Fara í efni

UM MENN SEM "ANNAST YFIRHEYRSLUR"

Morgun-
blaðið birtir í laugardags-
blaðinu ágæta frétt um ásakanir sem fram hafa komið að Kóraninn hafi verið óvirtur í fangabúðm Bandaríkja-
manna í Guantanamo til að ögra múslímskum föngum þar. Í fréttinni segir m.a.: " Jay Hood hershöfðingi sagði á fréttamannafundi í fyrradag, að ásakanir um að Kóraninn hefði verið svívirtur væru 13 en sannanir fyrir slíku lægju fyrir í fimm tilvikum. Fjórum sinnum hefðu fangaverðir átt í hlut en einu sinni maður, sem annaðist yfirheyrslur. Þrisvar sinnum hefði verið um ásetning að ræða en tvisvar vangá. Vildi Hood ekki segja frá því í hverju óvirðingin hefði falist. Lawrence Di Rita, talsmaður Donald H. Rumsfelds varnarmálaráðherra, var á fundinum með Hood og sagði, að nú ætti að vera ljóst, að í Guantanamo væri borin mikil virðing fyrir trú fanganna."

Í þessari frétt er sitthvað sem vert er að staldra við. Í fyrsta lagi hefur komið fram að Newswek vikuritinu var þröngvað til að biðjast afsökunar eftir að hafa birt frétt um að Kóraninum hefði verið sturtað niður í salerni án þess að hafa fyrir því óyggjandi sannanir. Óhug setti að mörgum við að verða vitni að því að jafnöflugum fjölmiðli og menn töldu Newsweek vera væri sagt fyrir verkum á þennan hátt: Við erum komin ískyggilega nærri því að bandarísk stjórnvöld komist upp með að láta endurskrifa söguna. Eða skyldi fólk vera búið að gleyma því þegar menn voru þurrkaðir af ljósmyndum austur í Sovét þegar ekki hentaði hagsmunum ráðamanna að þeir hefðu verið til!

Á fréttamannafundinum sem Morgunblaðið greinir hér frá kemur fram að ásakanir um að Kóraninn hafi verið svívirtur – sem væntanlega er hið mikilvæga í frétt Newsweek – reyndist vera rétt þótt sönnun fyrir klósettniðursturtuninni lægi ekki fyrir. Eftir að frá þessu hafði verið greint segir talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins að "nú ætti að vera ljóst, að í Guantanamo væri borin mikil virðing fyrir trú fanganna." !!! Skyldi heimurinn vera orðinn svo blindur að hann sjái ekki hversu yfirgengilega siðblint og ósvífið þetta fólk er? Nei, ekki er nóg með þetta. Ráðamennirnir bandarísku bíta nefnilega höfuðið af skömminni með því að segja að Newsweek hafi "varanlega" skaðað ímynd Bandaríkjanna meðal múslíma!

Bandaríkjastjórn heldur mönnum án dóms og laga í fangabúðum þar sem stundaðar eru viðbjóðslegar pyntingar. Opinberlega er viðurkent að Kóranin hafi meðvitað verið notaður  til að ögra föngunum,  meiða tilfinningar þeirra og brjóta þá niður. En það er Newsweek sem hefur skaðað ímynd Bandaríkjanna meðal múslíma – að sjálfsögðu ekki pyntingarböðlarnir!!
Skyldi aldrei hvarfla að ráðamönnum íslensku þjóðarinnar að vafasamt kunni að vera að styðja Bandaríkjstjórn í baráttu hennar fyrir "frelsi og mannréttindum"?

Svo eru það mennirnir sem "annast yfirheyrslur". Það eitt er vissulega umhugsunarefni að það virðist vinnuregla hjá Bandaríkjaher að fela verstu skítverkin verktökum og mun það vera gert til þess að firra herinn ábyrgð. Ekki veit ég þó hvort þeir sem "annast yfirheyrslur" í Guantanamó eru verktakar eða opinberir starfsmenn.

Ég leyfi mér að birta hér frétt Morgunblaðsins:

 Viðurkenna að Kóraninn hafi verið saurgaður

Washington. AP, AFP. | Bandarískir embættismenn sögðu í gær, að vitað væri með vissu um fimm tilfelli þess, að Kóraninn, hin helga bók múslíma, hefði verið óvirtur í fangabúðum Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu.

Washington. AP, AFP. | Bandarískir embættismenn sögðu í gær, að vitað væri með vissu um fimm tilfelli þess, að Kóraninn, hin helga bók múslíma, hefði verið óvirtur í fangabúðum Bandaríkjamanna í Guantanamo á Kúbu. Engin áreiðanleg sönnun væri þó fyrir því, að honum hefði verið sturtað niður um salerni.

Ásakana um, að fangaverðir hafi sturtað niður Kóraninum er getið í skjölum starfsmanns FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, árið 2002 og tímaritið Newsweek hélt því einnig fram í grein, sem það var neytt til að draga til baka. Olli hún uppnámi í nokkrum múslímskum löndum og féllu að minnsta kosti 15 manns í mótmælaaðgerðum. Fór Bandaríkjastjórn hörðum orðum um Newsweek og sakaði það um að hafa "varanlega" skaðað ímynd Bandaríkjanna meðal múslíma.

Ásetningur í þrjú skipti

Jay Hood hershöfðingi sagði á fréttamannafundi í fyrradag, að ásakanir um að Kóraninn hefði verið svívirtur væru 13 en sannanir fyrir slíku lægju fyrir í fimm tilvikum. Fjórum sinnum hefðu fangaverðir átt í hlut en einu sinni maður, sem annaðist yfirheyrslur. Þrisvar sinnum hefði verið um ásetning að ræða en tvisvar vangá. Vildi Hood ekki segja frá því í hverju óvirðingin hefði falist.

Lawrence Di Rita, talsmaður Donald H. Rumsfelds varnarmálaráðherra, var á fundinum með Hood og sagði, að nú ætti að vera ljóst, að í Guantanamo væri borin mikil virðing fyrir trú fanganna.

Krefst refsingar

Nokkrir breskir ríkisborgarar og fyrrverandi fangar Bandaríkjamanna í Afganistan og Guantanamo ítrekuðu á mánudag, að þeir hefðu margsinnis orðið vitni að saurgun Kóransins. Þá hefur Pervez Musharraf, forseti Pakistans, krafist þess, að Bandaríkjastjórn refsi þeim harðlega, sem óvirtu Kóraninn, en ýmsir íslamskir hópar í Pakistan höfðu boðað til mótmæla í gær víða um landið.