Fara í efni

TRYGGJUM KOSNINGU ÞORLEIFS GUNNLAUGSSONAR!

Gangi skoðanakannanir eftir munu Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór Sigurðsson ná kjöri í borgarstjórn, þótt enginn skuli gefa sér neitt í þeim efnum fyrr en talið hefur verið upp úr kjörkössunum. Líkurnar eru hins vegar þessar. Þá stendur baráttan um þriðja manninn hjá VG. Það er Þorleifur Gunnlaugsson. Samkvæmt Gallup könnun í gær er mjótt á mununum hvort Framsókn nær inn manni, Sjálfstæðisflokkur fær hreinan meirihluta eða Frjálslyndir, Samfylking eða Vinstrihreyfingin grænt framboð fjölga í sínu liði.

Mín tilfinning er að slagurinn standi á milli fulltrúa Framsóknar og þriðja manns VG, Þorleifs Gunnlaugssonar.

24 apríl sagði ég eftirfarandi í pistli hér á síðunni um manninn í baráttusætinu í Reykjavík: Þorleifur er geysilega öflugur maður, það þekki ég vel. Hann er beintengdur inn í atvinnulífið, hefur tekið þátt í mannréttindabaráttu og verið potturinn og pannan í skipulagningu hvers kyns funda og herferða svo lengi sem ég man eftir. Hann er hins vegar einn af þeim mönnum sem hugsar meira um málefnið en eigin framgang og er þörf á slíku óeigingjörnu fólki í stjórnmálin. Á meðal þeirra málefna sem Þorleifur Gunnlaugsson hefur beitt sér fyrir má nefna málefni aldraðra og öryrkja og hefur hann verið mjög ötull að vekja athygli á aðgengismálum fatlaðra. Þá hefur hann látið mjög að sér kveða í baráttu gegn áfengisvánni.

Hvort skyldu menn vilja virkja starfskrafta Þorleifs Gunnlaugssonar í borgarstjórn Reykjavíkur eða greiða götu fulltrúa Framsóknarflokksins sem lofar gulli og grænum skógum, peningagjöfum til kjósenda í skiptum fyrir atkvæði? Þar er ég ekki síst að vísa til þess að flokkurinn hefur látið þau boð út ganga að hver Reykvíkingur komi til með að fá 250 þúsund króna ávísun eftir að Framsókn hafi látið selja hlut borgarinnar í Landsvirkjun! Svo galið er þetta og svo óábyrgt að engu tali tekur. Ýmis önnur kosningaloforð flokksins eiga án efa eftir að fara á spjöld sögunnar fyrir það hve óábyrg og óskammfeilin þau eru.

Vilji kjósendur efla þau sjónarmið sem VG stendur fyrir þá skal hafa í huga að því fleiri fulltrúa sem flokkurinn fær, þeim mun líklegra er að áhrifa hans gæti á afgerandi hátt við stjórn borgarinnar. Ég mæli af heilum hug með því að Þorleifi Gunnlaugssyni verði veitt brautargengi í kosningunum og heiti á allt félagshyggjufólk að tryggja kosningu hans. Hans rödd skiptir miklu máli þegar kemur að húsnæðismálum tekjulítils fólks, félagslegum málefnum almennt, einkum þeim sem snerta aldraða og öryrkja. Hans rödd skiptir máli þegar vímuefnamál eru annars vegar, málefni fatlaðra, ekki síst aðgengismál og allt það sem lýtur að samfélagslegu réttlæti. Félagshyggjufólk sem styrkir Þorleif Gunnlaugsson til áhrifa verður ekki svikið! Það leyfi ég mér að fullyrða.