Fara í efni

Trúnaður aldrei til trafala?

Utanríkisráðherra landsins blæs á kröfur um að umræður um framtíð bandaríska herliðsins hér á landi fari fram fyrir opnum tjöldum. Það gerði Halldór Ásgrímsson m.a. í Fréttablaðinu í gær. Honum og Davíð Oddssyni forsætisráðherra hefur verið legið á hálsi fyrir að leyna þjóðina mikilvægum upplýsingum um áform Bandaríkjamanna. Sú kenning hefur einnig verið sett fram að þessum mönnum sé ekkert sérstaklega gefið um opnar umræður af öðrum ástæðum: Pukur gagnist nefnilega þeim sem hafi óljós markmið en vilji láta annað í veðri vaka.
Halldór Ásgrímsson hefur komist upp með að ganga til viðræðna við Bandaríkjamenn án þess að ganga áður  til viðræðna við Íslendinga sjálfa um hvað þeir vilji setja sér sem markmið í viðræðum um varnarmál þjóðarinnar. Um það á að sjálfsögðu að fara fram lýðræðisleg og opin umræða. Framhjá henni kemst Halldór utanríkisráðherra hins vegar vegna leyndarinnar. Hún er honum greinliega kærkomið haldreipi. Það kom m.a. fram í Fréttablaðinu í gær. Þar staðhæfir hann: “Trúnaður er aldrei til trafala.” 
Vissulega á trúnaður stundum rétt á sér. Í þessu tilviki er ekki svo. Leyndin stendur lýðræðinu beinlínis fyrir þrifum. Í þessu tilviki á hugtakið trúnaður  ekki einu sinni við. Nær væri að tala um leynimakk.