Fara í efni

UM ANDANN OG EFNIÐ

Birtist í fréttabréfi Öryrkjabandalags Íslands 1993
Enn erum við Íslendingar í vanda staddir. Auðvitað eru vandamál hluti af lífinu sjálfu, og sá einn getur sæst við lífið, sem getur litið á vanda sem verkefni til að leysa, og verið glaður í bragði, þótt að honum steðji erfiðleikar.
Vandinn sem steðjar að þjóðinni er sá, að menn eru ekki vissir um hvað það er að vera Íslendingur. Menn virðast ekki vera öryggir um það hvort Íslendingar séu þjóð eða úthverfi í stórborg. Eða verstöð. Sumir telja reyndar að hér búi einungis hópur evrópskra neytenda.
Fyrir nokkur hundruð árum síðan – eins og frægt er – var rætt um að flytja Íslendinga í heild sinni, suður á Jótlandsheiðar. Rétt eins og kindahjörð er flutt af einum afrétti á annan. Að mati þeirra sem þannig töluðu, voru Íslendingar hjörð, hópur allslausra vesalinga. og nú tvö hundruð og fimmtíu árum síðar, erum við hópur vel stæðra allsleysingja, sem rámar illa í sjálfstæðisbaráttuna.
Vandinn er ekki fólginn í efninu, heldur í andanum. Við höfum nóg efni, en brestur vit til að skipta þeim réttlátlega. það er tvennt sem dregur úr okkur þrekið: misskiptingin, hún drepur sköpunargleðina og hitt er meðvitundarleysið um mikilvægi þess að vera Íslendingur, því skortur á trú á landið og þjóðina, drepur sjálfstraustið.
Er það eitthvað ofan á brauð? kann einhver að spyrja. Menning hefur gildi fyrir þjóð á sama hátt og menntun fyrir hvern einstakling. Að eiga sjálfstæða og sérstaka tungu hefur sams konar gildi fyrir þjóð, og fyrir sérhvern mann að heita nafni. Sagan er þjóðinni, það sem fjölskylda og uppruni er einstaklingnum. Og eins og fjölskyldan er skjól hvers einstaklings, þá er þjóðin skjól hverrar fjölskyldu.
Þannig er andinn í efninu og efnið í andanum. Íslenska þjóðin hefur stundum staðið hnípin úti undir vegg og vöðlað kaskeitið, óörugg og ósjálfstæð. Hún hefur líka staðið keik og hvergi bangin, full af sjálfstæðiþrá og löngun til að hnykla vöðvana, í trú á mátt sinn og megin.
Sjálfstæðisbarátta okkar geymir fordæmi um hve miklu innri kaftur fær áorkað. Sjálfstæði þjóðarinnar vannst ekki með vopnum. Ekki einu mannslífi var fórnað. Sjálfstæðisins öfluðum við í krafti sannfæringar. Sigurinn vannst fyrir innri vissu um rétt okkar. þessi snnfæring er mesta eign þjóðarinnar og sá eldur sem hún kveikir má ekki kulna í makindum góðra daga. Á sannfæringunni um rétt okkar, byggist okkar réttur.
Þannig eru allar auðlindirnar í okkur sjálfum. Í þeim krafti sem við höfum til að virkja þær og nýta. Aðsteðjandi vandi er oftar en ekki innri vandi. Við þurfum að rækta í okkur viljann til að vera sjálfstæð þjóð.

Í Hávamálum segir:

Bú er betra
þótt lítið sé,
Halur er heima hver.
Blóðugt er hjarta,
þeim er biðja skal
sér í mál hvert matar.

Það er okkur mikilvægara en nokkuð annað, að hafa jákvætt viðhorf til okkar sjálfra. Það er ekki mannfjöldinn sem skiptir máli, heldur samstaðan og samkenndin. Úthverfi í Lundúnum hefur enga samkennd sem heitið getur. Þó getur það úthverfi verið fjölmennara en öll íslenska þjóðin.
Það er eitthvað ofan á brauð að tala um íslenska menningu. Að tala um hið stórkostlega framlag okkar til heimsmenningarinnar, fornsögurnar. Og skáldsögur Halldórs Laxness og Gunnars Gunnarssonar. Það er beinlínis eitthvað ofan á brauð að hafa yfir herhvöt Jónasar Hallgrímssonar um að landið sé fagurt og frítt. Því efnið er í andanum og andinn í efninu. Eða hvaðan kemur kraftur til að ganga til verka á hverjum morgni? Af brauði einu saman?