Fara í efni

TRÚVERÐUGLEIKI FORSÆTISRÁÐHERRA Í HÚFI: HVAÐ SAGÐI HALLDÓR ÁSGRÍMSSON Á FUNDI UTANRÍKISMÁLANEFNDAR 19. FEBRÚAR 2003?

Formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að leynd verði ekki aflétt af fundargerðum utanríkismálanefndar Alþingis. Vissulega má spyrja hvort nokkurn tíma hafi verið forsenda til þess að allir fundir utanríkismálanefndar færu fram í leynd, en hafi einhvern tíma verið réttlætanlegt að hafa þann hátt á þá er sá tími löngu liðinn. Auðvitað getur það gerst í utanríkismálanefnd eins og í öðrum nefndum Alþingis að nauðsynlegt sé að kalla eftir trúnaði og geta nefndarmenn þá valið um það hvort þeir vilji taka á móti slíkum upplýsingum í trúnaði. Það er hins vegar fráleitt að gera það að almennri reglu að ekki megi gera uppskátt hvað fram fer á fundum og að fara beri með allar fundargerðir sem leyniskjöl. Slíkt á að vera undantekning en ekki regla. Hætt er við því að stjórnmálamenn misnoti þagnarskyldu eins og dæmin nú sanna: Rökstuddur grunur leikur á að ráðherra í ríkisstjórn notfæri sér leynikvöðina til að koma í veg fyrir að hann verði uppvís að ósannindum. Þegar svo er komið hlýtur öllum að verða ljóst að leynikvöðin er andlýðræðisleg og kemur í veg fyrir opna og heiðarlega umræðu.

Enn eitt skyldu menn hugleiða í þessu sambandi: Með skömmtuðum leka úr fundargögnum væri hægt að gefa bjagaða mynd af því sem raunverulega fór fram. Gæti einmitt það verið að gerast nú varðandi fund í utanríkismálanefnd frá 19. febrúar 2003? Frásagnir hafa verið birtar af þessum fundi í Fréttablaðinu. Menn skulu ekki gefa sér að hugsanlegur leki úr gögnum utanríkismálanefndar í fjölmiðla sé frá stjórnarandstöðuþingmönnum kominn!

Ástæðan fyrir því að þessi fundur skiptir máli er sú að þetta er síðasti fundur sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, sat áður en ráðist var inn í Írak. Deilan sem nú er uppi snýst um það hvað hann sagði á þessum fundi: Skýrði hann nefndinni frá því að ákveðið hefði verið að styðja afdráttarlaust innrás í Írak þrátt fyrir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna veitti ekki samþykki sitt? Hafi hann gert það má til sanns vegar færa að hann hafi upplýst utanríkismálanefndnefnd í samræmi við lögbundna skyldu sína. Hafi hann ekki gert það hefur hann ekki farið að lögum.

Síðan er önnur saga á hvern hátt málin voru rædd í ríkisstjórn. Sjálfur hefur Halldór sagt að stefna þeirra Davíðs Oddsonar hafi verið rædd í þingflokkki Framasóknarflokksins, í ríkisstjórn auk þess sem utanríkismálanefnd Alþingis hafi verið upplýst um þá stefnu sem á endanum var tekin í málinu. Flestum kom á óvart þegar innrás var studd án nokkurra skilyrða. Engan þurfti að undra segir HÁ á hinn bóginn í samræmi við allt þetta: Allir voru upplýstir. Margir bera brigður á að þetta sé sannleikanum samkvæmt.

Í umræðu um þetta mál hefur einnig verið vísað í fund utanríkismálanefndar 12. mars 2003. Á þeim fundi var fellt að taka til afgreiðslu tillögu VG (sbr. Hér )þar sem kveðið var á um beina andstöðu við innrás í Írak, þar með talið að veita heimild til yfirflugs og að nýta aðstöðu hér á landi. Þótt meirihlutinn hafi hafnað tillögu VG jafngildir það að sjálfsögðu ekki beinum og afdráttarlausum stuðningi við innrásina eins og þeir Halldór og Davíð gerðu með því að fallast á að Íslendingar yrðu settir á lista hinna viljugu ríkja.

Hvað er rétt í þessu máli?

Í umræðum á Alþingi síðastliðið haust fór Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og fulltrúi í utanríkismálanefnd, fram á að leynd yrði aflétt af fundargerðum utanríkismálanefndar og í síðustu viku tók þingflokkur Samfylkingarinnar undir þá kröfu. Hana ber stjórnarmeirihlutanum að virða. Á þessari stundu bendir hins vegar flest til þess að svo verði ekki gert. Hvers vegna treystir Halldór Ásgrímsson sér ekki til að láta upplýsa um sín eigin orð og yfirlýsingar? Hvað óttast hann? Halldóri Ásgrímssyni er í lófa lagið að greina frá því með framvísun fundargerðar um hvað fram fór á fundi utanríkismálanefndar 19. febrúar, því hverjum og einum er í sjálfsvald sett að upplýsa um eigin yfirlýsingar. Trúnaðurinn gildir aðeins gagnvart orðum annarra. Trúverðugleiki forsætisráðherra er nú í húfi.