Fara í efni

UM HVAÐ ÆTTI AÐ SPYRJA ÞJÓÐINA?

ESB - Spurningin
ESB - Spurningin

Ljóst er að núverandi ríkisstjórn er andvíg því að Ísland gerist aðildarríki í Evrópusambandinu.  Vissulega má líta á það sem órökrétt að hún haldi til streitu aðildarumsókn Íslands, sem byggð er á þingsályktunartillögu sem borin var fram vorið 2009 og samþykkt af þáverandi stjórnarmeirihluta. Ríkisstjórnin hefur nú boðað þingsályktunartillögu um að umræðurnar verði formlega stöðvaðar og ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Furðu sætir að slík tillaga skuli ekki hafa komið fram fyrr.

Andstæðingar ESB aðildar á þingi greiða varla atkvæði  gegn slíkri tillögu. Ekki síst ef þeir hafa verið - og eru enn - þeirrar skoðunar  að í reynd sé ekkert um að semja; að kíkja í pokann sé einfaldlega blekkjandi tal.   

En hvað þá með lýðræðið? Því miður fór of lítið fyrir því þegar við samþykktum aðildarumsókn vorið 2009. Við trúðum því nefnilega að viðræður tækju skamman tíma og hefðu ekki í för með sér þá stofnanalegu aðlögun og þann óheyrilega tilkostnað sem raun bar vitni.  Í upphafi var talað um að ferlið gæti  tekið um  18 mánuði. Það reyndist rangt og læddist sá grunur að okkur mörgum að ESB hafi viljað draga umræðurnar á langinn, enda kom ítrekað fram í skoðanakönnunum að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna var andvígur aðild.

Við þessar aðstæður töluðum við sum hver fyrir því að viðræðum yrði hraðað sem kostur væri en málið útkljáð í þjóðaðratkvæðagreiðslu innan kjörtímabilsins.  Hefði viðræðum ekki verið lokið væri einfaldlega spurt hvort  landsmenn vildu ganga í ESB á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir lægju. Margoft setti ég slíkar tillögur fram í ræðu og riti.

Ef efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu nú, þá væri þetta að mínu mati spurningin sem kjósa ætti um. Ekki hvort halda ætti áfram gaufi við viðræður með tilheyrandi aðlögun stofnanakerfisins fyrir ærið fé, heldur hvort þjóðin æski þess að við fáum aðild að ESB. Við skulum ekki gleyma því að um það snýst málið, viljann til að gerast eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ég varð margoft var við það að fulltrúum erlendra ríkja þótti afstaða Íslendinga illskiljanleg, jafnvel ósiðleg, að sækja um aðild en vera síðan í besta falli beggja blands, allt eins andvíg aðild! Ferlið er ekki útgjaldalaust, hvorki fyrir Ísland né ESB. Það er til nokkuð sem heitir að draga menn á asnaeyrum. Þá tilfinningu hef ég orðið var við hjá viðmælendum úr stofnanakerfi ESB. Það er ekki gott fyrir Ísland.

Ég hef oft sagt að það hafi verið mistök að spyrja ekki þessarar spurningar upphaflega, áður en af stað var haldið, nefnilega  hvort þjóðin vildi öðlast aðild að Evrópusambandinu. Ég stóð hins vegar að hinni ákvörðuninni og vék aldrei frá henni á síðasta kjörtímabili þótt ég reyndi ítrekað að tala stjórnarmeirihlutann inn á breytta nálgun í ljósi breyttra aðstæðna.

Nú eru kaflaskil. Sjálfum finnst mér að eigi að hætta viðræðum formlega en myndi jafnframt styðja tillögu um að þjóðin yrði spurð í þjóðaratkvæðagreiðslu markvissrar spurningar um það hvort hún vilji að Ísland gerist hluti af ESB og haldi því umsókn um aðild til streitu.