Fara í efni

Valgerður og George

Birtist í Fréttablaðinu 18.01.2003
Segja má að ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna séu að sumu leyti í svipuðum sporum staddar að því leyti að báðar eru gagnrýndar fyrir hernað – önnur gegn Írak, hin gegn hálendi Íslands. Báðar hafa orðið að sæta tilfinningaþrungnum mótmælum heima og heiman. En það er annað sem er sameiginlegt. Valgerður Sverrisdóttir og George Bush líkja því nánast við landráð að hafa í frammi mótmæli. 

Bush hefur marg oft vísað til  þjóðarhagsmuna til að kveða mótmælendur í kútinn; nú geti Bandaríkjamenn ekki leyft sér annað en að standa að baki forseta sínum. Nýlega rýmkaði forsetinn heimildir til bandarísku leyniþjónustunnar CIA um aftökur á fólki sem hún sjálf skilgreinir sem hermdarverkamenn. Í bandarískum fjölmiðlum var í þessu sambandi talað um extra-judicial killing – aftökur án dóms og laga. Þessar ákvarðanir Bandaríkjaforseta vöktu marga til umhugsunar um að einræðistilburðir kynnu að vera komnir á hættulegt stig. Í bandarískum fjölmiðlum var einnig bent á að í skjóli forsetavaldsins væri verið að koma upp nýju dóms- og rannsóknarstigi. Hér kemur leyniþjónustan líka við sögu. Hún getur skilgreint menn hættulega, eða ákveðið að þeir ógni öryggi umhverfisins, og með því látið handtaka þá og hneppa í varðhald.

Theodore B. Olson, bandaríski ríkislögmaðurinn, hefur manna lengst gengið fram fyrir skjöldu til að verja þessa stefnu bandarískra stjórnvalda og er rökstuðningurinn athyglisverður en efnislega er hann á þessa leið: Þegar þjóð hefur ekki verið lengi í stríði þá gleyma menn hvaða varúðarreglum samfélagið verður að beita til að verja sig. Þegar allt kemur til alls þarf einhver einn að skera úr um hver er "fjandsamlegur" og hver ekki. Spurning er hvort það á að vera dómstóll sem gerir það eða sá sem þjóðin hefur kosið sér sem leiðtoga. Mislíki þjóðinni það sem forsetinn ákveður þá kýs hún hann einfaldlega ekki næst! Með öðrum orðum, lýðræðið nær ekki lengra en til kjörkassans á fjögurra ára fresti. Þú kýst yfir þig vald og eftir það þykir bæði eðlilegt og sjálfsagt að þú hlítir forsjá þess þar til næst verður kosið.

Og hér er aftur komið að samanburðinum við Ísland. Síðastliðinn þriðjudag barst okkur venju samkvæmt Fréttablaðið inn um lúguna. Þar var mætt á forsíðu Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra. Umfjöllunarefnið var Kárahnjúkavirkjun. Í fyrirsögn var vitnað í ráðherrann sem kvaðst undrandi á þeim Íslendingum sem beittu sér erlendis gegn lýðræðislegum samþykktum: “Andstaðan er vart sæmandi.” Í fréttinni er orðrétt haft eftir Valgerði: "Mér finnst það ekki sérstaklega því fólki til sóma sem beitir sér á erlendri grund til þess að vinna gegn lýðræðislegum samþykktum okkar Íslendinga, meðal annars Alþingis, þannig að ég undrast það að fólk skuli beita slíkum aðferðum í baráttu sinni. En ég ber ekki ábyrgð á þessu fólki á erlendri grund, það er verst fyrir það sjálft. Ef það er markmið að rýra álit Íslands út á við, þá er það alvarlegt mál."

Mér finnst þessi yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur vera alvarlegt mál. Hún er bæði ómálefnaleg og ólýðræðisleg. Andstæðingar virkjunaráformanna við Kárahnjúka telja að framkvæmdin muni valda óafturkræfum spjöllum á náttúru landsins og hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir land og þjóð til langs tíma. Ákvarðanir um þessar framkvæmdir liggja ekki enn fyrir. Þannig á Alþingi enn eftir að veita endanlegar heimildir. Á sínum tíma var því lofað að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir á þessum slóðum fyrr en allir samningar væru frágengnir. Þetta hefur allt verið svikið. En eitt munu menn aldrei láta taka frá sér og það er rétturinn til þess að hafa skoðun og koma henni á framfæri við hvern þann sem maður vill. Á þessu byggir tjáningarfrelsið sem er forsenda þess að lýðræðisþjóðfélag fái þrifist.

Ásaknir um óþjóðhollustu sem settar eru fram til að beygja fólk í duftið eru alvarlegar hvort sem í hlut á George Bush Bandaríkjaforseti eða Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra Íslands. Þær eru ekki sæmandi og er þar vægt til orða tekið.