Fara í efni

UMHVERFISRÁÐHERRA EÐA AÐSTOÐARMAÐUR IÐNAÐARRÁÐHERRA?

Í kvöld var okkur greint frá því í fréttum að umhverfisráðherra geti ekki fullyrt hvort eitt eða fleiri álver rísi til viðbótar þeim álverum sem nú eru fyrir í landinu. Sem kunnugt er fara fulltrúar álauðhringanna nú snuðrandi um landið og leita fyrir sér um hvar þeir geti borið niður; hvar fyrirstaðan sé minnst, hvar síst þurfi að óttast lýðræðið og hvar minnst fé þurfi að bera á fólk og samfélag. Augljóst er að víða er vesaldóminn að finna og víða liggja menn á hnjánum. Ekki átti ég þó von á því að umhverfisráðherra væri líka knékrjúpandi. Eða er Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, ekki málsvari Fagra Íslands, meintrar umhverfisstefnu Samfylkingarinnar? Var okkur ekki sagt að stóriðjustopp yrði nú í fimm ár? Talaði Samfylkingin sig ekki þannig inn á hluta þjóðarinnar í nýafstöðnum þingkosningum? Allt er þetta nú gleymt rða svikið. Nú er sjálfur umhverfisráðherra orðinn áhorfandi en ekki áhrifavaldur. Þórunn Sveinbjarnardóttir getur ekki fullyrt hvort eitt eða fleiri álver rísi til viðbótar þeim sem fyrir eru! Og Sjónvarpið sem flutti okkur þessa stórfrétt, að álverin séu nú í miklu kapphlaupi um íslenska orku lét undir höfuð leggjast að spyrja fulltrúa Fagra Íslands um kosningaloforðin sem gefin voru í nafni fósturjarðarinnar. Getur verið að hlutskipti Þórunnar ráðherra sé orðið hið sama og hlutskipti umhverfisráherra Framsóknarflokksins á síðari árum – þeim sem þjónuðu iðnaðarráðherrum og fjármálaráðherrum hverju sinni - að hún sé orðin eins konar aðstoðarmaður iðnaðarráðherra? Ætlar hún sér virkilega ekki að verða umhverfisráherra? Og síðan eru það fjölmiðlarnir. Ætla þeir virkilega að láta Samfylkinguna komast upp með að svíkja sín helgustu kosningaloforð? Eiga fjölmiðlungar ekki að spyja fyrir hönd þjóðarinnar – fyrir hönd háttvirtra kjósenda?