Fara í efni

Tívolí á fjöllum

Einu sinni keypti ég mig inn á foss í Wales. Þetta var ný upplifun fyrir Íslending. Ekki var aðgangseyririnn hár og ekki sá ég eftir peningunum. En ég man að þetta hafði áhrif á upplifun mína á því sem bar fyrir sjónir. Mér fannst fossinn hálfómerkilegur, eiginlega fannst mér þetta vera platfoss. Ef ég hefði gengið fram á þennan foss ósnortinn í náttúrunni má vel vera að öðru máli hefði gegnt. Í Kastljósi í kvöld var m.a. fjallað um hugmyndir um að raflýsa Gullfoss. Þessi umræða hefur nú farið fram um skeið. Við upphaf hennar ákvað ég að reyna að halda huga mínum opnum og hlusta gaumgæfilega á rök með og móti. Mér fannst rök Hjörleifs Guttormssonar í Kastljósi í kvöld vega þungt. Það á við jafnt um útlendinga sem Íslendinga, að við hrífumst af íslenskri náttúru, ekki síst vegna þess hve ósnortin hún er. Þegar hún er "snert" er hætt við að hún verði eins og fossinn í Wales. Svolítið í plati. Eða eins og Hjörleifur Guttormsson orðaði það, eins og Tívoli á fjöllum.