Fara í efni

UMSÁTRINU UM GAZA VERÐI AFLÉTT NÚ ÞEGAR!


Hernámsliðið ísraelska heldur áfram umsátrinu um Gazasvæðið en þar fara nú með völdin Hamas samtökin, þau hin sömu og Palestínumenn kusu til stjórnar í síðustu þingkosningum. Hamassamtökin voru hernámsliðinu og bandarískum verndurum þess ekki að skapi. Þingmenn og ráðherrar voru því í kjölfar kosninganna fangelsaðir, þingið leyst upp, tekjustreymi til stjórnvalda stöðvað (ísraelska hernásliðið innheimtir skatta fyrir Palestínuríki!)
Evrópusambandið tók þátt í ofbeldinu og skrúfaði fyrir allan fjárhagslegan stuðning  til Palestínumanna frá þeim bænum. Síðan var beðið eftir að hið óumflýjanlega ætti sér stað: Að sundrung skapaðist með Palestínumönnum, þeir tækju innbyrðis að berast á banspjót. Það gekk eftir. Hamas hélt yfirráðum í Gaza og treystu sig í sessi með vopnavaldi en Fatah - sem undir handleiðslu Abbasar hefur gerst óþægilega leiðitamt Ísraelum og Bandaríkjastjórn - fékk völdin á Vesturbakkanum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra Íslands, kaus við þessar aðstæður að heimsækja búðir  Abbasar síðastliðið vor en horfa framhjá Hamas enda hefði heimsókn til Gaza ekki verið Bandaríkjamönnum og NATÓ að skapi.

Og nú skal enn sorfið að Gaza. Um það er rætt að taka af rafmagn þangað í byrjun desember. Við það munu vatnsdælurnar hætta að ganga og skólplagnir stíflast. En láta Ísraelar og „bandalagsþjóðir“ okkar í NATÓ þetta gerast? Getur það verið? Svarið er að þetta er ásetningur þeirra. Engu síður en það var ásetnigur að svelta Íraka til undirgefni með því að murka lífið úr hátt á annarri milljón manna með viðskiptabanninu alræmda undir síðustu aldarlok. Auðvitað „virðist þetta vera erfitt“ sagði Madeline Albricht í frægu sjónvarpsviðtali um þessi fjöldamorð, og bætti við, „en það er þess virði“. Og hvers vegna? Bandarískir hagsmunir eru í húfi, sagði þessi herskái fulltrúi Clinton stjórnarinnar bæði sem utanríkisráðherra og sendiherra BNA hjá Sameinuðu þjóðunum.

Áframhaldandi aðför að íbúum Gaza og og fyrirhugaðar hertar aðgerðir gegn þeim, munu ganga eftir nema VIÐ stöðvum þær. Mannmréttindasinnum um heim allan ber siðferðileg skylda til að reisa baráttufána að húni og berjast af alefli gegn því viðbjóðslega ofbeldi, sem saklaust fólk í Palestínu er beitt. Þessi krafa var reist á fjölmennum fundi félagsins Ísland Palestína sem haldinn var í Norræna húsinu í kvöld í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá stofnun félagsins. Krafan er : UMSÁTRINU UM GAZA VERÐI AFLÉTT NÚ ÞEGAR!