Fara í efni

Um mann og stól

Í vikunni eru fyrirhuguð stólaskipti í Stjórnarráðinu. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, tekur við embætti utanríkisráðherra en núverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sest í stól forsætisráðherra. Menn velta því fyrir sér hvaða þýðingu þetta hafi. Eftirfarandi vangaveltur kviknuðu í mínum huga. 

 Það hefur verið sagt um framsóknarmenn og krata að það fari eftir samstarfsaðila þeirra í ríkisstjórn hvaða pólitíski armur má sín meira innan þeirra raða, hinn hægri eða sá vinstri. Í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eflist jafnan hægra gengið í þessum flokkum eins og gerðist í samstarfi Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks 1991 til 1995 og svo frá 1995 í samstarfi Framsóknarflokks við Sjálfstæðisflokkinn. Í samstarfi við Alþýðubandalag hér fyrr á tíð efldust á hinn bóginn vinstri menn í þessum flokkum.

 Nú veit ég ekki hvort eitthvað er eftir af vinstri mönnum í Framsókn lengur, nema þá á meðal kjósenda flokksins. Þó er ágæt félagshyggjuhugsun hjá Guðna Ágústssyni og Jóni Kristjánssyni þegar þeir sjálfir ráða för. Árni Magnússon er enn of ungur í pólitík til að hægt sé að átta sig fullkomlega á áherslum hans en um sumt sýnast mér þær vera ágætar. En ef Árni er óskrifað blað verður hið sama ekki sagt um þá ráðherra flokksins sem enn eru ónefndir. Halldór, Valgerður og Siv eru löngu útkrotuð blöð og það með verkum sem  maður hefði haldið að fæstir vildu hafa á samviskunni: Stærstu náttúruspjöllum Íslandssögunnar, stuðningi við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, sala á verðmætum eigum þjóðarinnar til pólitískra vildarvina, svikum á samningum við öryrkja, einkavæðingu og samdrætti í velferðarþjónustu, rándýr gæluverkefni, stofnun íslenskrar herdeildar á bak við tjöldin...

Listinn nær út í hið óendanlega. Sannast sagna er erfitt að greina á milli Framsóknar og Íhalds í afstöðu til þessara mála. Í mörgum þeirra hefur Framsókn vinninginn í vafasömum ákvörðunum og kemur þar Kárahnjúkavirkjun fyrst upp í hugann. Í flestum málum hafa flokkarnir þó verið samstiga og formennirnir nánast eins og Síamstvíburar og nefni ég þar til dæmis fylgispekt við hernaðinn í Írak. Það er helst í heilbrigðismálum sem flokkarnir eru ekki alveg sammála. Þar hefur Jón Kristjánsson haldið uppi andófi gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þegar hins vegar á reynir setur Íhaldið flokknum stólinn fyrir dyrnar, samanber svívirðilega aðför að Landspítalanum á fyrri hluta þessa árs, að undirlagi Sjálfstæðisflokksins og öryrkjamálið nú. Hvað Evrópusambandsaðild áhrærir er vissulega munur á grundvallarafstöðu. Davíð Oddsson er andvígur aðild Íslands en Halldór fylgjandi. Sá síðarnefndi lætur hins vegar ólíkindalega nú og hefur uppi gífuryrði gagnvart Brussel. Allir vita að þetta eru látalæti en pólitíska þýðingu hefur þetta engu að síður.

Og er þá komið að því að spyrja hvort það skipti einhverju máli að þeir víxli stólum Davíð og Halldór? Í öllum höfuðdráttum skiptir þetta engu meginmáli. Ef Halldór Ásgrímsson hefði verið félagshyggjumaður eins og ýmsir fyrri formenn flokksins hefðu spennandi tímar verið í vændum. Það eina sem í raun vekur spurningar er hvernig Sjálfstæðisflokknum muni takast að nýta sér ást Halldórs á stól forsætisráðherra. Því er ekki að leyna að nokkurn óhug setur að mönnum yfir því hve  langt Halldór Ásgrímsson hefur verið reiðubúinn að ganga til að komast í stól forsætisráðherra. Yfirlýsingar hans um Evrópusambandið nú síðustu daga eru án efa af þessum toga: Ég vil stólinn, ég skal segja hvað sem er og ég skal gera hvað sem er. Hættan er því sú að Halldór Ásgrímsson berji nú enn harðar en fyrr á því sem eftir er af félagshyggjuhugsun í Framsókn.

Um helgina var ráðist á öryrkjana og sagði forsætisráherra að ekki stæði til að efna samninga við þá – eða öllu nákvæmar, Davíð Oddsson kannast ekki við að þeir samningar hafi verið gerðir sem þó lágu fyrir undirritaðir og vel auglýstir fyrir síðustu kosningar. Ég efast um að Jóni Kristjánssyni sé skemmt. Næst verður það eflaust einkavæðingin. Þrýst af enn meiri krafti en áður á að heilbrigðisþjónustan verði einkavædd. Jón Kristjánsson mun andæfa. En þá er það aftur spurningin um mann og stól.