Fara í efni

UM LAUN OG LAUNAFÓLK

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 24.04.09.
Á síðustu dögum kosningabaráttunnar hefur nokkuð verið fjallað um meintan vilja VG til þess að lækka launin í landinu. Mér er málið nokkuð skylt eftir þriggja áratuga starf á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Þar hef ég barist fyrir jöfnuði í kjaramálum. Andstæða jafnaðar er frumskógurinn og þau lögmál sem þar gilda. Til þess að komast út úr þeim skógi hafa samtök launafólks og atvinnurekendur smíðað kauptaxtakerfi og þegar um það hefur verið að ræða að unnið skuli samkvæmt bónusum hefur verið reynt af hálfu okkar í hreyfingu launafólks að semja um þá á félagslegum grunni. Það tryggir að hald sé í kjörunum þegar á reynir.

Alltaf viljað háa kauptaxta

Margir atvinnurekendur hafa viljað hafa annan hátt á: Kauptaxta lága en síðan greiðslur að þeirra duttlungum þar ofan á. Þegar gefur á bátinn þjónar þetta þeirra hagsmunum en kemur launafólkinu í koll. Ég hef alla tíð verið eindreginn fylgismaður þess að hafa kauptaxta háa. Og til þess að stuðla að jöfnuði hef ég á ferli mínum í starfi innan verkalýðshreyfingarinnar ítrekað lagt til að samið verði um fast hlutfall á milli lægstu og hæstu launataxta. Slíkt hefur hins vegar ekki náð fram að ganga eins og kunnugt er. Nú kreppir að og einstaklingsbundnar greiðslur ofan við taxta hrynja. Ég hef beint þeim tilmælum til stjórnenda stofnana innan heilbrigðiskerfisins að hlífa því fólki sem er í lægri kantinum við þess háttar skerðingum. Betur væri að kauptaxtar þessa fólks væru hækkaðir því til varnar.

Engir launataxtar lækkaðir

Um launataxtana að öðru leyti eru skoðanir mínar mjög afdráttarlausar. Við samningsbundnum launatöxtum á ekki að hrófla undir neinum kringumstæðum. Allt tal um launalækkanir í þessum skilningi er því út í hött. Það breytir því ekki að launataxtar geta vaxið eða rýrnað að verðgildi eftir því hver verðlagsþróun er. Því miður hefur óðaverðbólga undangenginna mánaða höggvið óþyrmilega í kaupmáttinn. Sem betur fer er verðbólgan nú á hraðri niðurleið og eru það góðar fréttir hvað kaupmátt áhrærir.

Fólk láti ekki blekkjast

Svo er hitt allt annað mál, að þeir sem taka inn tekjur sínar sem verktakar frá hinu opinbera í allt öðru og hagstæðara skattaumhverfi en launamaðurinn þurfa að horfa í eigin barm í þeim tilvikum sem um veruleg umframkjör er að ræða. Þarna vaknar einfaldlega krafa um félagslegt réttlæti og ábyrga ráðstöfun fjármuna skattborgarans. Það er mikilvægt í þeirri kjaraumræðu sem framundan er að halda þessum staðreyndum til haga en láta ekki blekkjast af útúrsnúningatali kosningabaráttunnar.