Fara í efni

Upplýsing komi í veg fyrir blekkingar

Sannleikurinn er vandfundinn þegar stríð geisar. Í umfjöllun um fjölmiðla sem kom inn á vefsíðuna í gær segir Páll H. Hannesson: “Það er gömul klisja að fyrsta fórnarlamb stríðsátaka sé sannleikurinn. Staðhæfingin væri sönn nema hvað hún gefur í skyn að utan stríðstíma sé sannleikurinn sagður.” Þetta er rétt hjá Páli nema hvað í stríði verður allt ýktara en ella líka lygin. Og í stríði er mikið logið. Þess vegna er það rétt sem fram kemur hjá Páli H. Hannessyni að það sé við slíkar  “aðstæður sem fer virkilega að reyna á fjölmiðlana og hvort þeir geti unnið faglega. Hvort þeir geti m.ö.o. beitt sjálfstæðri og gagnrýnni hugsun og þar með staðið undir samfélagslegri ábyrgð sinni”.

Þrátt fyrir undantekningar og ýmsa góða spretti fjölmiðlamanna virðist mér netið vera að taka fram úr þeim. Þar er nú að finna óendanlega uppsprettu upplýsinga sem við getum hvert og eitt kafað niður í. Fyrir bragðið komast ósvífin stjórnvöld ekki eins auðveldlega upp með að blekkja fólk og áður. Í lesendabréfi í dag er vísað í bandaríska vefsíðu þar sem fram koma ásaknir  um grófar falsanir forseta Bandaríkjanna og Hvíta hússins varðandi Írak.

Ef það er rétt að að fyrsta fórnarlamd stríðsátaka sé sannleikurinn þá skulum við vona að blekkingin verði fórnarlamb hinnar nýju upplýsingaraldar  sem netið færir okkur.