Fara í efni

Tölum skýrt í Evrópumálum

Birtist í Mbl
Svo er að skilja á talsmönnum tveggja stjórnmálaflokka á Íslandi að þeir telji æskilegt að Íslendingar hefji undirbúning að umsókn að Evrópusambandinu. Hér er vísað til Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. En þrátt fyrir yfirlýsingar forsvarsmanna flokkanna tveggja í þessa veru er jafnan skilið svo við málið að það sé opið í báða enda. Í áranna rás hefur Framsóknarflokknum verið legið á hálsi fyrir málflutning af þessu tagi og nú virðist Samfylkingin ætla í sama farið. Væntanlega er þetta gert til að styggja ekki kjósendur sem kunna að vera á öndverðum meiði og væntanlega til að gefa málatilbúnaðinum það yfirbragð að verið sé að vega og meta kosti og galla mála á yfirvegaðan hátt. Því fari farri að menn hafi komist að niðurstöðu, ekki sé verið að loka neinum dyrum. Gott væri ef sú væri raunin en því miður er þessu ekki þannig farið.

Eins og flestir vita sem fylgjast vel með þróun mála í Evrópusambandinu er nokkuð ljóst hvert stefnir.

Jafnt og þétt dregur úr áhrifum einstakra ríkja innan bandalagsins og er nú opinskátt farið að ræða um sambandsríki Evrópu. Augljóst er að vægi fámennra þjóða verður þar lítið. Þá er einnig ljóst að Evrópusambandið færir sig jafnt og þétt upp á skaftið varðandi samræmingu í löggjöf og vega þar þyngst lög og reglur sem kveða á um markaðsvæðingu. Tvennt leiðir af þessari þróun. Grafið er undan vægi þjóðríkjanna og með markaðsvæðingunni er þrengt að lýðræðislegum ákvörðunum heima fyrir.

Óheyrilegur kostnaður og lýðræðið skert

Nú er það vissulega þekkt sjónarmið að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið innan Evrópusambandsins þar sem þeir geti freistað þess að hafa áhrif á ákvarðanatöku en utan sambandsins þar sem reynt yrði að þróa samninginn um Evrópskt efnahagssvæði í átt til tvíhliða samninga. Í vangaveltum um þetta efni þarf að hyggja að mörgu. Líta þarf á hinn óheyrilega kostnað sem af þessu hlytist. Í nýlegri skýrslu utanríkisráðherra um Evrópusambandið kemur í ljós að tilkostnaður Íslendinga vegna aðildar yrði að öllum líkindum um 8 milljarðar á ári og færi hækkandi með fyrirsjáanlegri stækkun Evrópusambandsins. Í skýrslunni kemur fram að framlag Íslendinga á mann yrði með því hæsta sem gerist innan bandalagsins. Í öðru lagi þarf að hafa í huga það grundvallaratriði að Íslendingar gefi ekki frá sér yfirráðin yfir auðlindum hafsins sem þjóðin byggir afkomu sína á. Í þriðja lagi megum við ekki halda svo á málum að allar lýðræðislegar ákvarðanir verði færðar út fyrir landsteinana. Einmitt það hefur gerst í alltof ríkum mæli með EES-samningunum en með inngöngu í Evrópusambandið yrði gengið skrefinu lengra í þessa átt.

Allt eru þetta þekktar staðreyndir. Það er stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka að bjóða kjósendum upp á mismunandi leiðir á þessu sviði sem öðrum. Við þurfum að bjóða upp á svör við því hvernig sjálfstæði og efnahagur þjóðarinnar verði best treystur í samfélagi þjóða heims og þarf þá ekki aðeins að horfa til Evrópu heldur til heimsins alls. Íslendingar eiga stöðugt vaxandi viðskipti í öllum heimshlutum og mikilvægt er fyrir okkur að vera víðsýn og horfa til allra átta.

Skýr stefna VG

Stefna Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er skýr. Síðastliðinn vetur lagði þingflokkurinn fram þingsályktunartillögu þar sem segir meðal annars að "hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið standi utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta. Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu".

Þingflokkurinn lagði ennfremur til að skipuð yrði nefnd fulltrúa allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni að nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar. Utanríkisráðherra landsins hefur nú tekið undir með þeim aðilum sem allar götur frá því EES-samningurinn var samþykktur árið 1993 hafa haldið því fram að samningurinn væri ekki í samræmi við stjórnarskrá Íslands. Sú spurning vaknar hvort þetta sé vísbending um að utanríkisráðherra muni leita eftir víðtækri pólitískri umræðu um stefnumótun gagnvart Evrópusambandinu. Vinstrihreyfingin-grænt framboð er reiðubúið til slíkrar umræðu með ígrundaða afstöðu og skýra stefnu.