Fara í efni

UM FJÖLMIÐLA OG SPUNAKERLINGAR

Tvö lesendabréf bárust síðunni eftir sjónvarpsfréttir í gærkvöldi. Í báðum tilvikum voru bréfritarar furðu lostnir yfir framgöngu ríkisstjórnarinnar og ekki síður fjölmiðla.  Ríkissjónvarpið verður fyrir harðri gagnrýni. Jóhann segir að réttara væri að tala um "ríkisstjórnarsjónvarpið". Það "elti Halldór Ásgrímsson þessa dagana fram og aftur um landið og kemur svo með hallærislegar langlokufréttir á kvöldin þar sem Halldór ... er .. að fjalla um einhver deilumál líðandi stundar eins og einkavæðingu Símans með grunnnetinu. Þá fær hann einn að rausa ...og (eru) spilaðir langir eintalsþættir..."  Í bréfi Ólínu er gagnrýni af sama toga í garð fjölmiðlanna sem láti ráðamenn komast upp með "ruglandi" og "þvælu" sem sé með slíkum ólíkindum að menn setji hljóða. Til alþingismanna er beint þeirri spurningu hvort þeir eigi ekki kost á að sækja námskeið í siðfræði og rökfræði! Það er broddur í orðum Ólínu en þó mikil alvara þegar hún spyr:"Af hverju þurfa stjórnmálamenn að safna spunakerlingum í kringum sig ef þeir temja sér að segja almenningi satt og rétt frá? En spurningin er endurtekin: Eiga stjórnmálamenn á Alþingi kost á endurmenntun? Smámál að lokum sem við veltum líka fyrir okkur. Getur verið að Páll Magnússon, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra sem er vinkona forstjóra OG Vódafóns sem á 365 ljósvakamiðla og Gunnlaugur Sævar sem eitthvað tengdist Skjá 1 séu að semja nýtt lagafrumvarp um RÚV?"
Við þessari spurningu kann ég ekki svör. En væri það ekki verðugt verkefni fyrir fjölmiðla að grafast fyrir um það hverjir eru að semja nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið? Getur verið að aðiljum sem reka hagsmuni sem ganga þvert á hagsmuni RÚV hafi verið falið það verkefni? Ég hvet alla til að lesa bréf þeirra Jóhanns og Ólínu, sérstaklega fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn. Okkur er ætlað að taka skilaboðin til okkar – það er að segja sumum okkar.

Sjá ívitnuð bréf HÉR og HÉR