Fara í efni

VAKINN OG SOFINN FYRIR LANDSBYGGÐINA


Það gustar um Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þessa dagana. Hann er sagður vera einn á báti - jafnvel einangraður  - í andstöðu við breytingar á Stjórnarráði Íslands og þá einkum að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti í núverandi mynd.
Deilurnar um Stjórnarráðið eru margþættar, lúta að stjórnsýslunni, jafnvel umsókn okkar að ESB. Svo telja margir í VG.

Fyrirhyggja í stað flausturs og óðagots

Því fer fjarri að Jón Bjarnason sé einn og yfirgefinn að berjast fyrir vönduðum vinnubrögðum þegar kemur að breytingum innan stjórnsýslunnar. Það er nokkuð sem samflokksmenn hans hafa haldið að Alþingi og framkvæmdavaldi alla tíð. Sem formaður BSRB hef ég iðulega komið að því að binda óhnýtta enda eftir flaustursleg vinnubrögð við skipulagsbreytingar. Reynslan sýnir að hraði, hvað þá óvönduð vinnubrögð sem oft eru fylgifiskur hraðans, leiða hvorki til hagræðingar né sparnaðar, heldur hins gagnstæða.

Um hið stóra og hið smáa

Þegar Jón Bjarnason kom til ríkisstjórnarfundar í Ráðherrabústaðnum um síðustu helgi gengu fréttamenn á hann og spurðu hann álits á breytingum í Stjórnarráðinu. Hann kvaðst nýkominn undan Eyjafjöllum þar sem bændur og búalið væru að fást við afleiðingar eldgossins og væri framtíðin ótrygg. Fólkið yrði að finna fyrir stuðningi.
Þetta fannst sumum skrýtið svar við óskyldu efni. Ekki mér. Í orðum Jóns Bjarnasonar var ádeila; skilaboð til okkar allra um að horfa á hlutina í réttu samhengi. Samhengið sem Jón Bjarnason hefur hrærst í alla sína tíð eru lífsskilyrðin á landsbyggðinni. Strandamaður að uppruna, bóndi í Bjarnarhöfn, skólameistari  á Hólum í Hjaltadal: Þetta er vegnesti hans inn á Alþingi og í Stjórnarráð Íslands.

Þá lifnar allt við ströndina

Enginn maður á þingi, svo lengi sem ég man eftir, hefur haldið uppi merki landsbyggðarinnar af eins miklum krafti - og einlægni - og Jón Bjarnason hefur gert.  Í mínum þingflokki hefur hann  haldið öðrum við efnið. Sama þekki ég úr ríkisstjórn. Verk hans sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra eru góður vitnisburður um þessi viðhorf. Nú síðast strandveiðifrumvarpið. Bátasjómenn sem nú sigla á miðin með nýfengnar heimildir vita hvað ég er að fara. Þegar smábátarnir komast til veiða lifnar allt við ströndina.

Sjá: http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/10049