Fara í efni

Um ábyrgð og ábyrgðarleysi á markaði

Þessi spurning gerist mjög áleitin eftir því sem fram líða tímar. Sífellt algengara virðist , ekki síst á meðal yngri "athafnamanna" að þeir telji sig ekki bera neina ábyrgð gagnvart öðru en eigin pyngju eða pyngju sameigenda sinna í fyrirtæki. Á þetta eitt beri að einblína. Bjórframleiðendur skirrast ekki við að brjóta niður viðleitni samfélagsins til að hefta áfengisneyslu með banni við auglýsingum, tryggingafélög rífa göt á samtryggingakerfið ef þau telja sig þar eygja hagnaðarvon og nú síðast reyna bankarnir að grafa undan húsnæðiskerfi landsmanna, sem þrátt fyrir að það hafi verið stórlaskað á undanförnum árum byggir þó á félagslegri hugsun og er hægt að beita sem öflugu tæki samfélaginu til hagsbóta.

Það er augljóst hvað vakir fyrir Samtökum fjármálastofnana með kæru sinni til ESA þar sem á að fá íslenska húsnæðiskerfið dæmt ólögmætt þar sem það hamli gegn samkeppni.Tilgangurinn er augljóslega að ná til sín þessari lánastarfsemi með því að leggja fram formlega kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna starfsskilyrða Íbúðalánasjóðs. Segja talsmenn bankanna „eðlilegri samkeppni á lánamarkaði“ raskað. Hvers vegna? Jú væntanlega vegna þess að lánafyrirgreiðslan sé niðurgreidd sem kallað er. Sjóðurinn sé í eðli sínu að verulegu leyti almenn lánastofnun til íbúðakaupa í samkeppni við fjármálafyrirtæki. Þarna er þó að finna ákveðna mótsögn því samtökin telja að Íbúðalánasjóður uppfylli ekki skilyrði um félagsleg markmið, sem ákvæði EES samningsins setja fyrir stuðningi hins opinbera við starfsemi af þessu tagi.

Við þessu er bara eitt svar og það er að sjá til þess að Íbúðalánasjóður uppfylli nauðsynleg félagsleg skilyrði til þess að starfa áfram. Auðvitað á ekki að láta forsvarsmenn bankakerfisins komast upp með að eyðileggja viðleitni samfélagsins til að smíða lánakerfi sem auðveldar landsmönnum að eignast húsnæði á eins auðveldan og ódýran hátt og kostur er. En hvar í ósköpunum er ábyrgð bankanna? Nægir nýjum eigendum þeirra ekki tugmilljarða gróðinn, sem streymir í vasa þeirra? Og hvað segir hinn margrómaði markaður almennt um háttarlag af þessu tagi? Telja menn sig þar á bæ ekki bera neina samfélagslega ábyrgð?