Fara í efni

ÚRTÖLUR Í HÁLFA ÖLD!

Frosti Sigurjónsson
Frosti Sigurjónsson
Í ráðherratíð minni kynntist ég mörgum sjálfskipuðum  „sérfræðingum" í fangelsismálum. Sammerkt var það slíkum „sérfærðingum" á vettvangi stjórnmálanna að vilja nýta gamalt úrelt húsnæði  undir geymslu á föngum. Þau voru einnig til sem vildu nota gáma eða gamla virkjunarskúra undir fangageymslur. Og nú er sá mæti maður, Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mættur til leiks. Hann vill nýja patentlausn, viðbyggingu eða ofanábyggingu við lögreglustöðina á Hverfisgötu, málið leyst! Síðan eigi að senda alla í  samféalgsþjónustu og láta afplána með öklabönd.

Allar götur frá því fyrst var hreyft tillögu um nýtt fangelsi upp úr miðri síðustu öld hefur úrtöluröddum tekist að drepa málinu á dreif. Það má ekki enn gerast. Hálf öld er meira en nóg af úrtölum. Enda búið að sitja yfir öllum valkostum árum og áratugum saman en nú hefur það hins vegar gerst að búið er að ganga frá teikningum - fyrir ærinn kostnað og grafa grunninn, einnig fyrir ærinn kostnað. Ekkert af þessu er gert í sjálfboðavinnu. Að láta sér detta í hug  að kasta allri þessari yfirleguvinnu og fjármunum á glæ er óábyrgt og óafsakanlegt.

Hagræðið af nýju fangelsi er óumdeilanlegt og mun spara skattgreiðendum mikla fjármuni þegar til lengri tíma er litið.

1) Starfshópar kunnáttumanna hafa aftur og ítrekað farið yfir málið og komist að þeirri niðurstöðu að gamalt húsnæði, endurgert fyrir öryggisfangelsi er dýrara en nýtt húsnæði.

2) Með nýju fangelsi verður hægt að loka kvennafangelsinu í Kópavogi og fangelsinu á Skólavörðustíg og draga þar með verulega úr rekstrarkostnaði.

3) Vinnuaðstaða fangavarða og aðstæður fyrir fanga stórbatna. Þetta á ekki síst við um ávinninginn af lokun fangelsisins á Skólavörðustíg (en fangelsið þar er starfrækt samkvæmt undanþágum gagnvart mannréttindanefnd Evrópuráðsins) og lokun kvennafangelsisins í Kópavogi en það fangelsi er með öllu óviðunandi. Í nýja fangelsinu á Hólmsheiði verður hægt að aðgreina fanga betur en í öðrum fangelsum, þar með talið kvenfanga og unga fanga. Kröfum um að byggt verði sérstakt fangelsi fyrir unga fanga (samkvæmt mannréttindaskuldbindingum Íslands) væri þar með fullnægt.

4) Hægt verður að hagræða á Litla-Hrauni sem menn almennt  sjá fyrir sér sem kjölfestuna í fangelsismálum á Íslandi til framtíðar.

5) Draga mun úr kostnaði við flutninga fanga til og frá dómstólum í Reykjavík.

Stundum heyrast menn býsnast yfir því að verið sé að byggja of dýrt húsnæði, jafnvel dýrara en fínustu hótel. Menn gleyma því að jafnvel dýr hótel krefjast ekki sama umbúnaðar og öryggisfanglesi með öllu því  sem þar heyrir til. Hurðin á jafnvel dýrustu svítu kostar aðeins brot af hurð á fangaklefa á öryggisgangi í fangelsi svo augljóst dæmi sé nefnt.

Hvað varðar ábendingar Frosta Sigurjónssonar um að nýta öklabönd og samfélagsþjónustu, þá eru þær ekki nýjar af nálinni. Þannig gekkst ég fyrir lagabreytingu sem ýtir undir þessar lausnir enda er ég þeirrar skoðunar að sem fæsta einstaklinga eigi að vista í fangelsi og helst ekki aðra en þá sem eru sjálfum sér og samfélagi sínu hættulegir. Og hvað erlenda fanga áhrærir hefur verið unnið að því að koma þeim eins fljótt til síns heima og kostur er. Þannig að þegar þessi mál eru skoðuð í þaula hygg ég að við Frosti séum um þau sammála eins og um ýmislegt annað sem hann hefur ágætlega beitt sér fyrir.