Fara í efni

UM KRÓNUNA, EVRUNA, GENGIÐ OG RÍKISSTJÓRNINA

Fyrir fáeinum dögum birtist áhugavert lesendabréf hér á síðunni frá Þráni þar sem hann fjallar um íslensku krónuna og segir að hún sé hætt að veita réttar upplýsingar um stöðu hagkerfisins. Hann segir að nær væri fyrir okkur að taka upp Evruna. Þráinn segir m.a.: "Sjálfstæður gjaldmiðill í örsmáu hagkerfi elur á spillingu og spákaupmennsku og kostar auk þess mikið að reka. Krónan er löngu hætt að veita nokkrar upplýsingar um stöðu hagkerfisins, löngu hætt að veita hagkerfinu nokkra vernd og löngu hættur að vera sá stuðpúði sem talsmenn hennar telja hennar aðalsmerki."
Það er margt rétt í ábendingum Þráins að mínu mati. Samkvæmt mínum skilningi gætum við þó ekki tekið upp Evruna nema við gerðumst jafnframt aðilar að Evrópusambandinu. Ókostirnir við aðild að ESB tel ég hins vegar svo mikla að slíkt væri mikið óráð. Hitt er rétt hjá Þráni að það er vandmeðfarið að stýra smáu og viðkvæmu efnahagskefi. Þá ríður á að stjórnvöld fari fram af hyggindum.
Það sem menn hafa horft á með ugg í brjósti er hvernig spákaupmenn eru farnir að flytja fjármagn í stórum stíl frá svæðum þar sem vextir eru lágir og yfir til okkar sem búum við háa vexti. Þannig fjármagna Íslendingar braskið – með þeim okurvöxtum sem þeim er gert að greiða.
En braskararnir taka eina áhættu. Og hún er fólgin í þeirri óvissu sem er um gengisþróun. Eins og sakir standa er krónan mög sterk miðað við aðra gjaldmiðla. Fari nú svo að hún veikist, þá verða krónurnar sem braskararnir hafa hér á vöxtum verðminni og þeir tapa.
En hvers vegna skyldi krónan vera sterk? Það er vegna þess að pumpað er fjármagni inn í hagkerfið vegna stóriðjuframkvæmda. Eftirspurn eftir krónunni styrkir hana svo mjög að hún er hætt að gefa nokkra raunhæfa mynd af íslensku atvinnulífi. Þetta er rétt hjá Þráni og á þetta hef ég einnig bent. Afurðir okkar hætta hreinlega að seljast og ferðamenn hætta að hafa efni á að koma til landsins ef fer fram sem horfir.
En hvað skyldi nú ríkisstjórnin gera við þessar aðstæður? Viðskiptaráðherrann lýsir því yfir að áfram verði haldið á stóriðjufylliríinu á næstu árum. Á eftir Kárahnjúkum komi næstu stórframkvæmdir og síðan koll af kolli... Þar með er bröskurum gefið grænt ljós á að genginu verði áfram haldið uppi. Þeir geta því verið rólegir enn um sinn.
Auðvitað er hér verið að reisa efnahagskerfi á sandi. Fyrir þjóðina er það skelfileg tilhugsun. En fyrir braskara er óskastjórn á Íslandi.
Bréf Þráins er HÉR
Ísland haft að féþúfu er HÉR