Fara í efni

VÆRI EKKI RÁÐ AÐ ENDURSKOÐA ÁFORM UM SÖLU SÍMANS?

Það er svolítið sérstakt að koma inn á skrifstofur embættis Sáttasemjara ríkisins þessa dagana. Ein skrifstofuálman hefur frá því í vor verið lögð undir sýslunarmenn einkavæðingar Símans. Securitas-verðir gæta þess að óviðkomandi aðilar kássist ekki upp á þessa sölumenn þjóðareignarinnar.
Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur verið andvíg sölu Símans og á hún þar samleið með yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar sem samkvæmt endurteknum skoðanakönnunum er sama sinnis. Sú spurning gerist áleitin hvort vöflur séu ekki komnar á þá sem verið hafa gagnstæðrar skoðunar, þ.e. áhugamenn um símasöluna, í ljósi þess hve eignarhald og þar með völd í þjóðfélaginu eru að færast á fáar hendur. Þykir ástæða til að hlaða enn meir undir þennan hóp manna? Er ekki nóg komið? Ættu upplýsingar um samþjöppun í efnahagskerfinu ekki að vera ærin ástæða til að skjóta símasölunni á frest?
Síminn er eins auðveld bráð og hugsast getur fyrir fjármálabraskara. Þetta er stofnun sem ætlunin er að selja skuldlausa; stofnun sem gefur eigendum sínum margra  milljarða arð á ári hverju. Kaupandinn mun að öllum líkindum geta tekið lán út á þennan gullkálf og látið hann síðan borga sig upp á tiltölulega skömmum tíma. Þetta er þekkt aðferð.
En hvað er ríkisstjórnin að hugsa? Hún vílar ekki fyrir sér að gefa og selja almannaeignir á hálfvirði. Allt er réttlætt með því að markaðsvæðing og samkeppni verði okkur til hagsbóta þegar upp er staðið. En skiptir ríkisstjórnina engu máli þótt allt stefni hér í einokun, í besta falli fákeppni? Eða væri ástæða nú til að endurskoða áform um sölu Símans?