Fara í efni

TÖKUM VALGERÐI SVERRISDÓTTUR Á ORÐINU– HLUSTUM Á HANA!

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra  kvartaði yfir því á Alþingi í dag að út úr orðum sínum væri snúið og að erfitt væri að tala til fólks sem "heyrir ekki það sem maður segir". Tilefnið var það að lánshæfismat Landsvirkjunar tók dýfu eftir þá yfirlýsingu Valgerðar að til stæði að einkavæða fyrirtækið á komandi árum. Valgerður sagði þetta alranga útleggingu á sínum orðum. Hún hefði aðeins sagt, svo vitnað sé í orð hennar frá í dag, að það"gæti verið" að fyrirtækinu yrði breytt í hlutafélag "sem opnaði á möguleika á að nýir aðilar komi að rekstri fyrirtækisins, þá eru það ákveðin skilaboð. Þetta getur komið til greina." Þetta sagði iðnaðarráðherra semsé á Alþingi í dag. Hún hefði með öðrum orðum aðeins velt vöngum yfir óljósum möguleika.

Ekki skildi Morgunblaðið yfirlýsingar ráðherrans á þennan veg því í forsíðufrétt blaðsins síðastliðinn föstudag segir m.a.:
" Lífeyrissjóðirnir kunna hugsanlega að verða framtíðareigendur sameinaðs fyrirtækis Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins að sögn Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra. Viljayfirlýsing um að ríkið leysi til sín eignarhluta Reykjavíkur og Akureyrar var undirrituð í gær og mun ríkið eignast fyrirtækið að fullu um næstu áramót, takist að ná samkomulagi um verð hlutar sveitarfélaganna tveggja. Áform eru uppi um að sameinuðu fyrirtæki verði breytt í hlutafélag eftir þrjú ár. "Á þeim tímapunkti verður að meta hvenær er rétt að opna fyrirtækið fyrir nýjum eigendum," segir Valgerður. "Það er búið að móta þá stefnu að til þess muni koma. Það er ekki okkar framtíðarsýn að ríkið eitt muni eiga þetta fyrirtæki til framtíðar." Hún sagði ekki búið að móta hugmyndir um framtíðarsamsetningu hluthafa, "en því er ekki að leyna að t.d. lífeyrissjóðir hafa verið nefndir í því sambandi."

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins,  fimmtudaginn 17. febrúar, sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra m.a."Já, það eru uppi áform ... um að breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag, hugsanlega árið 2008. Þá erum við komin í gegnum Kárahnjúkauppbygginguna og eftir að fyrirtækið er orðið hlutafélag að þá er ekki ólíklegt og reyndar áform uppi um það að aðrir aðilar geti komið að fyrirtækinu. Þetta er náttúrlega gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Vonandi verður ekki síður verðmætt á þessum tíma og það er engin sérstök ástæða til þess að ríkið haldi eitt utan um það."

Í fréttum Ríkissjónvarpsins fyrr sama kvöld viðurkenndi ráðherrann að vissulega gætu fjárfestar á markaði tekið arð út úr fyrirtækinu og að ekki væri hægt að útiloka að eignarhaldið yrði erlent, en studdi áform sín um einkavæðingu með eftrifarandi ummælum: "Ég held við séum svona almennt þeirrar skoðunar Íslendingar að ríkisrekstur sé ekki endilega besta formið."

Formið fyrir hvað? Rekstur á söluturni eða vatnsbólum Reykjavíkur? Valgerður, í einlægni spurt, viltu raunverulega að við hlustum eftir því sem þú segir? Ekki bara á það sem þú segir í dag heldur líka á það sem þú sagðir í gær og í fyrradag? Vill ráðherrann líka að við leggjumst í samanburðarrannsóknir? Við skulum reyna, en það kallar á sterkt taugakerfi.