Fara í efni

UM GUNNAR SMÁRA OG KVÓTANN HEIM

Inn á Alþingi og inn í ríkisstjórn hafa í tímans rás komið einstaklingar sem sögðu eitt í gær og annað í dag. Meira að segja á það við um mjög marga. Látum hugann reika yfir þingheim og ráðherrabekkinn fyrr og síðar!

Þetta er verðugt að hugleiða. Það er líka verðugt viðfangsefni að velta því fyrir sér hvers vegna einn maður skuli nú vera tekinn sérstaklega út fyrir sviga og hann settur undir stækkunargler og allt það sem hann hefur sagt fyrr og síðar. Sá maður er Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokksins.

Ég leyfi mér að fullyrða að áhuginn á persónu og mannorði Gunnars Smára Egilssonar er ekki sagnfræðilegur, hvað þá siðferðilegur. Áhuginn snýr að því sem Gunnar Smári segir í dag, ekki því sem hann kann að hafa sagt í gær.

Og þá liggur beint við að spyrja. Hvers vegna ekki ráðast á manninn beint fyrir það sem hann hefur til málanna að leggja núna? Gæti verið að menn vilji forðast þá umræðu? Og hver skyldi sú umræða vera?

Ég gef mér að það sé kvótinn.

Ástæðan fyrir því að ég fékk Gunnar Smára til þess að flytja fyrirlestur á fundum mínum um þróun kvótakerfisins í fundaröðinni Til róttækrar skoðunar var sú að hann hafði skrifað og talað um kerfið af meiri þekkingu og viti en flestir aðrir. Það þótti líka flestum sem á hlýddu.

Gunnar Smári vildi kvótann heim eins og ég kallaði það til að leggja áherslu á að ásættanlega lausnin við uppstokkun kvótakerfisins væri að færa sjávarbyggðunum aðgang að auðlindinni í stað þess að bjóða umheiminum öllum aðgang að henni gegn “markaðsgjaldi” á uppboði. Þarna vegast á félagsleg sjónarmið og byggðastefna annars vegar og markaðshyggja hins vegar.

Ég er með þessu innleggi ekki að blanda mér í umræðu um atkvæðaseðilinn og hvernig hann verði best nýttur. Ég er að blanda mér í umræðu um lýðræðið og opna umræðu og andmæla því að reynt sé að drepa í mönnum með því að meiða mannorð þeirra.

En svo er hitt að Gunnar Smári Egilsson getur verið nokkuð brattur ef málflutningur hans vekur slíka ógn í heimi handhafa kvótagróðans að þar geti menn ekki á heilum sér tekið við tilhugsunina um að orð hans fái að heyrast.

Í þessum heimi vita menn nefnilega að þótt hlass þeirra sé stórt þá er það valt. Og hver veit nema að svo valt sé það að ekki þurfi meira en eina þúfu til að velta því.