Fara í efni

UPPLÝSANDI FUNDUR Í SAFNAHÚSI

FUNDUR I
FUNDUR I


Óhætt er að segja að þau sem sóttu opinn fund um peningaræði í borgarskipulagi síðastliðinn laugardag hafi verið á einu máli um ágæti hans.
Fluttir voru fjórir fyrirlestrar á fundinum sem hver á sinn hátt settu skipulagsmálin í sögulegt samhengi jafnframt því sem sjónum var beint að því sem einkennir skipulagið nú.

Skipulagsvaldið hjá fjárfestum

Gestur Ólafsson, skipulagsfræðingur og arkitekt reið á vaðið og sýndi hvernig skipulagsfræðingum, því fólki sem hefði með menntun sinni aflað sérþekkingar á skipulagsmálum, hefði verið ýtt til hliðar og jafnvel meinað að tjá sig í opinberri umræðu. Hann tók síðan sem dæmi um mótsagnirnar í kerfinu, annars vegar af öllum þeim leyfum sem þyrfti að afla við að reisa nýjan bílskúr eða breyta þeim sem fyrir var. Á hinn bóginn risu heilu hverfin, byggð samkvæmt teikningum sem verktakar færðu borginni. Þeirra væri nú í raun skipulagsvaldið.

Orðin og efndirnar

Magnús Skúlason, arkitekt, hefur mikla reynslu af skiplagsmálum í borginni og kom greinilega fram í máli hans hvernig hallað hefði á ógæfuhliðina á síðari árum. Því færi fjarri að verktakaræðið hefði alltaf verið jafn mikið og nú og önnur sjónmið áður vegið þyngra en arðsemiskröfur fjárfesta. Magnús vitnaði í skrif borgarfulltrúa og mátti skilja á honum að ekki færu alltaf saman orð og efndir.

Hinar sögulegu rætur

Sigríður Kristjánsdóttir, skipulagsfræðingur flutti fróðlegt erindi um þróun borgarskipulags og vitnaði meðal annars í aldargamla og stórmerka bók eftir Guðmund Hannesson lækni um skipulagsmál til að sýna fram á að meinsemdir samtímans ættu sér sögulegar rætur og kannski einnig rætur í mannlegum breyskleika.

Bíðum eftir youtube

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og menntaður í skipulagsfræðum, flutti erindi sitt til fundarins í máli og myndum og læt ég nægja að segja að ég vonast til að geta komið þessu erindi ásamt hinum sem áður voru nefnd, á youtube hið allra fyrsta svo sláandi var það.

Tvö augljós dæmi um yfirgang fjárfesta

Tilefni fundarins eru augljós dæmi þess að gróðahyggjan er orðin ráðandi í skipulagi borgarinnar. Nefni ég þar tvö dæmi, annars vegar uppbygginguna á Útvarpsreitnum í Efstaleiti, þar sem byggður er eins mikill massi og nokkur kostur er til að fá sem mest fyrir loftið sem selt er, svo vitnað sé í orðfæri Sigmundar Davíðs og hins vegar yfirgangur fjárfestanna sem nú reisa viðbyggingu við Landsímahúsið á Austurvelli án þess að lög og reglur sé virtar hvað Þá almannavilji. En meira um það síðar.

Þakkir til fulltrúa Pírata og Miðflokksins

Ánægjulegt var að sjá fulltrúa Pírata, Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur og Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúa Miðflokksins á fundinum. Því miður voru þau hins vegar undantekningin sem sannar þá reglu að í skipulagsmálum halda borgarfulltrúar sig í sínum fílabeinsturni. Öll fengu þau boð á fundinn en létu ekki einu sinni svo lítið að láta frá sér heyra. Enginn mætti frá Sjálfstæðisflokknum, enginn frá Samfylkingu, enginn frá VG, enginn frá Viðreisn, enginn frá Framsóknarflokknum og enginn frá Sósíalistaflokknum. greinilegt að kosningar eru nýafstaðnar.
FUNDUR II