Fara í efni

UM FORM OG INNIHALD Í RÉTTARKERFINU

héraðsdómur
héraðsdómur

Sl. föstudag fögnuðu héraðsdómstólar landsins þvíað  um þessar mundir eru 20 ár eru liðin frá stofnun þeirra og var af því tilefni efnt til umræðufundar um stefnumótun héraðsdómstóla og dómstólaráðs.
Auk mín fluttu þar ávörp Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs, Guðmundur Sigurðsson, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, Ingibjörg Ingadóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst, Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Jónas Þór Guðmundsson, formaður LMFÍ og Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. Að loknum ræðuhöldum fór fram vinna í starfshópum. sJÁ : http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28200  

Hér er ávarp mitt á ráðstefnunni: 
Umferðalagabrot eru tæplega meðal algengustu brota sem koma til umræðu í tengslum við mannréttindi. En það gerðist á 9. áratug síðustu aldar þegar meint brot á íslenskum umferðalögum rötuðu inn á borð mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Hvort hinn kærði hafði raunverulega gerst brotlegur við lög var ekki viðfangsefnið á því stigi, heldur ferlið í átt að dómi. Þetta er í takti við þróun sem orðið hefur í mannréttindamálum að ekki aðeins skuli niðurstöður réttarkerfisins vera réttlátar, heldur einnig ásýndin og leiðin að niðurstöðunni. Þannig má ekki sami maðurinn setja upp nokkra hatta innan kerfisins; rannsaka, ákæra og dæma, að ekki sé talað um að smíða reglurnar sem dæmt er eftir!

Málið varð til þess að ýta enn frekar á um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds í héraði sem að lokum fékkst samþykkt sem lög frá Alþingi. Það var árið 1992 en þessi starfsdagur sem héraðsdómstólarnir efna nú til er jafnframt til að minnast þeirra tímamóta fyrir tuttugu árum. Með aðskilnaðarlögunum varð grundvallarbreyting á dómstólaskipaninni í héraði og voru héraðsdómstólarnir settir á stofn í þeirri mynd sem þeir eru í dag. Á árinu 1998 voru síðan sett sérstök lög um dómstóla. Samkvæmt þeim lögum varð dómstólaskipanin með sama hætti og kveðið var á um í aðskilnaðarlögunum, átta sjálfstæðir dómstólar með aðsetur víða um land.

Flestir er á því máli að þarna hafi verið stigið framfaraspor. Ekki var það skref þó óumdeilt, og bar umræðan á Alþingi um þessar breytingar þess vott að ekki voru allir þingmenn á eitt sáttir. Töldu sumir að mikið óhagræði kæmi til með að hljótast af breytingunni og að líkur væru á að hún yki enn frekar á annars konar samþjöppun valds en þá sem gagnrýnd var; að til langs tíma litið kynni þessi breyting að verða á kostnað byggðatengdra þátta; á kostnað dreifbýlis en í þágu þéttbýlis.

Þessi umræða var um margt eðlileg. Því á sama tíma og við viljum gæta að réttlátri málsmeðferð í alla staði þá þarf líka að horfa til þess sem er gerlegt og ekki gerlegt í litlu samfélagi.

Og enn um formið. Þótt formið sé mikilvægt, þá er það aldrei svo mikilvægt að missa megi sjónar á innihaldinu. Eflaust fylgdu starfsmenn öllum settum formreglum í Réttarhöldunum hjá Franz Kafka, þegar söguhetja hans Josef K. var vakinn upp á þrítugsafmælinu sínu af KERFINU, sem hér ritast með stórum stöfum, KERFINU, sem í senn var altumlykjandi en um leið svo fjarlægt að aldrei var hönd á festandi. Hvorki Josef K. né lesandinn fékk nokkru sinni að vita um hvað réttarhöldin snérust, formið hafði tekið völdin, það eitt skipti máli, innihaldið engu.  Það er gagnlegt að leyfa þessu nær aldargamla meistarastykki að koma upp í hugann þegar við teljum ástæðu að óttast að formið sé að verða innihaldinu yfirsterkara; þegar þau teikn eru á lofti að dómgreind víki fyrir kerfishugsun. Þessi hætta er ekki bundin við einn tíma öðrum fremur, eitt kerfi en ekki önnur, þvert á móti þá er hættan ætíð fyrir hendi, í öllum kerfum, öllum stundum. Í skjóli kaldhamraðarar formhyggju  - kerfiskreddu og isma - hefur mannseskjan gert mörg mistök-  og meira en það, framið sín verstu voðaverk.

Formhyggjan getur tekið á sig ýmsar myndir.
Á blaðsíðu 88 í prýðilegri skýrslu nefndar Hjördísar Hákonardóttur um lögmæti kaupa Magma á HS Orku - máls sem við öllum þekkjum - er athyglisverð tafla. Þar er spurt annars vegar um þröngar lögformelgar skýringar og er niðurstaðan sú að Magma-kaupin kunni að hafa staðist slíka skoðun „þótt það sé ekki á færi annarra", svo ég vitni orðrétt, „ en dómstóla að kveða endanlega upp úr um hvernig beri að líta á staðreyndir í máli sem þessu og hvaða túlkun laganna sé rétt".
Þegar  hins vegar horft sé til þeirra markmiða sem lágu að baki löggjöfinni um erlendar fjárfestingar, segir ennfremur, og þegar ekki er horft einvörðungu á formleg eigna- og hagsmunatengsl heldur til „raunverulegra hagsmuna og tengsla" þá megi ætla að salan sé ólögleg.
Magma fór sem sagt á svig við vilja löggjafans en gæti komist upp með undanbrögð í þröngri túlkun á lagabókstafnum og með hliðsjón af formlega skráðum eignatengslum. Með öðrum orðum, formlega séð kunni salan að standast þótt veruleikinn hrópi á allt annað!
Sjálfum finnst mér einhlítt að horfa beri til vilja löggjafans, til anda laganna -  ekki síst þegar samfélagslegir hagsmunir eru í húfi; þegar samfélagið er í vörn gagnvart ásælni fjármagnsins og hefur smíðað lög, beinlínis sjálfu sér til varnar.
Öllum var ljóst að Magma var að reyna að fara á bak við lögin með því að koma sér fyrir í skrifborðsskúffu innan EES svæðisins. Þetta var óheiðarleiki, sem samfélagið almennt gerði sér grein fyrir.  Aldrei var látið á þetta reyna fyrir dómstól en ég velti því fyrir mér hver hin endanlega niðurstaða hefði þá orðið. Ég neita því ekki að ég hefði óttast niðurstöðuna enda í seinni tíð oft verið tilefni til að spyrja hvort geti verið, að réttarkefið á Íslandi sé að færast nær vangaveltum um form og einkum og sérílagi formgalla og þá jafnframt fjær annars vegar augljósum ásetningi þess sem meint brot fremur og hins vegar augljósum markmiðum þess sem lögin og reglurnar settu.  

Öll kerfi verða að vera gagnrýnin á sig sjálf. Þau þurfa í sífellu að spyrja, til hvers? Hvers vegna og til hvers? Ef formið verður alls ráðandi, getur það torveldað að við tökum á ranglæti líðandi stundar. Því fer fjarri að ég sé að lýsa vanda íalenskra dómstóla sérstaklega, en ég er þó að lýsa tilhneigingu sem stundum verður vart í réttarkerfinu.

En er ekki stjórnmálamaður, að ekki sé minnst á þann sem gerst hefur handhafi frmakvæmdavalds, kominn inn á hála braut þegar hann nálgast á spyrjandi en þó einnig gagnrýninn hátt viðhorf og vinnubrögð í réttarekrfinu? Er hann ef til vill hættur að virða sem skyldi landamæri sem stjórnskipan okkar byggir á, lændanmærin á milli dómsvalds, löggjafarvalds og  framkvæmdavalds?

Svarið við þessu er nei. Réttarkerfið og samfélagið þurfa einmitt að talast við. Og fyrir mitt leyti hef ég reynt að taka upp slíka samræðu og -örva hana sem mest ég má. 

Við þurfum hvert og eitt okkar að vera gagnrýnin - á okkur sjálf og kerfin sem við vinnum innan eða förum fyrir. Það á vissulega við um okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna. En íhugun einstaklingsins á stöðu mála dugar ekki ein og sér. Nauðsynleg gagnrýni þrífst ekki án samfélgaslegrar umræðu. Með öðrum orðum þá er stöðug umræða forsenda þess að við föllum ekki í gryfju hins ósnertanlega ranglætis. Formið má aldrei koma í veg fyrir slíka umræðu.

Ég nefni þetta hér því að í starfi mínu sem ráðherra dómsmála hef ég stundum orðið var við þá hugsun að umræðan sem slík sé ekki við hæfi, geti jafnvel verið slæm í sjálfu sér. Er þá sérstaklega vísað til þess að samfélagið og stjórnmálin geti ekki átt í samtali við réttarkerfið eða þá sem fara með úrskurðar- eða dómsvald. Slíkt geti leitt til óeðlilegra pólitískra afskipta.

Þarna þarf að mínu mati að gera greinarmun á tvennu. Í annan stað því, að stjórnmálamenn eða aðrir  einstaklingar sem hafa sterka stöðu, s.s. úr viðskiptalífinu, reyni að hafa áhrif á einstök málaferli, t.d. í tilfellum þar sem þeir eða einstaklingar þeim tengdir eiga hagsmuna að gæta. Slíkt getur seint flokkast sem málefnaleg umræða.

Í hinn staðinn á umræða um samspil réttarkerfis og samfélags fullan rétt á sér. Þessi greinarmunur er mikilvægur, því annars getur eðlileg mótstaða réttarkerfisins við afskiptum af einstaka málum orðið til þess að lokað er á nauðsynlega, samfélagslega umræðu, sem er næring fyrir öll kerfi.

Einmitt vegna þessa tel ég fund eins og þennan mikilvægan, þar sem dómarar alls staðar að landinu koma saman - horfa aftur í tímann en líka til framtíðar. Dagskráin ber vott um ríkan vilja til að gera samtalið uppbyggilegt og gagnlegt. Kallaðir eru til fræðimenn og fagmenn sem horfa á starfsemi dómstólanna frá öðru sjónarhorni en jafnframt er ætlaður tími til mikilvægrar umræðu um málefni dómara og dómstóla. Fróðlegt verður að hlýða á þau erindi sem hér koma á eftir og að heyra um niðurstöður hópastarfsins.

Dómstólar standa frammi fyrir mörgum áskorunum. Álag jókst til muna á dómstóla - eins og víða annars staðar - eftir hrunið en brugðist var við með því að fjölga dómurum í héraði tímabundið og heimildir aðstoðarmanna dómara til að sinna ákveðnum dómsathöfnum voru auknar og styrktar. Á sama tíma fylgist almenningur sennilega betur með störfum dómstóla en áður. Kastljósið beinist æ oftar inn í réttarsal og þá reynir á að dómstólar geri allt sem í þeirra valdi stendur til að viðhalda og efla það góða traust sem almennt ríkir í þeirra garð og er samfélaginu mikilvægara en flest annað.

Mig langar jafnframt að víkja hér stuttlega að umræðu um millidómstig, en hún er ekki ný af nálinni. Sjálfur hef ég sannfærst um gildi þess, a.m.k. í sakamálum, eftir að hafa hlýtt á mál helstu sérfræðinga, þar með talið í nefnd sem ég setti á laggirnar skömmu eftir að ég tók við embætti. Haustið 2010 var haldinn fundur helstu fagfélaga lögfræðinga og var millidómstig helsta umræðuefnið. Þennan fund sat ég. Í framhaldinu barst mér áskorun frá félögunum um að sett yrði á fót millidómstig sem næði bæði til einkamála og sakamála. Þetta var tilefni þess að ég setti fyrrgreindan vinnuhóp á laggirnar til að gaumgæfa kosti og galla millidómstigsins. Áður hafði verið gerð skýrsla um milliliðalausa sönnunarfærslu  í sakamálum þar sem lagt var til að komið yrði á fót millidómstigi í sakamálum.

Í vinnu sem nú fer fram innan Innanráðuneytisins við mótun innanríkisstefnu verða teknar til skoðunar þær hugmyndir sem settar hafa verið fram um millidómstig. Jafnframt þarf að fá glögga sýn á það hvaða áhrif slíkt dómstig hefði á dómstólaskipanina og þá hvernig stjórnsýslu dómstólanna væri best fyrir komið.  Til að ræða þessi atriði hef ég boðið til fundar í lok þessa mánaðar. Hefur til fundarins verið boðið fulltrúum þeirra sem þekkingu og reynslu hafa af málefninu. Vonast ég til að á grundvelli þeirra hugmynda og skoðana sem þar koma fram verði unnt að setja fram stefnu í málefnum refsivörslukerfisins og þ. á m. um hvernig dómstólaskipaninni væri best háttað. Á þeim grunni gætum við unnið að breytingum á því kerfi sem við búum við í dag sem uppfylli þær kröfur og væntingar sem við gerum til réttarvörslukerfisins í víðu samhengi. Ég legg þó á það áherslu að góðir hlutir gerast hægt og í samráði við alla hlutaðeigandi.

Að lokum vil ég óska ykkur og okkur öllum til hamingju með daginn og góðs gengis í því hópastarfi sem fram fer hér síðar í dag.