Fara í efni

TRUFLANDI GAGNRÝNI TRUFLUÐ

  

Fyrir nokkrum dögum birtust frá Declassified UK og á Intercept leynilegar skýrslur frá árinu 2019 úr breska utanríkisráðuneytinu um hvernig bæri að taka á gagnrýni sem fram kom á þeim tíma á samstarf breskra stjórnvalda við bandarísk stjórnvöld um framsal á Julian Assange, stofnanda Wikileaks til Bandaríkjanna. Meintar njósnir Assange og Wikileaks fólust  sem kunnugt er í því að hafa komið á framfæri við fjölmiðla upplýsingum meðal annars um stríðsglæpi Bandaríkjanna, Bretlands og bandamanna þeirra.
Í byrjun árs 2019 hafði breska stjórnin ákveðið að efna til ráðstefnu um frelsi fjölmiðla, svo myndarlegrar að hún myndi marka þáttaskil í baráttunni til varnar frelsi blaðamanna að sinna störfum sínum. Miklu var kostað til, 2,4 milljónum sterlingspunda og var fulltrúum 50 aðildarríkja Media Freedom Coalition boðið að sækja ráðstefnuna en þess má geta að Ísland er skráð sem aðildarríki þeirra samtaka: “Costing £2.4 million, the event was hailed as “a major milestone” in the U.K. government’s “campaign to protect journalists doing their job.”


"Skínandi kastljós á spillingu"

Jeremy Hunt þáverandi utanríkisráðherra Breta sagði við opnun
ráðstefnunnar: “If we act together, we can shine a spotlight on abuses and impose a diplomatic price on those who would harm journalists or lock them up for doing their jobs.”
Bíræfni? Þetta er sami maður og vann að því á þessum tíma að koma í veg fyrir að forsvarsmaður fréttaveitu sem skekið hafði heiminn með upplýsingum (sem ENGINN véfengir að eru réttar) um hryllilega stríðsglæpi og mannréttindabrot, gæti um frjálst höfðu strokið. 

Sameinuðu þjóðirnar trufla …

En á þessari ráðagerð var annmarki. Mótmæli gegn meðferðinni á Julian Assange fóru vaxandi og undir vorið 2019 birti Nils Melzer sérstakur rannsakandi Sameinuðu þjóðanna á pyntingum (UN Special Rapporteur on Torture) afdráttarlausa gagnrýni á meðferðina á Assange og sagði hana jafnast á við pyntingar af hálfu Breta.
Á þessum tíma var mér boðið að ávarpa Foreign Press Association í London þar sem ég fjallaði um aðkomu mina að málefnum Wikileaks og þá sérstaklega viðskiptum við bandarísk yfirvöld í ráðherratíð minni á sínum tíma. Kom ég fram á fleiri fundum, fjölmennum og fámennum, umræðufundum og mótmælafundum.
Heimspressan, einkum í fátækari löndum heimsins, sýndi þessum viðburðum mikla athygli en það var sem við manninn mælt að fjölmiðlar í NATÓ ríkjum héldu sig til hlés, höfðu þeir þó birt fréttir Wikileaks á sínum tíma um stríðsglæpi þessara ríkja. Nú höfðu þeir greinliega fengið hugboð um að réttast væri að segja sem minnst. 

… og Ísland truflar

Í fyrrnefndum gögnum frá breska utanríkisráðuneytinu kemur fram að gagnrýni mín hafi þótt  óþægileg og truflað tímamótaráðstefnuna um fjölmiðlafrelsi:
“In particular, “Icelandic criticism of U.K. handling of [the] Assange case” was seen to be “affecting messaging on media freedom.” This email was likely related to former Icelandic Interior Minister Ögmundur Jónasson, who had asserted in June that the Assange case put “the British justice system…on trial.”

En þá er bara að trufla þá sem trufla

Vilji maður kanna hvenær ég sagði þetta þá grípa menn hins vegar í tómt því ég mun hafa sagt þetta í viðtali við RT, Russia Today, í London. Þegar ég fletti upp á heimasíðu minni frá þessum tíma til að finna viðtalið og tilvitnuð ummæli kom náttúrlega í ljós að allt frá RT hefur verið þurrkað út að sögn til að koma í veg fyrir áróður og upplýsingaóreiðu.

Aftur óhætt að láta kastljósin skína

Nú gæti breska stjórnin áhyggjulaust efnt til nýs tímamótafundar um frjálsa fréttamennsku. Þætti mér fróðlegt að heyra hvort Íslandsdeild Media Freedom Coalition hafi tekið þessi mál fyrir. Ísland skrifar hins vegar – og það réttilega - undir gagnrýni þessara meintu frelsissamtaka á takmörkun fjölmiðlafrelsis í Rússlandi. Það kemur fram á heimasíðu samtakanna. Það er eðlilegt og ekkert nema gott um það að segja. Það sem hins vegar er óeðlilegt er að standa ekki vörð um frelsi fjölmiðla hvar sem er.
Það ætti að vera sérstakt verkefni Íslands að standa vörð um tjáningar- og fréttafrelsi, ekki síst á viðsjárverðum tímum.

https://declassifieduk.org/julian-assange-posed-pr-problem-for-uk-governments-media-campaign/

 RTviðtal.PNG

Viðtal á Russian Television (RT): https://www.youtube.com/watch?v=CmPQY7cXOIg