Fara í efni

ÚTRÝMUM FÁTÆKT Á ÍSLANDI !

Birtist í Morgunblaðinu 24.02.07.
Á undanförnum mánuðum og misserum hafa farið fram miklar umræður um tekjuskiptinguna á Íslandi, aukna misskiptingu og misrétti. Annars vegar fjölgar í þeim hópi sem vart veit aura sinna tal og hins vegar er fólk sem býr við sára fátækt. Þjóðinni hefur verið brugðið á alls kyns mælikvarða til að leiða sannleikann í ljós í þessum efnum.
Ýmsir fræðimenn hafa staðið sig vel í þessari umræðu. Reyndar hafa þeir ekki allir verið á sama máli enda beitt mismunandi aðferðafræði og í pólitíkinni hafa eins og við mátti búast verið deildar meiningar. Þegar á heildina er litið og stuðst við meðaltöl verður ekki véfengt að kaupmáttaraukning hefur orðið í landinu á undanförnum árum. Henni er hins vegar mjög misskipt og alhæfingarnar af þeim sökum varasamar. Einnig eru áhöld um hvort kaupmáttaraukningin haldi. Horfa menn þar til geigvænlegrar skuldasöfnunar þjóðarinnar, fyrirtækja og heimila. Ekkert má út af bera hjá hinum skuldsettu svo tilvera þeirra hrynji ekki. Menn spyrja þannig um innistæðu fyrir kaupmáttaraukningunni, hvort hún sé varanleg eða einfaldlega eins og víxill sem muni gjaldfalla. Til þess að koma í veg fyrir áföll af þessu tagi skiptir miklu að koma á stöðugleika í samfélaginu, tryggja stöðugt verðlag og þar með afkomu og atvinnuöryggi.
Á Íslandi hefur það viðhorf verið ríkjandi að fátækt eigi ekki að fyrirfinnast í okkar samfélagi – allur þorri þjóðarinnar hefur eindregið verið þeirrar skoðunar. Þess vegna vekur það jafnan mikla athygli þegar því er haldið fram að fátækt fari vaxandi. Ekki síst þykir það alvarlegt þegar á hinn bóginn er haldið á lofti fyrirvaralausum staðhæfingum um almenna kaupmáttaraukningu og bætt lífskjör.

Þörf á nýrri nálgun

Hvað er hið rétta í þessu efni? Ég tel mjög brýnt að félagsvísindamenn kortleggi samfélagið hvað þetta varðar og vil koma á framfæri hugmynd um eina nálgun í rannsóknum af þessu tagi. Spurt verði: Hvort er auðveldara nú en t.a.m fyrir tólf árum að vera:
a) tekjulítill og  húsnæðislaus,
b) tekjulítill og heilsuveill,
c) tekjulítill og með börn á framfæri?
Því miður hef ég sannfæringu fyrir því að svörin við þessum spurningum séu mjög á einn veg. Það er erfiðara að vera tekjulítill og eiga á brattann að sækja nú en fyrir tólf árum. Með öðrum orðum, fátæktin er sárari nú en hún var fyrir valdatöku Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í landsmálunum fyrir tólf árum.
Hverju sætir þetta?
a) Árið 1999 var húsnæðislöggjöfinni breytt og félagslegir þættir hennar eyðilagðir. Tekjulítið fólk á þess nú ekki kost að eignast húsnæði og þarf að leita á rándýran og ótraustan leigumarkað. Húsnæðisliðurinn (húsnæði, rafmagn og hiti) í vísitölu neysluverðs hefur hækkað mun meira en aðrar vísitölur! Þannig má nefna að frá árinu 2002 hefur húsnæðisliðurinn hækkað um tæp 60% en launavísitala um tæp 40%. Það er erfiðara nú en fyrir tólf árum að vera tekjulítill og standa straum af kostnaði vegna húsnæðis.
b) Kostnaður vegna sjúkdóma hefur aukist svo og sjúklingagjöld af ýmsu tagi þegar litið er til þess tíma sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa stýrt landinu. Svo er nú komið að margt tekjulítið fólk hefur ekki efni á því að leita sér lækninga. Það er því erfiðara nú en fyrir tólf árum að vera tekjulítill og veikur.
c) Þrátt fyrir marggefin loforð um stórhækkaðar barnabætur hefur ekki verið staðið við þau fyrirheit og hafa barnabætur á undanförnum rúmum áratug lengst af verið minni að raungildi en þegar samstarf stjórnarflokkanna hófst. Gjöld og tilkostnaður við barnauppeldi og tómstundastarf hefur farið vaxandi og hefur tekjulítið fólk ekki efni á því að bjóða börnum sínum upp á tómstundir á borð við þær sem börnum frá efnameiri heimilum standa til boða. Það er erfiðara að vera tekjulítill og hafa börn á framfæri nú en fyrir tólf árum.

Okkur öllum til umhugsunar

Það hlýtur að vera landsmönnum til umhugsunar að það eru fyrst og fremst stjórnvaldsaðgerðir sem leitt hafa til þess að tekjulítið fólk býr við erfiðari kjör nú en fyrir tólf árum þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tóku sameiginlega við stjórnartaumunum. Ef þjóðin ber gæfu til þess að fella ríkisstjórnina í alþingiskosningunum í vor verður fyrsta forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar að hefjast handa um að útrýma fátækt á Íslandi. En til að svo megi verða þarf að skipta um ríkisstjórn.