Fara í efni

UPPVAKNINGUR Í SNÆFELLSBÆ OG STRAUMSVÍK


Í fjölmiðlum hefur nokkuð verið fjallað um deilur BSRB við bæjarstjórnina í Snæfellsbæ í kjölfar uppsagna starfsmanna hjá bæjarfélaginu. BSRB telur þessar uppsagnir vera ólöglegar og er málið komið fyrir dómstóla. Inn í þetta mál hefur síðan fléttast umfjöllun um þá ákvörðun BSRB að senda öllum íbúum Snæfellsbæjar bréf en það var gert eftir að Bæjarblaðið Jökull neitaði að birta grein þar sem afstaða BSRB var útskýrð nema að því tilskildu að hún yrði stytt verulega. Þetta þótti mönnum undarleg krafa í ljósi þess að umrædd grein var styttri en greinar sem birst höfðu í blaðinu um sama málefni. Um þetta má lesa nánar á vefsíðu BSRB þar sem rökstuðningurinn er færður fram og umrædd grein birt, sbr. HÉR.
Ekki ætla ég að elta ólar við þá fullyrðingu ábyrgðarmanns Jökuls að ég hafi svarað honum með skætingi þegar hann bað mig um að stytta grein mína. Við höfum aðeins einu sinni ræðst við og það var þegar ég óskaði fyrst eftir því að fá grein birta í blaði hans. Samskipti okkar eftir það voru í vefpósti og hef ég ekki eytt honum. Ekki þykja mér viðbrögð mín annað en hófsöm og málefnaleg.
Þetta mál á að verða okkur öllum umhugsunarefni. Það er greinilega verið að vekja upp gamlan draug sem verkalýðshreyfingin kvað niður á öldinni sem leið – með slæmum undantekningum þó – en þar er ég að vísa til þess þegar launafólk er látið gjalda skoðana sinna og sagt upp störfum ef þær falla ekki í kramið hjá atvinnurekendum.
Nýlega var þremur gamalreyndum starfsmönnum sagt upp í álverinu í Straumsvík. Í ályktun sem fjölmennur fundur starfsmanna samþykkti segir að uppsagnirnar auki á óöryggi starfsmanna varðandi atvinnuöryggi og tjáningarfrelsi þeirra. Í máli ræðumanna á fjöldafundinum kom fram, samkvæmt frásögn Fréttablaðsins 13. október, að starfsmenn væru hræddir við að tjá sig um málefni vinnustaðarins af ótta við að segja eitthvað í óþökk stjórnenda!
Nú spyr ég, viljum við svona Ísland?
Nei, þennan misréttisdraug þarf að kveða niður, hvort sem hann birtist í Snæfellsbæ eða í álveri Alcans í Straumsvík.

------------------------------------------------------------------

Ályktun fundar starfsmanna Alcan/Ísal

Fundur starfsmanna hjá Alcan/Ísal í Straumsvík 12. okt. 2006 ítrekar fyrri mótmæli trúnaðarmannaráðs og verkalýðsfélaga við tilefnislausum uppsögnum vinnufélaga okkar sem hafa þjónað fyrirtækinu áratugum saman.
Frá því samningar voru gerðir í mars á síðasta ári hafa níu félagar okkar verið reknir frá fyrirtækinu án þess að hafa nokkuð til saka unnið eða að fækka þyrfti starfsmönnum.
Við lýsum eindreginni andstöðu við þá stefnu fyrirtækisins að nota heildstætt langtímamat til að ákvarða með uppsagnir og það án þess að okkur sé gerð grein fyrir í hverju það felst og án þess að við fáum færi til að gera við það athugasemdir.
Þá er full ástæða til að kanna hvort slík upplýsingaöflun sé í samræmi við lög um persónuvernd.
Uppsagnir 3ja starfsfélaga okkar í síðustu viku hafa enn aukið á óöryggi okkar varðandi atvinnuöryggi og tjáningarfrelsi.
Við teljum að nú séu síðustu forvöð fyrir fyrirtækið til að koma á eðlilegum samskiptum við starfsmenn og fulltrúa þeirra og skorum á Alcan að sýna vilja til góðra samskipta í framtíðinni með því að:

1.     Draga til baka uppsagnir frá fyrri viku eða ljúka þeim í sátt og með

samningi um flýtt starfslok við félaga okkar,sem hafa skilað öllum bestu starfsárum sínum hjá fyrirtækinu.

2.     Taka upp viðræður við fulltrúa trúnaðarráðs –og verkalýðsfélaga um

starfsmannastefnu fyrirtækisins og framkvæmd hennar með það að   leiðarljósi að fyrirtækið verði eftirsóknarverður vinnustaður í framtíðinni.

3      Fara að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar varðandi rétt                

        starfsmanna við uppsagnir, sem m.a. felur í sér að starfsmanni skuli   

ekki sagt upp án þess að honum sé fyrst gefinn kostur á að verja sig gegn aðfinnslum.

   Ályktunin afhent í Straumsvík 13. okt. 06 kl. 10:30

                        Gylfi Ingvarsson sign

                        Örn Friðriksson sign

                        Björn Ágúst Sigurjónsson sign

                        Kolbeinn Gunnarsson sign