Fara í efni

Utanríkisráðuneyti í plús en Upplýsinganefnd í mínus

Birtist í Fréttablaðinu 20. desember 2002
Það er mikið um að vera á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þessa dagana. En það fer ekki mjög hátt. Alþjóðaviðskiptastofnunin var sett á laggirnar árið 1994 á grunni GATT-samningaferilsins um afnám tolla á heimsvísu. Nú er þjónustustarfsemin undir GATS (General Agreement on Trade in Services). Tekist er á um það hvernig skilgreina skuli þjónustustarfsemi og hvaða hlutar hennar skuli ofurseldir markaðslögmálunum. Samtök launafólks – með samtök innan almannaþjónustunnar í broddi fylkingar – hafa barist fyrir því að þessar viðræður skuli fara fram fyrir opnum tjöldum en ekki luktum. Við erum nú stödd þar í þessu ferli að einstök ríki leggja fram kröfur á hendur öðrum ríkjum um hvaða þjónustugeirar verði opnaðir fyrir erlendri samkeppni og settir á markað. Hugmyndin er sú að þau reyni að ná samkomulagi sín í milli og síðan haldi allir áfram í sameiningu að útvíkka grunninn.

Þegar hafa íslensk stjórnvöld fengið kröfur frá Bandaríkjamönnum, Japönum og Indverjum. BSRB vildi sjá þessar kröfur en fékk neitun frá utanríkisráðuneytinu. Málinu var þá skotið til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með fylgdi ítarlegur rökstuðningur þar sem sýnt var fram á að það væri í þágu almannaheilla að upplýsa og opna þessa umræðu (bréfin er hægt að nálgast á heimasíðu BSRB, www.bsrb.is). Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sat með málið í einn og hálfan mánuð áður en hún hafnaði erindinu. Hún át hreinlega upp röksemdir yfirvaldsins en skeytti engu um röksemdir kærandans. Ef til vill var það vegna jólaanna. Ef til vill var það vegna undirgefni við ríkisvaldið. Hið síðara er líklegra. Það er áhyggjuefni hve ómálefnaleg og veikburða nefndin er og hve höll hún er undir yfirvaldið. Þannig hefur hún reynst túlka lög þröngt og í þágu stjórnvalda en ekki þeirra þjóðfélagsþegna sem vilja opna stjórnsýsluna.

Hvað GATS-viðræðurnar snertir hefur BSRB þó haft árangur af erfiði sínu. Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að birta kröfugerðir erlendra ríkja opinberlega á netinu – að vísu án þess að sundurgreina kröfur eftir þeim löndum sem leggja kröfurnar fram. Það er þó bitamunur en ekki fjár svo vitnað sé í mjög athyglisverða yfirlitsgrein Páls Hannessonar á fréttavef BSRB en Páll hefur fylgt þessum málum eftir á vegum samtakanna. Tekið skal ofan fyrir utanríkisráðuneytinu að stíga þetta skref í lýðræðisátt. Svör utanríkisráðuneytisins við spurningum BSRB varðandi GATS hafa að vísu ekki verið fullnægjandi en þeim verður fylgt eftir í beinum viðræðum við ráðuneytið. Sú hætta er raunveruleg að samfélagið átti sig ekki fyrr en um seinan á því hve mikilvægir þessir samningar eru. Þeir eru án efa afdrifaríkustu samningar sem nú fara fram í heiminum og lúta að samfélagsmálum og eignarhaldi á auðlindum.

Þetta eru samningarnir sem framkölluðu mótmælin í Seattle árið 1999 og síðar í Washington og Prag. Að vísu hafa einnig fléttast saman við þessi og síðari mótmæli gegn GATS andóf gegn stefnu Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Svo rammt kvað að þessum mótmælum að síðasti fundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var haldinn í Doha í Quatar á eyðimörk Arabíuskagans. Þangað komust engir mótmælendur og nánast mátti telja á fingrum annarrar handar þá fulltrúa verkalýðshreyfingar og almannasamtaka sem fengu að vera viðstaddir fundinn. Nánast allir voru útilokaðir sem vita hvað er í húfi þegar einkavæðing á vatni og öðrum sameiginlegum auðlindum er annars vegar. Á þessu stigi snúast átökin um hvort GATS eigi að taka til þessara þátta. Um þetta þarf að fara fram lýðræðisleg umræða. Þess vegna skiptir sköpum að samningarnir séu fyrir opnum tjöldum svo samtök launafólks geti haft áhrif á þá, samfélaginu til hagsbóta. Sú spurning vaknar hvers vegna fjármálaöflin í heiminum vilja fela umræðuna. Getur verið að málstaðurinn þoli ekki dagsljósið?