Fara í efni

ÚRSÖGN ATLA OG LILJU OG TUNGUTAK HRUNSINS


Í dag gengu þau úr þingflokki VG þau Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir. Mér er  óneitanlega eftirsjá að brottför þeirra enda höfum við verið samherjar um margt. Ég óska þeim hins vegar alls góðs í starfi á Alþingi sem óháðir þingmenn utan þingflokka.
Enn eru þau Atli og Lilja félagar í VG og staðhæfa þau í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér í dag að þau hefðu ekki orðið viðskila við stefnu flokks síns heldur væri það þingflokkurinn sem það ætti við um.

Umhugsunarefni urðu mér eina ferðina enn ummæli háskólaprófessors og fréttamanns í fréttum dagsins. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði að Lilja Mósesdóttir hefði aldrei „rekist vel" í flokki! Gengur svona niðrandi tal í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands? Er virkilega enn verið að afgreiða skoðanir fólks á mælikvarða auðsveipra sauða?

Og sá ágæti fréttamaður Broddi Broddason skilgreindi okkur nokkur í þingflokki VG í fréttatíma RÚV  sem „órólega deild".
Í hverju skyldi meintur óróleiki vera fólginn? Mér hafa sýnst hlutaðeigandi einstaklingar hvorki  órólegri né rólegri - ef því er að skipta - en gerist almennt með fólk í þinginu.
Eða skyldu sumar skoðanir vera „rólegar" og aðrar „órólegar"?
Mætti biðja fréttastofur um útlistanir og skýringar?
Það er eitthvað sem hvíslar að mér að þetta sé gömul hugsun að banka upp á!
Það er eitthvað sem hvíslar að mér að þetta sé tungutak hrunsins.