Fara í efni

Tískupólitík eða pólitísk kjölfesta?

Birtist í Mbl
EF spurt væri hvað skipti þjóðina mestu máli þegar til framtíðar er horft þá held ég að í hjarta sínu myndu flestir óska sér þess að í landinu fái þrifist réttlátt samfélag með blómlegu atvinnulífi í sátt við náttúru landsins. Og flestir myndu bæta við þeirri ósk að í samfélagi þjóðanna bærum við gæfu til að koma þannig fram að við héldum fullri reisn og sjálfsvirðingu. Með öðrum orðum, að okkur væri best borgið með því að rækta mannauðinn, stuðla að félagslegu réttlæti, standa vörð um náttúru landsins og sjálfstæði þjóðarinnar. Þannig væri framtíðin best tryggð, þannig yrði fjöregg þjóðarinnar best varðveitt. Allt virðast þetta vera sanngjarnar óskir sem ætla mætti að flestir gætu skrifað upp á. Reyndin hefur hins vegar orðið önnur því stöðugt fjarlægjumst við þessi markmið.

Vaxandi misskipting, lýðræði á undanhaldi

Á undanförnum árum hefur félagsleg og efnaleg misskipting farið vaxandi; náttúrunni er ekki sýnd sú tillitssemi sem henni ber, í atvinnumálum er byggt á skammsýnum virkjana- og stóriðjuhagsmunum og í utanríkismálum hafa stjórnvöld gagnrýnislaust fylgt þeirri línu sem lögð er af erlendum stórveldum. Og meðan þessu vindur fram lætur lýðræðið undan síga því samruninn á Evrópusvæðinu hefur í för með sér valdaafsal af hálfu einstakra þjóðríkja og þar með skerðingu á lýðræðinu innanlands. Allt þetta hefur verið að gerast jafnt og þétt á undanförnum árum og hefur þjóðfélag okkar tekið miklum breytingum á þessum áratug. Því miður hafa þær í of ríkum mæli verið til ills en ekki góðs eins og efni standa til. Til marks um það skal látið nægja að minnast á það eitt að skýrslur landlæknisembættisins sýna nú í fyrsta sinn að efnalítið fólk veigrar sér við að leita læknis fyrir sig sjálft og börn sín vegna kostnaðar við læknisaðgerðir.

Um tíma stóðu menn í þeirri trú að þær kerfisbreytingar sem þröngvað hefur verið í gegn á liðnum árum tengdust sveiflum í efnahagslífinu; að gjaldtaka í heilbrigðiskerfi og skólum, tekjutenging í almannatryggingakerfinu og skerðing á félagslegum úrræðum, í húsnæðismálum og víðar, væri vegna efnahagsþrenginga; og að sama ætti við um einkavæðingu og sölu ríkiseigna. Allt væri þetta til komið vegna slæmrar skuldastöðu hins opinbera, þörf væri á peningum í kassann. Þess vegna yrði að selja mjólkurkýrnar. Og stóriðjustefnan og virkjanaáfergjan væri að sama skapi sprottin af illri nauðsyn, menn ættu ekki annarra kosta völ til að sporna gegn atvinnuleysi.

Að tolla í tískunni

Allt er þetta fjarri lagi. Að verulegu leyti eiga þessar breytingar rót að rekja til úthugsaðrar póltískrar stefnu sem byggir á þeirri trú að hömlulaus markaðsbúskapur sé mannkyninu fyrir bestu. Undir þessi merki hafa á síðari árum einnig skipað sér ístöðulitlir stjórnmálamenn og flokkar sem kenndir hafa verið við miðju stjórnmálanna, jafnvel vinstrikantinn, og eiga sér þann draum heitastan að geta kallast nútímalegir. Þessir aðilar leggja fyrst og fremst kapp á að tolla í tískunni. Og vegna þess að tíðarandinn hefur verið hægristefnu hagstæður, nýfrjálshyggjan í tísku, hafa þeir reynst harðdrægum hægrimönnum leiðitamir. Á þessum áratug hefur þjóðin horft agndofa fyrst á Alþýðuflokk og síðan Framsóknarflokk gerast hjálparkokkar Sjálfstæðisflokksins í boðun hans á fagnaðarerindi misskiptingarinnar. Þessir flokkar hafa meira að segja í sumum efnum gengið lengra en Sjálfstæðisflokkurinn og vekur athygli ákafi bæði talsmanna Samfylkingar og Framsóknarflokksins að mæra markaðssáttmála Evrópusambandsins.

Þörf á breytingum

Allt þetta minnir á hve mikilvægt það er að til staðar sé í íslenskum stjórnmálum sterkt afl sem lætur tískusveiflur stjórnmálanna ekki glepja sér sýn og er líklegt til að haga sér eins að loknum kosningum og í aðdraganda þeirra. Þeir sem eru sammála um nauðsyn þess að slík pólitísk kjölfesta sé fyrir hendi í íslenskum stjórnmálum eiga þess kost að veita Vinstrihreyfingunni ­ grænu framboði brautargengi í komandi þingkosningum.

Íslensk stjórnmál þurfa á uppstokkun að halda. Og í landstjórninni er þörf á gerbreyttum áherslum. Á Íslandi eru forsendur fyrir hendi til að allir þegnar þjóðfélagsins geti lifað við góð kjör og það er beinlínis rangt að fórna þurfi náttúru landsins á altari stóriðjuhagsmuna. Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð mun beita sér fyrir efnahagslegu og félagslegu réttlæti, standa vörð um náttúru landsins og sjálfstæði þjóðarinnar.