Fara í efni

UM HEILBRIGÐI VIÐSKIPTABLAÐSINS


Viðskiptablaðið hefur  sýnt  einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar talsverðan áhuga um skeið. Hrun fjármálakerfisins og þar með frjálshyggjunnar virðist ekki hafa haft mikil áhrif á afstöðu blaðsins og er ekki annað að sjá en ritstjórninni þyki það, eftir hrun sem áður, vera keppikefli að koma heilbrigðiskerfinu í hendur fjármálamanna. Sjálfum er mér þetta ráðgáta og tilefni til að spyrja hvort menn ætli ekkert að læra af óförum okkar; hvort grunnþjónusta samfélagsins sé virkilega betur komin í höndum gróðaafla en þeirra sem einvörðungu hafa almannahag að leiðarljósi.

Þegar hið endurreista Viðskiptablað kom út að nýju í eignarhaldi nýrra aðila í vikunni fjallaði leiðarinn um hve jákvætt það væri að einkavæða heilbrigðisþjónustuna.  Heilbrigt skref var fyrirsögn leiðarans og var þar sérstaklega skírskotað til nýjustu afreka Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, sem nú er farinn að rukka sjúklinga sem lagðir eru inn á spítala og heldur áfram þeirri iðju sinni að búa í haginn fyrir einkavæðingu með því að þrengja að almannaþjónustunni. Allt þetta var lofað og prísað í leiðaranum.

Nýjasta verk Guðlaugs Þórs er ákvörðun um að loka St. Jósepsspítala í Hafnarfirði. Hugmyndin er að verkefni sem nú eru unnin á spítalanum flytjist til sjúkrahússins í Reykjanesbæ. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefur tekið ákvörðun flokksbróður síns í heilbrigðisráðuneytinu fagnandi og segir að til skoðunar sé að einkavæða rekstur sjúkrahússins í Reykjanesbæ. Hvílík tilviljun! En hver skyldi eiga að taka að sér reksturinn? Heitasti kandidatinn  er sagður auðmaðurinn, Róbert Wessman. Það hefur bæjarstjóri  staðfest og sagt hann „ágætlega inni í myndinni."

Aftur að nýendurreistu Viðskiptablaði. Því hinu sama og talar um Heilbrigð skref sem einkavæðingarráðherra heilbrigðismála tekur. Hver skyldi nú vera stærstur eigandi blaðsins annar en Róbert Wessman, sá hinn sami og er „ágætlega inni í myndinni" í Reykjanesbæ!

Ítrekað skal að einkavæðingaráhuginn er ekki nýr af nálinni á ritstjórn Viðskiptablaðsins. Hins vegar vakna ýmsar spurningar þegar auðmenn ná undirtökum í stjórnmálum og fjölmiðlum og hagsmunabarátta auðmannanna og ritstjórnarstefna fjölmiðla í þeirra eigu renna saman í eitt.  Þess vegna þessar hugrenningar að gefnu tilefni: Lofgjarðar,  um ráðherra sem deilir út ábatasömum verkefnum, í leiðara blaðs í eigu manns sem vonast til að komast sjálfur yfir verkefnin.

Það er bót í máli þegar tengslin eru kunn. Væri það kannski heilbrigt skref að binda í lög að um eignarhald fjölmiðla skuli ævinlega upplýst, að sama skapi skuli upplýst um öll hagsmunatengsl stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka.  Ég skora á Viðskiptablaðið að upplýsa um alla eigendur sína - ekki bara stærsta hluthafann heldur  einnig alla hina. Blaðið gangi síðan á þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar  um að leggja á borðið upplýsingar um kjör sín og hagsmunatengsl sín og sinna. Þetta neita þessir flokkar að gera. Heilbrigt? Varla.