Fara í efni

TOLLVARÐAFÉLAG ÍSLANDS 70 ÁRA

Í þessum mánuði minnast tollverðir þess að 70 ár eru liðin frá stofnun Tollvarðafélags Íslands. Tollverðir stóðu í framvarðasveit ýmissa hópa opinberra starfsmanna, sem stofnuðu stéttarfélög um líkt leyti – það er um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Í byrjun árs 1935 stofnuðu bankamenn samtök en framan af gerðu bankamenn sig líklega til að verða á meðal stofnfélaga BSRB. Þeir áttu aðild að undirbúningsviðræðum um stofnun samtakanna þótt á endanum yrðu þeir ekki í hópi þeirra sem stofnuðu BSRB árið 1942. Í kjölfar þess að tollverðir stofnuðu sín samtök, 8.desember árið 1935, kom að lögreglumönnum að stofna félag, en Lögreglufélag Reykjavíkur var stofnað 16. desember þetta sama ár. Í marsmánuði árið eftir var Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins stofnað, þá komu gagnfræðaskólakennarar og síðar framhaldsskólakennarar. Þetta voru greinilega ár mikillar félagslegrar gerjunar í hinum ört vaxandi opinbera geira.
Stofnun þessara félaga kann að einhverju leyti að eiga rót að rekja til varnarbaráttu en sótt var að opinberum starfsmönnum um þetta leyti með hótunum um launalækkun. Aðför ríkisvaldsins tókst hinum ungu félögum að hrinda og þegar gluggað er í þessa sögu kemur í ljós hve miklu samtakamátturinn hefur í reynd skilað á þeim sjötíu árum sem liðin eru frá þessum tíma. Við stofnun Tollvarðafélagsins var vinnudagur tollvarða 10 til 12 tímar á dag og enginn greinarmunur gerður á rúmhelgum dögum og helgidögum! Smám saman tekst hinu unga félagi að rétta hlut tollvarða og með stofnun heildarsamtaka opinberra starfsmanna nokkrum árum síðar hefst sókn fyrir bættum réttindum og kjörum sem staðið hefur fram á þennan dag.

Tollvarðafélagið efndi til hátíðar í tilefni afmælisins og af þessu tilefni var einnig efnt til sýningar á ýmsum munum og gögnum úr starfi tollvarða. Sýningin var fróðleg og minnir á hve mikilvægt er að halda til haga minjum frá liðinni tíð. Sýningin byggði á framtaki nokkurra einstaklinga úr röðum tollvarða sem eiga lof skilið fyrir framtakið. Um það hefur verið rætt að stofnað verði minjasafn lögreglunnar og hefur Landssamband lögreglumanna falast eftir gamla fangahúsinu við Skólavörðustíg til slíkra nota. Væri tilvalið að tollverðir fengju inni á sama stað fyrir minjasafn sitt, sem nú er kominn myndarlegur vísir að, ef komið yrði til móts við þessa ósk lögreglumanna.

Sjá nánar HÉR