Fara í efni

Valgerði ögrað og Davíð vill að menn sýni ábyrgð!

Upplýst hefur verið að tveir æðstu stjórnendur Kaupþings Búnaðarbanka hafa hvor um sig keypt hluti í bankanum fyrir rúmar 950 milljónir króna, samkvæmt samningum við eigendur, á gengi sem er langt undir markaðsgengi. Morgunblaðið upplýsir að ef þeir seldu hluti sína nú næmi söluhagnaður hvors um sig 365 milljónum króna. Landsmönnum ofbýður enn eitt dæmið um fjármálabrask á Íslandi. Það sem er nýtt er að bankamálaráðherrann Valgerður Sverrisdóttir, segist vera "hissa". Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er vitnað í ráðherrann sem segir að þetta gangi lengra en hún geti sætt sig við án þess að hún "láti í sér heyra". Hún segist ekki hafa til þessa hafa verið með stór orð "um það sem er að gerast á markaðinum en mér ofbýður. Mér finnst felast í þessu mikil ögrun."
Það er alveg rétt hjá Valgerði Sverrisdóttur bankamálaráðherra að hún hefur ekki verið með stór orð "um það sem er að gerast á markaðinum" en þeim mun stærri hafa gjörðir hennar verið. Eru það ekki nýju "kjölfestufjárfestarnir" sem hún fékk Búnaðarbankann í hendur sem eru að gera þessa samninga við stjórnendur sem þeir telja vera þyngd sinnar virði í gulli? Getur það virkilega verið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sjái ekkert samhengi á milli eigin gjörða og hvernig komið er meðferð fjármuna í þjóðfélaginu? Forsætisráðherrann, Davíð Oddsson, hefur sýnt okkur í fréttaviðtölum í dag að hann gerir það ekki! Hann kemur af fjöllum og á ekki orð yfir siðleysi manna; fór í Búnaðarbankann í dag og segist ætla með peningana sína í annan banka. Ekki veit ég hvert Davíð Oddsson ætlar með sparifé sitt því á honum var að skilja að allir bankarnir væru orðnir meira og minna spilltir og stýrt af siðlausum mönnum. Er þetta ekki sami forsætisráðherrann og fyrir skömmu sagðist gleðjast yfir því hve mikil "eignagleði" væri í þjóðfélaginu? Ég held að flestum hafi skilist að ráðherrann hafi átt við að ásókn í gróða, gróðafíknin, væri eftirsóknarverð og leiddi til framfara; og að nú væru öll teikn á lofti að Íslendingar hefðu náð þessu þroskastigi.

 Staðhæfingar úr tengslum við staðreyndir

Þannig er vandséð að ríkisstjórnin sjái nokkurt samhengi á milli þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið við stjórn landsins undir hennar handarjaðri og þess sem er að gerast í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar.  Reyndar er ég orðinn þeirrar skoðunar að rök hrífi ekki mikið í umræðu um þessi efni. Á öðrum stað í Morgunblaðinu í dag en þeim sem hér hefur verið vitnað til, segir frá ráðstefnu um raforkumál. Þar mun hafa verið lesið upp ávarp frá Valgerði Sverrisdóttur en nú í gervi iðnaðarráðherra. Í ávarpi ráðherrans er mælt með markaðsvæðingu raforkugeirans og segir að margt mæli með því "að hlutafélagaformið taki við af núverandi rekstrarformi ríkis og sveitarfélaga, varðandi samkeppnisþættina, flutning og dreifingu." Haft er eftir ráðherranum að "á síðustu árum hafi áunnist veruleg reynsla á sviði samkeppni, vinnslu og sölu raforku. meiri árangur hafi náðst að jafnaði í vinnslu og sölu í samkeppnisumhverfi en þar sem hefðbundinn einkaréttur sé einn allsráðandi."
Er þetta rétt? Á hverju byggir ráðherrann þetta? Nákvæmlega svona hefur verið söngurinn í tengslum við alla einkavæðingu. Fullyrt er út í loftið að árangur hafi orðið mikill af einkavæðingunni fyrir neytendur. Síðan kemur í ljós að þetta eru meira og minna rangfærslur og oftar en ekki helber ósannindi. Til reynslu hverra er Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra að vísa til og hvaða lönd hefur hún í huga? Horfir hún til Nýja Sjálands, Noregs, Svíþjóðar, Bretlands svo nefnd séu nokkur dæmi um lönd sem farið hafa þann veg sem ráðherrann vísar okkur inn á. Ég hef skrifað nokkrar greinar um slæma reynslu af einkavæðingunni í þessum löndum og stutt mál mitt ítarlega með dæmum. Er ég að fara með rangt mál eða telja ráðherrar í ríkisstjórninni sig ekki þurfa að taka þátt í umræðu þar sem gerð er grein fyrir röksemdum? Telja þeir sig ekki þurfa að tíunda í hverju er fólgin sú "góða reynsla" sem þeir guma af og málflutningur þeirra er sagður byggja á? ( sjá smáfrétt hér á heimsíðunni fyrir nokkrum dögum:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-allir-ad-gera-thad-gott

Varðandi hlutafélagaformið væri sérstaklega fróðlegt að fá rökstuðning fyrir því hvað ráðherrann hafi fyrir sér þegar hún segir að það sé talið heppilegra en það rekstarform sem við höfum búið við. Ég hef skrifað greinar þar sem einmitt er varað við hlutafélagsforminu í grunnþjónustu samfélagsins og hef ég vísað í dæmi máli mínu til stuðnings. Er forsvaranlegt annað en að ráðherrar geri slíkt hið sama, hvílir ekki ennþá meiri sönnunarbyrði á þeirra herðum þar sem þeir hafa valdið til að framkvæma? Er lýðræðisþjóðfélag okkar virkilega svo skammt á veg komið að ráðherrar geti komist upp með að tyggja áróðurinn hráann eins og þeir fá hann i hendur af hagsmunaaðilum? Þegar síðan skaðinn er skeður setja þeir upp vandlætingarsvip og segja að sér sé misboðið! Einmitt þessu urðum við vitni að í dag.

 Hvar liggja ögrunarmörkin?

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er fjallað um fyrrnefnda kaupréttarsamninga. Þar segir m.a.: "Nú er Kaupþing Búnaðarbanki auðvitað einkafyrirtæki og hluthafarnir geta ákveðið að borga stjórnendum og öðrum starfsmönnum þau laun sem þeim sýnist."
Ekki vill Morgunblaðið sætta sig við þetta og segir að "mörgu sé að hyggja." Upphæðirnar séu "einfaldlega úr samhengi við launakjör á Íslandi..."
Þetta er skarplega athugað hjá Morgunblaðinu! En blaðið heldur áfram og segir að einnig sé á það að líta að erlendis séu menn farnir að líta hornauga "rífleg launakjör" stjórnenda stórfyrirtækja. Ég verð að játa að mér finnst samanburður við almenn laun nánast hlægilegur. Auðvitað eiga þessar greiðslur ekkert sammerkt með launum. Nær væri að tala um ránsfeng því þetta eru peningar sem einstaklingar, sem hafa komist í "lykilstöðu", raka til sín í skjóli stöðu  sinnar. Þótt Morgunblaðið eigi vissulega sína sök á því að keyra samfélagið út á "einkavæðingar- og markaðsbrautina" verður það að segjast eins og er að blaðið hefur jafnan viljað sýna varfærni og þjóðfélagslega ábyrgð. Þannig hefur blaðið beitt sér fyrir dreifðri eignaraðild í atvinnlífi og í fjármálakerfinu svo dæmi sé tekið. Forsætisráðherrann hefur vissulega einnig stundum haft uppi slíkan málatilbúnað en þegar á hefur reynt hefur það ekki verið neitt til að stóla á. Davíð Oddsson getur heldur ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að hann ber sjálfur mikla ábyrgð á því að hafa stýrt okkur inn á þá hálu spillingarbraut sem honum verður nú tíðrætt um. Og þá er það bankamálaráðherrann sem segir að nú sé svo komið að sér sé ögrað og að hún sé hissa.  Hvar nákvæmlega skyldu ögrunarmörkin liggja hjá Valgerði Sverrisdóttur bankamála- og iðnaðarráðherra?