Fara í efni

TÍMI UPPRIFJUNAR UM ÞJÓÐARSÁTT

bsrb - 1. maí
bsrb - 1. maí

Þessa dagana er nokkuð um efnt sé til ráðstefnuhalds um kjaramálin og er þá fyrst og fremst  horft fram á veginn en einnig til baka megi það verða til þess að draga lærdóma af reynslunni.

Þar hefur ekki síst verið staðnæmst við Þjóðarsáttina svokölluðu frá 1990. Þjóðarsáttin var um margt merkileg, einkum að því leyti að hún endurspeglaði breiðan vilja í þjóðfélaginu til að keyra niður verðbólgu og vexti og treysta kaupmátt launa.

Í fréttum RÚV í kvöld kom það sjónarmið fram hjá núverandi talsmanni atvinnurekenda að þjóðarsáttin hefði varað stutt því fljótlega hafi flest gengið úr böndunum, óhóflegar kauphækkanir nefndi hann sérstaklega, þær hefðu fylgt eftir stutt hlé og verðbólgan farið af stað. .

Þeta eru nokkrar ýkjur en engu að síður er hægt er að taka undir það sjónarmið að Þjóðarsáttin hafi varað stutt en það var fyrst og fremst vegna þess að varla hafði blekið þornað á undirskriftum samninganna þegar atvinnurekendur tóku að knýja á um margvíslegar kerfisbreytingar, þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu og einkavæðingu sem átti eftir að ágerst eftir því sem leið á tíunda áratuginn. Gleymum því ekki að á miðju ári 1990 urðu stjórnarskipti, félagshyggjusinnuð ríkisstjórn vék fyrir þekktum hægri  kokteil frá fyrri tíð, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Nú var farið að tala um mikilvægi þess að innræta sjúklingum kostnaðarvitund. Þessi afstaða varð til þess að gera BSRB fullt efasemda um framhaldið og gætti vaxandi þunga af hálfu samtaknnna í garð stjórnvalda og atvinnurekenda. Meira þurfti til að hreyfa við ASÍ. 

Hinn  9. nóvember árið 2005 flutti ég erindi á ráðstefnu  hjá  Félagi stjórnenda ríkisstofnana þar sem ég freistaði þess að setja þjóðarsáttarsamningana  í sögulegt samhengi.  Ég ræddi þar aðkomu BSRB að samningunum og vék þá meðal annars að skammtímasamning frá vordögum 1989:

„ ...Þetta var undanfari Þjóðarsáttarsamninganna svokölluðu árið 1990, en þessir samningar frá vordögum 1989 voru merkilegir fyrir ýmissa hluta sakir. Alþýðusambandið hafði allan níunda áratuginn reynt að ná samningum á grundvelli þess að hemja verðlag og ná því niður en opinberir starfsmenn höfðu hins vegar fyrst og fremst reist kröfur um kauphækkanir. Í þessum samningum vendir BSRB hins vegar sínu kvæði í kross, leggur áherslu á jafnlaunasamninga einsog oft áður, með krónutöluhækkunum, en tekur nú jafnframt að horfa mjög stíft á verðlagið ... BSRB og ASÍ voru þarna komin í betra kallfæri en í langan tíma þótt segja megi að samningarnir 1986 hafi að nokkru leyti verið á sambærilegum forsendum. Nú voru það útgjöld heimilanna sem einblínt var á fremur en innkoman í launaumslagið. Á þessum tíma var samdráttur í efnahagslífinu, samhliða óðaverðbólgu, um 30% á árinu 1989 og sú stemning ríkjandi að allir þyrftu að leggjast á árarnar til að ná verðlagi niður. Þjóðarsáttin svonefnda, sem samið var um í ársbyrjun 1990 hefði aldrei orðið til án BSRB, og þeirrar stefnubreytingar sem þarna varð og hefur hlutur samtakanna í því efni verið stórlega vanmetin af flestum þeim sem skrifað hafa um þetta tímabil.
Á þessum tíma urðu erfið - en sem betur fer aðeins tímabundin - vinslit með BSRB og BHM - en síðarnefndu samtökin keyrðu á kröfu um launakerfi sem byggði á þremur þáttum, sem áttu að fá sérstakt vægi: Menntun, stjórnunarlegri ábyrgð og fjármálaábyrgð. Ríkið og BHM gerðu síðan með sér samning haustið 1989 sem byggði á því að háskólamenn skyldu fá allar þær hækkanir sem BSRB kæmi til með að semja um næsta hálfa áratuginn og launakerfistilfærslur á framangreindum forsendum í ofanálag. Þessum samningum var síðar rift - þeir sviknir - en það verður að segjast eins og er að þeir gengu þvert á stefnu BSRB á þessum tíma ... Ég nefni þetta allt vegna þess að í þessari fortíð urðu til þræðir sem rekja má inn í samtímann...."

Sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvert-stefnir-hja-samtokum-launafolks-innan-almannathjonustunnar

Yfirlýsingar atvinnurekenda og stjórnvalda nú um að huga beri að þjóðarsáttarlausnum í anda þess sem gert var 1990 minnir okkur á mikilvægi sagnfræðinnar. Vönduð sagnfræði kennir að lífið er ekki alltaf alveg eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn. Þannig þýðir lítið fyrir samtök atvinnurekenda að biðja lægst launaða fólkið að sætta sig við bág kjör sín á meðan þeirra menn hlaða á sig bónusum, ójöfnuður vex í þjóðfélaginu  og pólitískir samherjar þeirra í Stjórnarráðinu boða einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þjóðarsáttin 1990 var gerð í trausti þess að kjörin yrðu jöfnuð í þjóðféalginu. Þegar sú sátt var rofin var þjóðin ekki lengur að baki sáttinni. Og það segir sig sjálft að án alildar hennar var engin þjóðarsátt.