Fara í efni

UMHUGSUNAREFNI

Fréttabladid haus
Fréttabladid haus

Birtist í Fréttablaðinu 15.06.11
Síðastliðið haust komu til umræðu, og síðar atkvæðagreiðslu, á Alþingi niðurstöður og tillögur rannsóknarnefndar Alþingis sem starfað hafði fyrri hluta ársins samkvæmt einróma samþykkt Alþingis frá 12. desember 2008.

Niðurstaða meirihluta þessarar rannsóknarnefndar var sú að látið skyldi á það reyna fyrir Landsdómi hvort fjórir ráðherrar hefðu rækt ráðherraábyrgð sína í aðdraganda hrunsins. Niðurstaða meirihluta Alþingis varð sú að þetta skyldi aðeins gilda um einn ráðherra, fyrrum forsætisráðherra Geir H. Haarde. Tillögurnar um hina þrjá voru felldar. Um þessa atkvæðagreiðslu ræði ég ekki frekar að sinni þótt tilefni væri til. Þetta var meirihlutavilji Alþingis.

Í fréttaviðtölum og í Kastljósi Sjónvarps sagði Geir H. Haarde að hann ætlaði að "láta það eftir sér" að nafngreina þá menn sem bæru höfuðábyrgð á því hvernig fyrir sér væri komið og þar með "fyrstu pólitísku réttarhöldum Íslandssögunnar". Þetta voru Atli Gíslason, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson, sá sem þetta ritar.

"Ég læt það eftir mér."
Fljótlega varð ég þess var að forsætisráðherrann fyrrverandi hafði hitt í mark gagnvart fólki sem gjarnan vildi sjá málin þróast á þann veg sem hér var lagt upp með. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, lét það nú einnig eftir sér að tjá sig um þetta mál og upplýsti, landsmönnum til fróðleiks, að "Ögmundur er raunar systursonur eins skeleggasta stalínista á Íslandi, Stefáns Ögmundssonar, sem hlaut harðasta dóminn fyrir árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949 ...".

Skilgreiningin á frænda mínum og lífsviðhorfum hans er að sjálfsögðu prófessorsins en dómurinn sem þarna er vísað til fólst í því að móðurbróðir minn var dæmdur í 12 mánaða fangelsi (18 mánuði í undirrétti) og sviptur kjörgengi og kosningarétti vegna þátttöku í mótmælum gegn inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Fangelsisdómnum var ekki framfylgt af ótta við viðbrögð almennings og var safnað 27.364 undirskriftum til stuðnings þeim sem hlutu dóma. Undirskriftalistarnir voru afhentir forseta Íslands árið 1952 en það var ekki fyrr en 30. apríl 1957 sem sakaruppgjöf var veitt. Þá höfðu sjö menn, ásamt Stefáni, verið án kosningaréttar og kjörgengis í fimm ár.

"Dálítið" en ekki fráleitt?
Í leiðara Fréttablaðsins 10. júní sagði að ýmsir leiddu nú að því getum að við, fyrrgreindir meintir höfuðpaurar í Landsdómsmálinu, værum "arftakar kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi sem á sínum tíma studdi sýndarréttar höld í Sovétríkjunum." Þetta segir ritstjórinn vera "dálítið" langsótt en hitt sé þó ljóst að við stöndum að því "að þverbrjóta ýmsar reglur réttarríkisins til að koma höggi á einn mann ...".

Geir H. Haarde má að sjálfsögðu láta það eftir sér að vísa stuðningsmönnum sínum á þá sem hann telur vera sína verstu óvildarmenn. Og Hannes Hólmsteinn Gissurarson má mín vegna láta það eftir sér að vera hann sjálfur eins og við höfum kynnst honum svo vel í gegnum árin.

Er ritstjóranum alvara?
En ég hefði haldið að Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins og leiðarahöfundur, hefði þurft að gera betur grein fyrir grafalvarlegum ásökunum sínum um að reglur réttarríkisins hafi verið þverbrotnar, til að koma höggi á einn mann. Eða hve vel skyldi ritstjórinn hafa gaumgæft orðaval sitt?

Vefmiðillinn Pressan telur að Geir H. Haarde "hafi með snjöllum hætti snúið vörn í sókn í málsvörn sinni fyrir Landsdómi". Eflaust kann svo að vera ef menn kjósa að færa málsvörn úr málefnalegum farvegi frammi fyrir Landsdómi yfir í farveg pólitískra ærumeiðinga. Slíkur málatilbúnaður hlýtur þó að vera fleirum en mér umhugsunarefni.