Fara í efni

UM TRÚVERÐUGLEIKA OG ESB UMSÓKN

Thorsteeinn -esbari
Thorsteeinn -esbari

Þorsteinn Pálsson situr í samninganefnd í viðræðunum við Evrópusambandið um hugsanlega aðild Íslands að sambandinu. Nánast frá upphafi viðræðna hefur Þorsteinn staðið í hnútukasti við þá ráðherra í ríkisstjórn sem lýst hafa andstöðu við inngöngu Íslands í sambandið. Þetta er sérkennilegt háttalag í ljósi þess að íslensk stjórnvöld gerðu grein fyrir því frá upphafi að innan ríkisstjórnarinnar væru mismunandi viðhorf til ESB aðildar og væri ríkisstjórnin klofin í afstöðu til ESB. Í stjórnarsáttmála, svo og í fylgigögnum með þingsályktunartillögunni sem umsóknin er reist á, er tíundað að stjórnarflokkarnir myndu halda því til haga að þeir hefðu mismunandi afstöðu til Evrópusambandsaðildar og var sagt berum orðum að VG héldi því opnu að endurskoða bæri ferlið ef ástæða þætti til. Þetta getur vissulega skapað mótsagnakenndar aðstæður á stundum en allt var það vitað fyrirfram.

Mistök Norðmanna

Ég hef margítrekað að ég vilji endurskoða viðræðuferlið - þótt jafnframt hafi ég lagt áherslu á lýðræðislega afgreiðslu málsins. Lengi vel framan af hvatti ég til að viðræðum yrði hraðað og að kjósabæri sem fyrst um efnisforsendur. Ég hef hins vegar varað mjög eindregið við því að kjósa um endanlegan samning og hef ég vísað í slæma reynslu Norðmanna af slíku. Norðmenn sóttu um aðild að ESB haustið 1992, ríkisstjórn Noregs samþykkti samninginn og Stórþingið sömuleiðis. Samhliða var samningurinn samþykktur í öllum aðildarríkjum ESB en síðan var hann felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 1993. Árum saman voru Norðmenn að súpa seyðið af þessu ráðslagi en áhrifaaðilum innan ESB  mun hafa þótt þeir hafa verið dregnir á asnaeyrum og kunnu Norðmönnum litlar þakkir fyrir.
Nú, þegar í ljós er komið að ESB ætlar að draga viðræðurnar við Ísland                á langinn til að bíða eftir rétta augnablikinu, finnst mörgum okkar, sem samþykktum ferlið á sínum tíma, nóg komið og viljum við að þjóðin verði hið fyrsta spurð hvort hún vilji ganga í ESB með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Þetta er eðlilegt og lýðræðislegt auk þess sem aldrei stóð til að leggja upp í margra kjörtímabila vegferð á kostnað skattgreiðenda og hart keyrðrar stjórnsýslu. Að ekki sé minnst á þær hatrömmu og slítandi deilur sem eru fylgifiskur þessa.

Umræðan öllum kunn

Nú held ég að þessi viðhorf séu landsmönnum almennt ljós enda margoft verið reifuð í opinberri umræðu, bæði í ræðu og riti, á undanförnum misserum.
En Þorsteinn Pálsson lætur sem hann ekkert viti. Enn eina ferðina fer hann fram með gamalkunnum hætti í grein í Fréttablaðinu 18. ágúst sl. og heldur því fram að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafi ekki sett fram fyrirvara um mögulega upptöku evru. Þorsteinn Pálsson fullyrðir að ráðherrar VG séu ósannindamenn sem tali tveimur tungum þar sem þeir tali ekki fyrir samningsmarkmiðum í peningamálum í aðildarviðræðunum við ESB. Þjóðin hafi orðið þess vitni þegar ráðherrar VG stóðu „utan veggja Stjórnarráðsins og lýstu því yfir að rétt væri að endurmeta umsókn Íslands vegna óróa í peningamálum á evrusvæðinu. Um leið ítrekuðu þeir andstöðu sína við aðild og upptöku evru. Þetta lýsti grundvallarágreiningi stjórnarflokkanna í sama máli. Annað hvort eru ráðherrar VG að segja ósatt sitjandi innan veggja Stjórnarráðsins eða standandi utan þeirra. Útilokað er að færa gild rök að því að þeir segi satt í báðum tilvikum."

Fyrirvarar ítrekaðir

Þetta er afbökun á veruleikanum. Nú er það ekki venja að segja nákvæmlega frá umræðum á ríkisstjórnarfundum. Ég get þó upplýst að á ríkisstjórnarfundi 13. júlí sl. komu þessi mál til umræðu, svo og önnur sem kveðið er á um í þingsályktunartillögunni og nefnadarálitinu sem ferlið hvílir á og snúa að peningamálum og gjaldmiðilsmálum.
Við ríkisstjórnarborðið var bent á að svo mikið vatn væri runnið til sjávar frá vorinu 2009 að ekki væri lengur hægt að láta eins og ekkert væri. Þrennt var nefnt  sérstaklega:
1) Fyrirvarar voru gerðir við afnám gjaldeyrishafta.
2) Fyrirvarar voru gerðir við yfirlýsingar um að Íslendingar vildu að við hugsanlega aðild yrði þegar í stað gengið inn í ERM II gjaldeyrissamstarfið.
3) Fyrirvari var gerður við hvers kyns yfirlýsingar um að Íslendingar tækju upp evru.
Á ríkisstjórnarfundi 21. ágúst, í kjölfar svikabrigsla-skrifa Þorsteins Pálssonar, sá ég ástæðu til að ítreka þá fyrirvara sem nefndir voru  sérstaklega á ríkisstjórnarfundinum 13. júlí, enda ástæðulaust   að sitja undir því að vera kallaður lygari.

Vilja ekki inn í eldhafið

Eftir stendur þingsályktunin sem Alþingi samþykkti vorið 2009 að byggja viðræðurnar á. Nú er það svo að mannkynssagan er á hreyfingu. Þótt á mælikvarða sögunnar sé ekki ýkja langt síðan lagt var upp í þetta ferðalag hefur margt breyst bæði á Íslandi og í Evrópusambandinu. Þar á meðal hefur komið fram að vaxandi andstaða virðist vera á Íslandi við aðild að Evrópusambandinu og við þessa kostnaðarsömu vegferð yfirleitt. Vandræðabálin sem nú loga í Evrópu gera þessa vegferð inn í eldhafið nánast fráleita í hugum sífellt fleiri. Greinilegur ásetningur ESB að draga málin á langinn hleypir og illu blóði í marga. Þá er á það að líta að mótsagnirnar sem eru í því fólgnar að sækja um aðild en vera henni jafnframt andvíg reynast okkur erfiðari en margir ætluðu svo og kröfur ESB um aðlögun. Þessir síðastnefndu þættir eru okkar sjálfsskaparvíti og hljótum við sem  berum ábyrgð á þessu ráðslagi að taka gagnrýni þar að lútandi. En þá er líka að spyrja hvað sé til ráða. Í því sambandi ítreka ég enn og aftur mikilvægi þess að halda ákvörðunarvaldinu hjá þjóðinni sjálfri.

Svikabrigsla-tal samningamanna

Samfylkingin féllst ekki á að spyrja þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu hvort hún yfirleitt vildi hefja vegferðina. Niðurstaðan varð sú að meirihluti þingmanna VG féllst á að fara að vilja Samfylkingarinnar en hélt á móti opnum möguleika á endurmati. Málið allt verður að skoðast í þessu sögulega samhengi og með hliðsjón af þeim ströngu fyrirvörum sem VG hefur alltaf gert. Flokkur sem ekki vill aðild að ESB vill hvorki evru né fengi hann evru með viðhlítandi bakstuðningi Seðlabanka án inngöngu í ESB! Ég hélt að þetta væri augljóst.
Allt þetta veldur því að þeim fjölgar innan VG sem vilja endurskoða viðræðuferlið og vísa málinu til þjóðarinnar nú. Er þá horft til þeirra fyrirvara sem VG hafði varðandi málið frá upphafi og áður eru nefndir.
Samningamenn Íslands, hvort sem það er Þorsteinn Pálsson eða aðrir verða að geta tekið því að við ræðum þessi mál opið og heiðarlega. Það hefur verið gert frá upphafi. Vissulega er þetta mótsagnakennd staða og veikleikarnir augljósir. En svona er staðan. Umræðan sem slík veikir ekki  stöðu Íslands. Öðru máli gegna svikabrigslin. Slíkt tal innan úr samninganefnd Íslands veikir trúverðugleika Íslands þótt ásökunum sé beint að tilteknum flokki og tilteknum einstaklingum. Í framhaldinu má velta því fyrir sér hver  sé trúverðugleiki samningamanna Íslands sem leyfa sér að gera eðlilega lýðræðislega umræðu tortryggilega. Trúverðugleiki slíkra manna hefur í mínum huga beðið hnekki.