Fara í efni

Um ábyrgð Landsvirkjunar eða ábyrgðarleysi

Birtist í DV 22.10.2003
Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar skrifar grein í DV 17. október sl. sem ber heitið Ögmundur Jónasson og Kárahnjúkar. Greinin eru viðbrögð við blaðagrein sem ég skrifaði í DV fyrir skömmu þar sem ég sakaði Landsvirkjun um að hafa þjónað ríkisstjórninni í blindni og staðið á vafasaman hátt að útboðum við framkvæmdir við Kárahnjúka. Þorsteinn segir að talsmenn Landsvirkjunar hafi jafnan forðast að taka þátt í deilum um Kárahnjúka, aðeins "leitast við að veita greinargóðar upplýsingar" til þeirra sem um málið fjalla. Hann segir hins vegar að í skrifum mínum hafi verið vegið að "heiðarleika og einurð" starfsmanna og væru staðhæfingar mínar réttar hefði "stór hluti þeirra 250 starfsmanna sem vinna hjá Landsvirkjun og fjöldi manns á verkfræðistofum og ráðgjafafyrirtækjum úti í bæ...látið hafa sig í að hagræða niðurstöðum, bregðast trúnaði og fremja grafalvarleg brot. Meinar Ögmundur að allt þetta fólk hafi verið þvingað til að þegja... eða á það að hafa verið með á nótunum og gert þetta af fúsum og frjálsum vilja? – ég held að fáir trúi því?"
Það er rétt hjá Þorsteini Hilmarssyni að fáir myndu trúa þessu, enda hefur enginn haldið slíku fram. Ásakanir mínar beinast að stjórnendum Landsvirkjunar og að sjálfsögðu ríkisstjórninni og skal ég glaður gera nánar grein fyrir mínu máli. Þess má geta að Þorsteinn Hilmarsson segir réttilega að ég hafi hvatt sig til að skýra sitt mál opinberlega. Ég er á því að Landsvirkjun hefði mátt gera meira af því að segja hátt og snjallt út í þjóðfélagið sem sagt var á heldur lægri nótum um títtnefnda Kárahnjúkavirkjun. Til dæmis að Landsvirkjun hefði aldrei ráðist í þessa framkvæmd ef fyrirtækið væri hlutafélag í leit að arðsömum verkefnum! Það er hins vegar ekki rétt hjá Þorsteini að talsmenn Landsvirkjunar hafi alltaf verið þögulir. Þegar þurfti að verja ákvarðanir ríkisstjórnarinnar stóð sjaldan á því að þeir létu frá sér heyra.

Leiðitöm Landsvirkjun

Sjálfur tók ég þátt í umræðunni um Kárahnjúka allar götur frá því hún hófst og tel mig hafa fylgst nokkuð vel með allri framvindunni. Með reglulegu millibili fékkst það staðfest að ríkisstjórnin og þá sérstaklega ráðherrar Framsóknarflokksins litu á málið sem pólitískt metnaðarmál sem yrði framkvæmt hvað sem tautaði og raulaði. Um þetta get ég tekið nánast endalaus dæmi. Og því miður er það líka staðreynd að Landsvirkjun reyndist mjög leiðitöm í þessum dansi.

Ítrekað voru viðhafðar blekkingar. Þannig var því margoft lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir fyrr en orkusamningar lægju fyrir. Þetta var staðhæft á Alþingi og einnig að ekki yrði framkvæmt fyrr en lögformlegt umhverfismat hefði farið fram. Bæði á Alþingi og í blaðagreinum, m.a. í þremur greinum í Morgunblaðinu vorið 2001 gekk ég eftir þessum loforðum gagnvart iðnaðarráðherra en án þess að vera virtur svars. Þetta var sama sumarið og reynt var að þvinga lífeyrissjóðina til þátttöku í framkvæmdinni. Þá  lét fjármálastjóri Landsvirkjunar svo lítið að blanda sér í umræðu við mig um arðsemi framkvæmdarinnar með þeim orðum í grein sem hann birti í Morgunblaðinu að áhyggjur mínar af afkomu Landsvirkjunar mættu “ekki hafa forgang umfram þá ábyrgð og áhyggjur",  sem mér bæri að hafa af "ávöxtun þeirra sjóða" sem mér væri “treyst fyrir”. Hér var vísað til stjórnarsetu minnar í lífeyrissjóði. Og þegar ég kvartaði yfir því að framkvæmdir væru hafnar án lögformlegs umhverfismats spurði þessi sami talsmaður Landsvirkjunar með nokkrum þjósti: "Hvernig taka menn viðskiptaákvarðanir? Hver eru rökin fyrir því að bíða þurfi eftir öllum leyfum áður en mál eru skoðuð og metin?" Er það þetta sem Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi á við þegar hann segir talsmenn Landsvirkjunar hafa reynt að halda sig til hlés í hinni pólitísku orrahríð, aðeins "leitast við að veita greinargóðar upplýsingar"?

Svikin loforð og vafasöm vinnubrögð

 

Staðreyndin er sú að Landsvirkjun hefur í einu og öllu og að því er virðist mótþróalaust þjónað ríkisstjórninni í þessu stórmáli. Allur þessi ferill er varðaður sviknum loforðum og að mínu mati mjög vafasömum vinnubrögðum.

Er þá komið að þeim ásökunum sem Þorsteinn Hilmarsson gerir að umtalsefni. Ég gagnrýndi þau vinnubrögð sem voru viðhöfð við útboð á stíflu og göngum í desember árið 2002. Á þessum tíma var vitað hver grundvöllur orkuverðsins yrði þótt ekki fengist það upplýst opinberlega. Þetta var annar þátturinn sem þurfti að vera í lagi til að framkvæmdin gæti staðist samkvæmt  yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um arðsemi hennar. Hitt var framkvæmdakostnaðurinn við virkjunina. Við útboðið gerðist sá fáheyrði atburður að fyrir opnun útboða gaf verkkaupinn, þ.e.a.s. Landsvirkjun, það út hvaða tilboðsverða væri óskað. "Fjórir berjast um 40 milljarða verk" sagði í DV 5. desember en í  grein í Morgunblaðinu 3.desember, fjórum dögum áður en útboð voru opnuð, sögðu stjórnendur fjármáladeildar Landsvirkjunar, Stefán Pétursson og Kristján Gunnarsson eftirfarandi:" Landsvirkjun stendur við fyrri yfirlýsingar um að ekkert bendi til annars en að Kárahnjúkavirkjun sé mjög arðbært verkefni. Enn betri vísbendingar munu fást þar um á næstu dögum þegar tilboð verða opnuð í stóra verkhluta." Þetta reyndist rétt. Er að undra að menn láti sér detta í hug samráð? Varla eru mennirnir skyggnir. Og viti menn, Impregilo sem hafði beðið um frest í málinu og fengið – taldi sig geta mætt óskum verkkaupandans. Kostnaðaráætlun Landsvirkjunar var 40,1 milljarður. Impregilo bauð 34,3 en hin fyrirtækin tvö sem buðu voru annars vegar með 56,6 milljarða tilboð og hins vegar 58,9 milljarða tilboð. Síðar var tilboð Impregilo uppfært í 38 milljarða króna. Vert er að nefna í þessu samhengi að þegar Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, færði Impregilo sérstakar þakkir nú í haust, sagði hann að við mættum ekki gleyma því að vegna tilboðsins frá fyrirtækinu hefði verið hægt  að ráðast í verkið!

Landsvirkjun skuldar landsmönnum skýringu

Impregilo er þekkt að því að hafa á að skipa kunnáttumönnum við að færa umsamið samningsverð upp á við vegna "ófyrirséðra atvika". Þannig fer því fjarri að ljóst sé hvert endanlegt kostnaðarverð verður. Einnig er þekkt ósvífin framkoma Impregilo gagnvart verkafólki. En að eins langt yrði gengið í því efni og raun ber vitni höfðu held ég fáir hugarflug til að ímynda sér. Auðvitað er samhengi á milli útboðsverðs og mannréttindabrotanna við Kárahnjúka. Í DV-grein minni lýsti ég eftir ábyrgð og undan henni getur hvorki ríkisstjórn né Landsvirkjun vikið sér. Tilboð Impregilo var 40% lægra en næsta tilboðsgjafa. Landsvirkjun skuldar ekki aðeins verkafólki við Kárahnjúka heldur landsmönnum öllum skýringu á því í hverju þessi munur felst.

Auðvitað má gagnrýna okkur sem eigum að veita framkvæmdavaldinu aðhald fyrir að hafa ekki krafist opinberrar rannsóknar á öllu þessu ferli. Við höfum það hins vegar okkur til málsbóta að á Íslandi skortir hefð til að skjóta málum sem þessum til óvilhallrar rannsóknarnefndar. Þegar hins vegar upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar reynir nú, án nokkurs rökstuðnings, að snúa gagnrýni upp á þann sem gagnrýnir og fært hefur rök fyrir sínu máli, þá þykir mér sem höfuðið sé bitið af skömminni. Í ofanálag er látið að því liggja að vegið sé að 250 starfsmönnum Landsvirkjunar! Slík ummæli dæma sig sjálf.