Fara í efni

UM ÞÁ SEM OPNA OG LOKA LANDINU

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23/24.12.23.
Einsog fram hefur komið ákváðu flugumferðarstjórar að fresta verkfallsaðgerðum sínum. Það var skiljanleg ákvörðun með hliðsjón af aðstæðum, eldgosi og fyrirsjáanlegu innra gosi með mörgum sem vilja heim í fjölskyldufaðm um jólin. Flugumferðarstjórar hafa hins vegar minnt á mátt sinn. Og hann er ekki lítill segir forstjóri Icelandair. Í ljós hafi komið að örfáir menn geti bókstaflega lokað landinu. Það kunni ekki góðri lukku að stýra og sé tjónið, sem fámennur hópur flugumferðarstjóra hafi þegar valdið, gríðarlegt.

Ekki kann ég að leggja dóm á þessi orð forstjórans en hitt þykist ég vita að hópurinn er fjölmennari en hinir sem geta bæði opnað og lokað landinu án þess að spyrja kóng eða prest. Sami forstjóri og býsnast yfir flugumferðarstjórum birtir landsmönnum á sama tíma þá frétt í blöðum að hann hafi á prjónum áform um að tvöfalda flugflota Icelandair á komandi árum, fjölga ferðum eftir því og störfum að sama skapi. Þeim muni fjölga mikið segir hann.

Eflaust eru svipuð áform uppi hjá samkeppnisaðilum, bæði innlendum og erlendum, sem þenja sig út með ógnvænlegum hraða. En hver skyldi ógnin vera? Hún er að sjálfsögðu sú – og um það virðast menn almennt sammála – að ferðaiðnaðurinn sé kominn úr böndunum, hvorki land né samfélag, náttúran né innviðirnir, ráði við þensluna. Staðreyndin er vitaskuld sú að fjölgun ferðamanna kallar á fjölgun víðar en hjá flugfélögunum; starfsmönnum flughafna þarf að fjölga, svo og hótela og óteljandi þjónustuaðila. Fjölgunin kallar á íbúðir undir allt þetta nýja starfsfólk sem flutt er tugþúsundum saman til landsins. Svo þarf að fjölga í skólum, heilbrigðisstofnunum, félagsþjónustu. Öll þessi þjónusta er nú að sligast undan byrðunum.

Heyrt hef ég haft eftir forsvarsmönnum atvinnurekenda að þetta sé allt hið besta mál. Fjöldi Íslendinga þyrfti helst að tvöfaldast til þess að þeir gætu orðið sæmilega burðugir. Þetta er að mínu mati mikill misskilningur. Dýrmætasta auðlind Íslands hefur verið fámennið og menningarlegt stéttleysi. Þjóðin styrkist ekki við það að henni fjölgi heldur með því að hún styrki sig sem velferðarsamfélag – og sem samfélag yfirleitt. En það gerist eimitt ekki með aðferð forstjóranna hjá Play og Icelandair, að ekki sé minnst á Isavia sem svarar hverju kalli forstjóranna og fjölgar rönum í Leifsstöð í samræmi við kröfur þeirra. Skylda “fyrirtækisins” sé sú ein að skapa eigendum sínum arð. Hver segir að svo skuli vera? Á ekki þjóðin Leifsstöð – ennþá? Þarf ekki að horfa á málin í víðara samhengi, til samfélags og náttúru?

Því miður hugsar ríkisstjórnin eins. Þegar ferðamannastraumurinn hætti um nokkurra vikna skeið að vaxa með sama veldishraða og fyrr, var snarað út hundrað milljóna aukafjárveitingu til auglýsinga svo gefa mætti í að nýju. Afleiðingarnar eru hrár vöxtur í stað hægfara vaxtar þar sem innviðir og fólksfjölgun haldast í hendur.

En hraðinn freistar og veitir stundarfrið. Ör vöxtur hefur strax áhrif með innspýtingu í ríkissjóð og hjálpar á sama hátt og sprautan hjálpar fíklinum þá stundina. En svo koma eftirköstin. Þau verða erfiðari eftir því sem kerfið ræður ver við vaxandi byrðar sem forstjórarnir leggja á samfélagið. Hliðverðir sem ekki skilja félagslega ábyrgð sína betur en þessir menn, geta með öðrum orðum valdið gríðarlegu tjóni, miklu meira en flugumferðarstjórar sem vilja gerast hálfdrættingar þeirra í launum.

Um launakjör ætla ég þó ekki að fjalla hér og nú, aðeins ítreka tillögu sem ég hef áður sett fram. Og hún er sú að þegar sest verði að samningaborði um kaup og kjör hafi allir, bæði við það borð og í umræðu í fjölmiðlum, mánaðarlaunin sín, launatekjur og fjármagnstekjur, prentuð á skilti sem borið verði á maganum. Láglaunafólkið mætti gera hið sama.

Þá sæjum við hvernig skipað er í rúm á bátnum sem Samtök atvinnulífsins hafa auglýst að sé okkar allra. “Við erum öll á sama báti”, heitir það.
Betur væri að sú væri raunin.
Gleðileg jól.