Fara í efni

UM MÆTINGU Á MÓTMÆLAFUNDI GEGN STRÍÐSGLÆPUM

Birtist í Fréttablaðinu 03.08.06.
Fáeinum klukkustundum eftir að fréttir bárust af fjöldamorðunum í Qana í Suður-Líbanon á sunnudag var efnt til mótmæla í Ísrael. Talað var um fjölmenn mótmæli, tvö hundruð manns höfðu komið til fundarins! Við erfiðar aðstæður, í landi þar sem stríðsástand ríkir, getur verið erfitt að halda uppi málstað friðar. Við hljótum að taka ofan fyrir því hugrakka og staðfasta fólki í Ísrael sem mótmælir ofbeldisverkum eigin herja. Þetta fólk mótmælir við óeðlilegar aðstæður.
Hið eðlilega er – þegar fréttir berast af fjöldamorðum á börnum, þau myrt á miskunnarlausan hátt – að fólk mótmæli hástöfum. Slíkt er í samræmi við réttlætiskennd okkar flestra. Aðstæður í samtímanum geta hins vegar slegið okkur blindu eða í einhverjum tilvikum hrætt fólk frá því að láta til sín taka.
Í okkar samtíð spyrja margir í forundran hvernig á því standi að eins lítið hafi orðið um mótmæli gegn fjöldamorðum og ofsóknum nasista á hendur gyðingum og kommúnistum í Evrópu á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Sama má segja um nauðungarflutnniga, aftökur og fangelsanir í Sovétríkjunum forðum daga. Eflaust hafa menn ekki alltaf vitað gerla hvað í raun var að gerast, voru sinnulausir um það eða slegnir pólitískri blindu. Það var ekki fyrr en síðar að réttlætiskenndin vaknaði til lífs. Þá gerðust menn grjótharðir mannréttindasinnar. Verst að það var fimmtíu árum of seint.
Það er áhyggjuefni að menn skuli þá fyrst verða glöggskyggnir á ranglætið þegar það er nógu fjarlægt, ekki síst í tíma.
Nú vitum við að það er verið að myrða saklaust fólk umvörpum með beinum og óbeinum stuðningi Bandaríkjanna, mesta herveldis heimsins. Við fáum myndir af sundurtættum líkum barna, íbúðarhúsum, sjúkrahúsum og skólum sem jafnaðir hafa verið við jörðu. Fram kom í frétt New York Times nýlega, að Bandaríkjamenn hefðu látið flýta vopnasendingum til Ísraels vegna árásanna. Vegna þessara tengsla var efnt til fundar fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík. Í fjölmiðlum – sumum – kom réttilega fram að fundinn sóttu nokkur hundruð manns. Í pistlinum Frá degi til dags á leiðarasíðu Fréttablaðsins, sunnudaginn 30. júlí er reynt að gera lítið úr mætingu á fundinn og spurt hvort “Laddi hafi séð um mannfjöldatalningu lögreglunnar líkt og hann gerði í áramótaskaupinu?”
Það getur vel verið að á Fréttablaðinu þyki þetta fyndið. Okkur sem sóttum fundinn þótti hann hins vegar vel mannaður, þótt það veki óneitanlega áhyggjur hvílíkt sinnuleysi margir sýna þeim stríðsglæpum sem heimurinn verður nú vitni að í Líbanon og Palestínu og læt ég þá liggja á milli hluta afstöðu hinna sem telja ástæðu til að hafa þessi mál í flimtingum. Með því að gera lítið úr mótmælum sem þessum, er Fréttablaðið að taka afstöðu. Að vísu með hinum lítilmannlegu vopnum, hroka og kaldhæðni, en afstöðu samt.