Fara í efni

UMRÆÐA UM OFBELDISKLÁM VERÐUR EKKI ÞÖGGUÐ

Klámið ekki þaggað
Klámið ekki þaggað

Sem betur fer hefur ekki tekist að þagga umræðuna um ofbeldisiðnaðinn. Eins og marga kann að reka minni til hlupu ýmsir upp til handa og fóta þegar ég setti á laggirnar nefnd til að skoða möguleika á því að koma í veg fyrir að klámiðnaðurinn þrengdi sér inn í veröld barna og unglinga eins og nú gerist í sívaxandi mæli.
Andmælendur sögðu að með þessu yrði tjáningarfrelsi (klámiðnaðarins?) skert og skrifaðar voru greinar innanlands og utan um um „frumvarpið" sem ég hefði sett fram, það væri „fasískt" og ég væri „vitskertur". Þetta voru hugtökin sem notuð voru í aðdraganda kosninga, engu til sparað.
Þetta var að vísu uppspuni. Ekkert frumvarp var komið fram en ég staðráðinn í því að halda þessari mannréttindaumræðu til streitu. Það er nákvæmlega það sem hún er: Umræða um mannréttindi; að gróðaiðnaður, sem einskis svífst og misnotar fólk, fái ekki að fara óheftur sínu fram.
Tilefni þessara þanka nú er grein sem var að birtast í breska blaðinu Guardian um þetta efni . Hún er ein af fjölmörgum sem birst hafa víðs vegar um heiminn síðustu mánuði. Áhuginn er mikill, ekki að ástæðulausu, víða hefur fólk áhyggjur af klámiðnaðinum og þá bæði vegna þess ofbeldis sem ríkir í tengslum við framleiðslu klámefnis og vegna þess hvernig iðnaðurinn reynir að koma efninu á framfæri, þar á meðal við börn og ungmenni. 
Þessi mannréttindaumræða verður að eiga sér stað til að hægt sé að leita leiða til breytinga. Hún verður ekki þögguð niður með því að kalla menn vitskerta fasista.
Greinin í Guardian: http://www.guardian.co.uk/world/2013/may/26/iceland-crackdown-internet-porn
Sjá einnig: https://www.ogmundur.is/is/greinar/althjodlegur-studningur  
og : http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/05/27/sterk_tengsl_milli_klams_og_hegdunar/