir eru nú í bígerð. Þegar er hafinn undirbúningur að stækkun álversins í Straumsvík um 250 þúsund tonn, þ.e. úr 180 þúsund tonnum í 460 þúsund tonn og á teikniborðinu er álver í Helguvík upp á 250 þúsund tonn og nýtt áver við Bakka á Húsavík upp á 250 þúsund tonn. Enda þótt endanlegar ákvarðanir liggi ekki fyrir t.d. varðandi stækkun í Straumsvík  hefur tveimur teiknistofum þegar verið falið að gera tillögur um nýja kerskála í samræmi við óskir Alcan um stækkun álversins! þetta kom fram á opnum fundi ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði á sunnudag sem sagt hefur verið frá hér á síðunni.
Í frásögn minni af fundinum vitnaði ég m.a. í Ómar Ragnarsson. Hann hafði sýnt fundarmönnum kvikmynd og þannig farið með þá í flugferð yfir Brennisteinsfjöll á Reykjanesi og beint þeirri spurningu til okkar hvort ekki væri ráð að friða þau og gera svæðið að þjóðgarði. Ómar sagði okkur frá því að í grennd við Helsinki, höfuðborg Finnlands, hefði verið hlegið að þeirri hugmynd, fyrst þegar hún kom fram, að gera mætti örlítinn þjóðgarð á afar fögru og sérstæðu svæði í grennd við Helsinki. Síðan hefði komið á daginn, eftir að hugmyndinni hafði verið hrint í framkvæmd, að þetta svæði ásamt Nokia-verksmiðjunum, væru eftirsóttustu ferðamannastaðir á þessum slóðum, þ.e., þjóðgarðurinn og hátæknifyrirtækið!
Þetta kom mér upp í hug við lestur áhugaverðrar greinar Margrétar Guðmundsdóttur hér á síðunni þar sem hún hvetur til þess að landsmenn íhugi þá valkosti sem þjóðinni bjóðast um atvinnuuppbyggingu. Hún vill að við eflum Ísland til þess að verða: "Náttúrulandið, Matvælalandið, Heilsulandið, Menntalandið, Ferðamannalandið og ekki síst  FRUMKVÖÐLALANDIÐ." Margrét tiltekur tvö dæmi máli sínu til stuðnings: "Aðeins tvö dæmi um hvað góð hugmynd  hefur áorkað, nú þegar, á okkar litla Íslandi. Latabæjar verkefnið, sem fer sigurför um heiminn og CCP þar sem tölvuleikurinn Eve fæddist í höfðum tveggja rúmlega tvítugra drengja. Utan Kína eru 145.000 spilarar á sama vefþjónsklasa hjá CCP, sem er algjört met í heiminum. CCP er með sínar höfuðstöðvar í Reykjavík og útibú í Bandaríkjunum, einnig er CCP komið með skrifstofu í Sjanghæ og í Kína eru komnir 80.000 spilarar nú þegar, þar af 60.000 á reynslutíma.  Já það er hugvits-stóriðja, sem við þurfum. Efla menntun unga fólksins, gera stórátak í að útrýma fallprósentu á grunnskólaprófi þar sem nú er um 30% fall."

Að mínu mati er sá hugmyndafarvegur sem Margrét Guðmundsdóttir vill beina okkur í nokkuð sem okkur ber að þróa og þroska.