Fara í efni

UNDIRSKRIFTASÖFNUN: VINNUBRÖGÐ FRÉTTASTOFU SJÓNVARPS GAGNRÝND

 
Á netinu gengur nú undirsrkriftasöfnun til að mótmæla þögn fréttastofu Sjónvarpsins um göngu Íslandsvina laugardaginn 27. maí 2006. Í áskoruninni segir eftirfarandi, nokkuð sem ég skil og styð heilshugar:
"Við undirrituð sjáum okkur knúin til að gera athugasemd við þögn fréttastofu Sjónvarpsins um göngu Íslandsvina laugardaginn 27. maí 2006.
Þúsundir Íslendinga og Íslandsvina sáu ástæðu til að fjölmenna í göngu niður Laugarveg og koma saman á Austurvelli til að mótmæla stóriðjuframkvæmdum stjórnvalda. Þennan atburð lét fréttastofa Sjónvarpsins hjá sér fara og sá ekki ástæðu til að segja þjóðinni frá þessum viðburði. Hvorki aðdraganda göngunnar né henni sjálfri og þeim fjölda sem þátt tók þrátt fyrir aðra merka viðburði sem áttu stað sama dag."
Á sínum tíma fannst sömu stofnun við hæfi að láta starfsmann sinn smala saman liði á Húsavík og sviðssetja fögnuð vegna ákvörðunar um könnun hagkvæmni álvers á norð-austurlandi.
Þetta er erfitt að skilja nema sem beina íhlutun í lýðræðislega framgöngu mála og bein afskipti af opinni og frjálsri umræðu. Hlutverk fréttastofu hlýtur að vera að gæta hlutleysis og gera málsaðilum jafnhátt undir höfði. Með þögn sinni annarsvegar og leikstýringu atburða hinsvegar er engu líkara en fréttastofa Sjónvarps telji hlutverk sitt vera annað og líkara áróðursmaskínum Stalíns og þriðja ríkisins.
Listinn verður sendur menntamálaráðherra, útvarpsstjóra RÚV og öðrum hlutaðeigandi þann 12. júní 2006
Listinn er hulinn og tölur ekki birtar fyrr en söfnun er lokið.
Slóðin er:
http://this.is/eberg/ruv/listi.php